Örvitinn

Örviti fer í bíó

Örvitinn og eiginkonan ákváðu að gera sér dagamun og skella sér í bíó í kvöld. Um þessar mundir er haugur af áhugaverðum myndum í bíóhúsum borgarinnar þannig að það var úr vöndu að ráða. Ákváðum að skella okkur á Black Swan sem fengið hefur góða dóma. Svo er Natalie Portman víst í einhverju lesbíuatriði en ég sagði Gyðu ekkert frá því.

Þar sem rafmagnið fór af Bakkaseli í kvöld vorum við á síðustu stundum með kvöldmatinn og ég fjárfesti því í miðum á myndina á miði.is áður en við rukum út. Í stað þess að prenta miðana út lét ég senda mér strikamerki í símann með mms skeyti. Hef prófað það áður og það virkar svona líka vel.

Þegar við mættum í Smáralind var hópur fólks fyrir framan bíósalinn þannig að ég skellti mér í hrúguna meðan Gyða fór að kaupa popp og sódavatn. Ég fékk sæti á besta stað, fyrir miðja röð. Gyða kom eftir smá stund, hafði ekki fundið salinn strax.

Hvað um það, við gláptum á auglýsingar og kynningar á bíómyndum í tuttugu mínútur, það er ekki eins og við höfum borgað ellefu hundruð krónur til að sjá bíómynd klukkan átta. 20:20 byrjaði loks bíómynd en það var bara alls ekkert myndin sem við vorum mætt til að horfa á. Í staðin var okkur boðið upp á stórvirkið Just Go with It með Adam Sandler. Við vorum greinnilega ekki eina fólkið sem var komið í vitlausan sal því fólkið á endanum á röðinni fyrir framan okkur rauk strax út en við kunnum ekki við það þar sem við sátum í miðjunni! Þannig að við sátum fram að hléi og horfðum á þessa hroðalega leiðinlegu mynd. Við misstum af myndinni eftir hlé, fórum í staðin í bíltúr! Það eina sem ég gat hugsað meðan ég glápti á þessa mynd er að fólk borgar sig í alvörunni viljandi inn á svona myndir - spáið í það. Hvað er eiginlega að?

Ég veit ekki af hverju ég var búinn að ákveða að myndin væri í sal eitt. Þetta var algjörlega mér örvitanum að kenna.

kvikmyndir
Athugasemdir

Matti - 17/02/11 07:36 #

Mistökin voru mín.