Örvitinn

Vítisenglar, fátækt og kommúnismi

Forsíðumynd Morgunblaðsins eftir Golla er af félögum í MC Iceland að setja upp skylti Vítisengla við húsnæði sitt í Hafnafirði. Í miðju blaði er umfjöllun um Vítisengla og rýmkun rannsóknarheimilda lögreglunnar. Rætt er við Höllu Gunnarsdóttur aðstoðarkonu Ögmundar um málið inni í blaðinu. Þess má geta að forsíðumynd Fréttablaðsins er mjög lík en það er meira að gerast á myndinni í Mogganum.

Svelta sig til að eiga mat fyrir börnin er fyrirsögn fréttar um fátækt meðal öryrkja. Það er gott að Morgunblaðið hefur áhyggjur af stöðu þessa hóps. Megi blaðið halda þeirri umfjöllun áfram.

Við sleppum ekki við Icesave. Á annarri síðu er frétt um kostnað samninganefndarinar sem ekki fæst uppgefinn þar sem ráðuneytið er ekki búið að taka hann saman. Það er náttúrulega skelfilegt að við skulum hafa borgað þessu fólki og eitthvað segir mér að Morgunblaðið muni nota það gegn samningarnefndarfólki þegar í ljós kemur að það hefur fengið vel borgað fyrir störf sín.

Ágæt fréttaskýring um Stígamót er á blaðsíðu sex þar sem fram kemur að oftast sé brotið á ungu fólki.

Skopmynd dagsins er skelfileg, Icesave samninganefndin sett í gervi vítisengils. Smekklegt!

Staksteinar dagsins afrita bloggskrif Gunnars Rögnvaldssonar sem segir meðal annars:

Það eina sem hefur breyst er að nú verður ríkissjórnin að sækja sér fjármagnið innanlands; hjá börnum, gamalmennum, vinnandi og líka veiku fólki. Til þessa notar ríkisstjórnin einn fremsta kosningasvikara Íslandssögunnar til að villa um fyrir þjóðinni. Hann kann það fag fram í alla fingurgóma. Hér er kominn á vígvöllinn sjálfur Steingrímur J. Sigfússon, gamall en þvottekta kommúnisti. Liturinn fer aldrei úr honum.

Ríkisstjórnina vantar bráðnauðsynlega peninga til að fylla aftur á bankana sem engar líkur voru á að tæmdumst né færu í gjaldþrot. Hana vantar peninga sem hægt er að flytja út og efa í útlöndum svo hún sjálf geti setið hér aðeins lengur. Aftur er stuðst við líkindareikninginn. Eða ætti ég að segja útreikninginn fyrir líkin.

Þetta birtist í alvörunni í Morgunblaðinu í dag. Blaði sem mótar skoðanir fjölmargra landsmanna. Í alvöru talað Davíð, þetta er hrikalega ósmekklegt.

Fyrst við erum að tala um kommúnisma. Þetta er eins og í Sovétríkjunum segir öryrki um ástandið á Ísland. Sú hefur það augljóslega mjög slæmt, fyrst og fremst vegna kostnaðar við bíl sýnist mér af greininni.

Hún hefur venjulega um 90.000 kr. til annarar neyslu (en húsaleigu) á mánuði og segir bróðurpartinn fljótan að fara komi eitthvað upp á. Þá hafi hún greitt 153.000 krónur í lyfjakostnað á síðustu 10 mánuðum. Sé sú upphæð og mánaðarleg kaskótrygging af bílnum dregin frá mánaðartekjum standi eftir um 68.000 krónur á mánuði til að standa straum af heimilishaldi, rekstri lítillar Toyota-bifreiðar og öðrum útgjöldum. Hún kveðst borga um 40.000 í skatt á mánuði.

Guðmundur Magnússon formaður Öryrkjabandalags Íslands að einstæðar mæður með geðraskanir séu hræðilega illa settar.

Leiðari dagsins fjallar um Stefán Ólafsson prófessor og formann Tryggingastofnunar. Þennan pistil væri hægt að skrifa nær óbreyttan um annan mann - þann sem leiðarann skrifar. Í leiðara er einnig drullað yfir utanríkisráðherra sem sagður er "belgja sig út" útaf Líbíu en hafi ekki þorað því áður.

Sigurður Kári skrifar grein um að farið sé á svig við Hæstarétt (er alltaf einhver framámaður í Sjálfstæðisflokk á leiðarasíðu Morgunblaðsins?). Við hlið hans er Ögmundur alvarlegur á svip að skrifa um auknar rannsóknarheimildir lögreglu sem eru skýr skilaboð gegn ofbeldi.

"Vinstri grænir guggnuðu" er titill greinar Sigurjóns Þórðarsonar, Örvar Guðna Arnarssonar skrifar um rangfærslur Friðriks Más. Friðrik Þór hafði vogað sér að vera örlítið jákvæður gangvart horfum í Icesave málum.

Ellefu blaðsíður af 56 fara undir minningargreinar í blaði dagsins. Heil síða fer undir messur á morgun.

Víkverji skrifar um Gaddafi blessaðan og símasölufólk og stjörnuspá dagsins er þessi:

Viðfangsefnið þitt þessa daga er langtímaátælun tengd fasteignum eða dvalarstað. Þú finnur fyrir miklum styrk núna.

Uh, nei.

Menningin er á sínum stað. Ég renni nú alltaf yfir það. Í þetta skipti las ég viðtal um Mugison og grein um að grenja í bíó. Ég grenja oft yfir bíómyndum.

Baksíðan fjallar um Katrínu Jónsdóttur knatspyrnukonu.

moggamars
Athugasemdir

Ásgeir - 05/03/11 16:27 #

Hvers konar kommúnismi er það að leggja fé í banka? Morgunblaðið getur kannski útskýrt það fyrir mér?