Örvitinn

Af óförum kirkjunnar

Karl Sigurbjörnsson biskupÓskaplega er ástandið erfitt hjá ríkiskirkjunni þessa dagana. Prestarnir neita að spara jafn mikið og aðrir og reita fólk til reiði. Umfjöllun um (margvíslega og ítrekaða) kynferðislega misnotkun presta og annarra préláta kirkjunnar bætir ekki stöðuna.

Ég sé marga skammast í kirkjunni en það dugar skammt að tuða. Þetta er ríkiskirkjan ykkar, þið haldið henni uppi og stjórnmálamennirnir ykkar verja hana.

Fámennur hópur hefur í mörg ár reynt að benda á ruglið í kringum ríkiskirkjuna og fyrst og fremst uppskorið skítkast og dylgjur (sem er meira að segja kennsluefni við Háskóla Íslands).

Það sem ég vil segja við ykkur sem eruð ekki sátt við þessa blessuðu ríkiskirkju er einfaldlega: SKRÁIÐ YKKUR ÚR ÁRANS RÍKISKIRKJUNNI og gangið lengra en það, ræðið við fólk sem þið þekkið um að gera það sama. Ríkiskirkjan er og hefur alltaf verið þjóðarmein, sníkjudýr sem hangir á þjóðinni en þykist halda í henni lífi. Það þarf að skera hana af hratt og örugglega. Þetta er einfalt, það þarf ekkert að semja um jarðir eða slíkt. Setjið bara lög og látið kirkjuna éta það sem úti frýs. Drottinn sér um sína.

Auðvitað er fullt af fínu fólki starfandi í kringum blessaða kirkjuna en það skiptir ekki nokkru máli. Þetta fína fólk heldur áfram að vera til (og vonandi fínt), sumir munu áfram starfa hjá sjálfstæða og hógværa trúfélaginu sem tekur við af ríkiskirkjunni, aðrir munu finna sér nýja vinnu. Hafið ekki áhyggjur, Drottinn sér um sína.

Meðan mikill fjöldi fólks er skráður í þetta apparat geta formælendur kirkjunnar haldið því fram að þeir megi þetta og eigi þetta, eins og þeir gera reglulega þessa dagana, nákvæmlega eins og skrúðkrimmarnir - nákvæmlega eins.

Skráið ykkur úr ríkiskirkjunni. Það er eina leiðin til að flýta því að ríki og kirkja verði aðskilin. Stjórnmálamenn hafa ekki kjark til að gera neitt í þessu, kirkjan á peninga og hefur sterka lobbíista. Þetta verður að koma úr grasrótinni, frá fólkinu. Fleiri þurfa að hafa fyrir því að skrá sig og sína úr kirkjunni.

Margir þeirra sem hafa verið að blogga um kirkjuna hafa fyrir löngu sagt sig úr henni, þeir þurfa ekkert að taka þetta til sín. Ég hvet þá til að minna lesendur sína á að með því að vera meðlimur í ríkiskirkjunni er fólk beint og óbeint að styðja allt sem það apparat stendur fyrir.

kristni kvabb
Athugasemdir

hr. Maack - 14/08/10 13:38 #

Af þessum skrifum þínum að dæma ætti að breyta nafni þessarar síðu í 'stórvitinn'. :-D

baldur mcqueen - 15/08/10 00:45 #

Takk fyrir þetta Matti.

Hvernig er það; ég flutti með fjölskylduna (frá Íslandi) fyrir um fimm árum síðan og hef ekki komið til landsins síðan.

Er ég enn skráður í þjóðkirkjuna, eða afskráðist ég (og fjölskyldan) sjálfkrafa þegar við fluttum út?

Matti - 15/08/10 00:52 #

Þið eruð ekki lengur skráð þar sem þið eruð ekki búsett á Íslandi. Ég verð að játa að ég veit ekki hvað gerist þegar fólk flytur til landsins.

Útlendingar sem hingað flytja eru ekki lengur skráðir í trúfélag og flokkast undir Önnur trúfélög og ótilgreint hjá Hagstofu. Ég veit ekki hvað gerist þegar íslendingar flytja aftur til landsins, þ.e. hvort þeir skrást eins og útlendingar eða hvort þeir eru skráðir í gamla trúfélagið sitt.

Sigurjón - 15/08/10 02:25 #

Hvernig er það, eru bara tvær leiðir til að senda þetta eyðublað á Þjóðskrána, via fax eða fara með það til þeirra. Er til að mynda ekki hægt að senda það með venjulegum pósti?

Þórður Ingvarsson - 15/08/10 04:07 #

Þetta er nefnilega undarlega flókið eyðublað. Undarlegt í því ljósi hvað maður þarf að hafa mikið fyrir þessu tiltekna máli miðað við hversu lítið maður þarf að hafa fyrir því að staðfesta opinberlega "trúna"...

... og einnig í því ljósi hvað þetta skiptir engu máli en skiptir samt mjög miklu máli.

Matti - 15/08/10 11:25 #

Jú, það er hægt að senda það í pósti á Hagstofuna: Hagstofa Íslands | Borgartúni 21a | 150 Reykjavík

Sara - 29/10/10 13:15 #

ég er stolt að segja að ég skráði mig úr kirkjunni daginn sem ég varð 18 ára..