Örvitinn

Eigandi DV í drottningarviðtali

Fyrir skömmu skipti dagblaðið DV um eigendur. Eignarhald er dreift auk þess sem enginn aðili getur farið með meira en 26% atkvæðamagns í ákvörðunum félagsins þó eignarhlutur sé stærri. Þannig er komið í veg fyrir að einhver geti stjórnað DV í krafti peninga.

En fólk þarf ekki endilega að stjórna öllu til að hafa ítök, það getur verið nóg að eiga lítinn hlut til að hafa áhrif.

Í síðasta helgardagblaði er stórt opnuviðtal við séra Þóri Jökull Þorsteinsson fyrrverandi prest í Kaupmannahöfn. Í viðtalinu fjallar hann um það hve mikilvægt starf sitt í Kaupmannahöfn hafi verið, hve erfitt hafi verið að missa það og svo framvegis. Honum þykir greinilega algjör skandall að ríkið kosti ekki til prest í útlöndum, þar sem þó er fyrir nóg af prestum

„Ég man eftir mikilli reiði í messukaffinu í Jónshúsi eftir guðsþjónustuna þar sem ég tilkynnti að þessi hugmynd væri komin upp. Fólk furðaði sig á því hvernig yfirvöld voguðu sér að taka frá fólkinu þennan eina aðila sem það hefði óskoraðan aðgang að upp á sálusorgun á eigin tungumáli, á degi sem nóttu.“ #

Já, hvers á fólk að gjalda sem ákveður að búa í útlöndum. Þarf það að sætta sig við að geta ekki fengið þjónustu (óskoraðan aðgang) á íslensku? Sveiattan!

Einnig fjallar Þórir Jökull um fjarsamband sitt við danska vinkonu sína, hvernig hann fann trú (Jesús talaði við hann í draumi!) og þá ákvörðun að fara í guðfræði. Það virðast margir fara í guðfræði eftir að hafa frelsast sem segir okkur kannski ýmislegt, ég veit það ekki.

Eitt kemur þó ekki fram í þessu langa viðtali. Það er ekki nefnt að séra Þórir Jökull á lítinn hlut í DV (1.57%) og situr í stjórn blaðsins.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Jón Magnús - 19/05/10 10:27 #

Fyrir þessi 1.57% fær hann kannski u.þ.b. eina grein um sjálfan sig á mánuði :)

Matti - 19/05/10 10:30 #

Tja, ætli þessa eina grein og svo almennt jákvæð umfjöllun um ríkiskirkjuna sé ekki ágætur arður?

Annars treysti ég á að DV haldi áfram að gagnrýna allt og alla.

Óli Gneisti - 19/05/10 10:40 #

Hann virðist nú ekki vera kominn á vonarvöl eftir að hafa misst vinnuna ef hann getur eytt peningum í að kaupa hlut í DV.

Matti - 19/05/10 10:41 #

Það kemur fram í viðtalinu að hann er á biðlaunum í eitt ár. Auk þess virðist hann hafa haft það nokkuð gott í Kaupmannahöfn með staðaruppbót og þessháttar eins og aðrir embættismenn í útlöndum. Hrun krónunnar hlýtur nú samt að hafa haft einhver áhrif.