Örvitinn

Löggjafarvald ríkiskirkjunnar

‎"Þjóðkirkjan tók af skarið og samþykkti ný lög sem leggja að jöfnu hjónavígslu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. " #

Skrifar séra Þórhallur Heimisson í grein í Fréttablaðinu í dag. Gæti einhver útskýrt fyrir mér hvenær nákvæmlega löggjafarvaldið var flutt til ríkiskirkjunnar?

Tók kirkjan í alvöru "af skarið"? Ég stóð í þeirri trú að nákvæmlega sú ríkiskirkja sem séra Þórhallur starfar fyrir hefði komið í veg fyrir að breytt hjúskaparlög kæmust í gegn um þingið og tafið málið um nokkur ár. A.m.k. var það sú hlið málsins sem ég heyrði frá þingmanni árið 2005. Vissulega er rétt að kirkjan ákvað loks að hætta að berjast gegn mannréttindum samkynhneigðra. Fyrir það má hrósa henni, batnandi kirkju og allt það. Fyrir að hafa barist gegn réttindum samkynhneigðra svo lengi ætti aftur á móti að refsa ríkiskirkjunni. T.d. með því að hætta að hafa ríkiskirkju.

Orð séra Þórhalls minna á skopmynd Halldórs um stöðu ríkiskirkjunnar.

kristni
Athugasemdir

Óli Gneisti - 20/01/12 09:38 #

Á fyrsta Vantrúarhittingnum 2003 man ég eftir því að þú varst að ræða þessi mál. Þú spáðir því að, eins og með kynjajafnrétti, þá myndi kirkjan eigna sér framfarir í mannréttindamálum samkynhneigðra þrátt fyrir að flestir innan kirkjunnar hefðu lengst af staðið gegn þessum málum.

Þú líktir þessu við lest. Þú sagðir að kirkjan væri eins og náunginn sem hleypur á eftir lestinni til að ná henni, treður sér fremst og fer að halda því fram að ekki nóg með að hann hafi verið fyrstur um borð heldur hafi hann smíðað lestina.

Matti - 20/01/12 09:47 #

Óskaplega var það fín líking hjá mér :-)

Óli Gneisti - 20/01/12 10:10 #

Já, alveg merkilegt, yfirleitt fer það sem þú segir inn um annað eyrað mitt og út um hitt meðan ég er að reyna að koma sjálfum mér að í samræðunum en þetta festist.

Bjarki - 20/01/12 11:47 #

Stjórnmálamennirnir gáfust svo upp á að bíða eftir kirkjunni og samþykktu nýju hjúskaparlögin í júní 2010 þrátt fyrir að kirkjan væri þá enn að engjast um í innri deilum um þetta mál og ófær um að komast að niðurstöðu. Í kjölfarið er samþykkt á kirkjuþingi að uppfæra samþykktir kirkjunnar til þess að hún starfaði í samræmi við landslög um leið og hreytt var ónotum í Alþingi fyrir að hafa ekki haft samráð við kirkjuna í málinu!

Þetta kallar Þórhallur að kirkjan hafi "tekið af skarið" í réttindamálum samkynhneigðra.

Skorrdal - 20/01/12 12:07 #

Kirkjan stóð ekki í vegi fyrir þessum umbótum í "nokkur ár"; kirkjan stóð gegn öllum breytingum á hjúskaparlögum og stóð fast gegn lögum um staðfesta samvist, svo andstaða hennar stóð í raun yfir hátt í 2 áratugi! Umræða um málefni samkynhneigðra hófst innan kirkjunnar á níundaáratugnum og var kirkjan stóð kirkjan alveg þver gegn nokkrum umbótum okkur í vil, allt til ársins 1996, þegar lög um staðfesta samvist voru samþykkt.

Matti - 20/01/12 12:40 #

Það var ekki ætlun mín að fegra hlut ríkiskirkjunnar ;-)

spritti - 22/01/12 19:15 #

Þetta er náttúrulega bara bilun.