Örvitinn

RÚV, Morgunblaðið og áróður

Þegar ritstjórar og blaðamenn Morgunblaðsins kvarta undan því sem þeir telja áróður í Ríkisútvarpinu er ekki laust við að maður hugsi: Vitið þið hvar þið vinnið?

"Áróður í stað hlutlægni og óhlutdrægni" er fyrirsögn leiðara laugardagsblaðsins. Fórnarlamb áróðursins var nýfrjálshyggjan, í Speglinum var sagt, í umfjöllun um ástandið í Þýskalandi:

Og þó að því fari fjarri að nýfrjálshyggjan hafi valdið jafn miklum hörmungum hér í Þýskalandi og hún gerði á landi elds og ísa norður í ballarhafi þar sem hún lagði efnahagslífið nánast í rúst þá olli hún engu að síður margvíslegum skakkaföllum í fjármálalífi þjóða hér á meginlandinu.

Þetta þótti Davíð full mikið af því góða. Hvernig vogar fólk á RÚV sér að tala svona?

Það má vel vera að það sé stundum áróður í RÚV en það er ljóst að Morgunblaðið er nær ekkert annað en áróður.

En við borgum öll fyrir RÚV! Já, við borgum líka öll fyrir Morgunblaðið og Ríkiskirkjuna.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Birgir Baldursson - 04/02/12 14:18 #

En gefur RÚV sig ekki út fyrir að vera hlutlægur miðill í eigu þjóðarinnar? Það er vitað að Mogginn er flokkspólitískt blað og því áróðurssnepill. Ef RÚV er farið að stunda Moggískan áróður má alveg gagnrýna það.

Má ekki líkja þessu við kvörtun Vantrúar gagnvart guðfræðideildinni? Við kvörtuðum yfir áróðri þar, enda um háskólakennslu að ræða. Slík kvörtun táknar ekki að Vantrú skuli ekki heldur vera með áróður, við erum yfirlýst áróðursmaskína í einhverjum skilningi, gagnrýnum hindurvitini og skrifum hugvekjur.

Þótt hinn flokkspólitíski Moggi stundi áróður gefur það ekki RÚV leyfi til að gera hið sama, ekki frekar en að áróður Vantrúar gefi guðfræðideildinni frítt spil til að stunda áróður á móti. Auðvitað má setja fram gagnrýni á málflutning okkar þar, skoða hann og greina, en það var ekki gert, heldur var forðast eins og heitan eldinn að horfa á hann (málflutninginn) en farið beint í manninn.

En hvort Mogginn hafi eitthvað fyrir sér í þessum kvörtunum sínum (sem ég hef ekki séð) er svo allt annað mál og allt önnur umræða.

Matti - 04/02/12 14:19 #

Þetta var enginn áróður, bara ósköp sanngjörn málsgrein um nýfrjálshyggjuna.

Best að taka fram að ég uppfærði bloggfærsluna skömmu áður en Birgir skrifaði athugasemd, setti inn það sem Morgunblaðið kvartar undan.

Einar - 04/02/12 14:27 #

Þvílíkur hræsnari þessi maður.

Ásgeir - 05/02/12 12:43 #

Er þetta ekki bara satt sem var sagt í útvarpinu?