Örvitinn

Hjólastígurinn á Hverfisgötu

Grænn hjólastígur á HverfisgötuÓk Hverfisgötu áðan eftir að ég skutlaði Áróru í MR. Kíkti á hjólastíginn í leiðinni. Mér þótti hugmyndin góð þegar ég las um hana en þegar ég skoðaði útfærsluna finnst mér þetta eiginlega út í hött. Hjólastígurinn er nefnilega í ótal bútum. Ef fólk ætlar að hjóla Hverfisgötuna fer það 50 metra á grænni braut, þarf svo að fara út á götu eða upp á gangstétt næstu 20 metra og svo aftur á grænu slóðina. Þannig að mér sýnist þetta ekki ganga upp þó hugmyndin sé athyglisverð.

Nema hugmyndin hafi verið að losna við bíla af stæðunum við Hverfisgötu. Þá virkar þetta mjög vel.

pólitík
Athugasemdir

Sverrir - 20/08/10 09:24 #

Það er lítið mál að hjóla á götunni á Hverfisgötu, þannig séð. Manni dettur í hug að hjólastígurinn hafi verið settur til að hjólreiðamenn hætti að „flækjast fyrir“ bílunum sem þurfa stundum að minnka aðeins hraðann.

Varðandi hjólastíga þá virðast borgaryfirvöld af einhverjum ástæðum ákveðin í að læra ekki af því sem hefur verið gert varðandi hjólastíga í Kaupmannahöfn þar sem þeir virka mjög vel.

Svenni - 20/08/10 10:18 #

Skemmtilegt einmitt að þessi brotakenndi hjólastígur er eiginlega smækkuð mynd af hjólastígakerfi borgarinnar. Það er sundurslitið, samhengislaust og frekar tilgangslaust sem slíkt. Þessvegna er ekkert vit í að vera að leggja bílastæði við fjölfarnar íbúðagötur í miðbænum undir hjólastíg. Það breytir engu, gerir engan öruggari og fær ekki fleiri til að hjóla.

Hjólastígar virka bara þar sem fólk getur stólað á þá og líka stólað á að allir virði sömu reglurnar. Eins og staðan er í dag er best að gera ekki neitt fyrir hjólreiðafólk í staðinn fyrir svona fiff. Mikið betra og öruggara að stóla bara á eigið hyggjuvit 100% af leiðinni.