Örvitinn

Einbeitingarskortur

fjallasýn

Var að enda við að lesa ókeypis rafrænu bókina Focus sem ég fann á bókasíðunni hacker shelf.

Ég á alltof oft erfitt með að einbeita mér, einblína á eitt tiltekið verkefni í drjúga stund. Áður en ég veit af er hugurinn farinn að ráfa fram og til baka, út og suður, allt annað en að því sem ég ætlaði að einbeita mér að.

Internetið er versti óvinur einbeitingarinnar en alls ekki sá eini. Það er alltaf hægt að finna eitthvað áhugavert á netinu. Einhver smá viðvik sem "þarf" að sinna, tölvupóstar sem þarfnast svara, messenger umræður sem "krefjast" þátttöku, greinar sem forvitnilegt er að lesa, áhugavert spjall, vísun á Facebook, twitter færsla, greinar á reddit, myndbönd sem skoða sig ekki sjálf. Einbeitingarleysið er stundum orðið það mikið að maður getur ekki einu sinni fókusað á það sem dró hugann frá verkinu, maður klárar ekki að lesa langar bloggfærslur í einum rykk heldur ráfar milli vefsíðna, horfir á hálft myndband, hlustar á fyrirlestur meðan maður les grein um óskylt efni. Ekkert situr eftir nema lágvært suð.

Við erum sum jafnvel háð því að vera tengd.

Being connected is an addiction — and it’s one that can be extremely hard to beat. Trust me, I struggle with it myself, all the time.

Like any addiction, connection has very quick positive reinforcements and only long-term negative consequences. When you take drugs or eat junk food, for example, you get instant pleasure but the negative health effects aren’t felt until much, much later, when you’re already firmly addicted. So you get the positive reinforcement immediately, each time you do the addictive activity such as eating sweets or taking drugs, giving you a pleasure rush and making you want to do the activity again, as soon as possible. You get the positive reinforcement again, and again, and again, in a constant cycle of positive reinforcement, and soon you’re addicted. Focus, bls. 23

Svo er það skvaldrið í opna nútímalega vinnurýminu, símtalið í næsta bás, rökræðurnar á ganginum, taktfasta stappið, óplanaði fundurinn, símtalið frá kúnnanum og farsíminn sem hristist og hringir hátt á skrifborðinu í þarnæsta bás meðan eigandinn er víðs fjarri. Við notum áreiti til að útiloka áreiti, tónlist í heyrnartólum. Alvöru kyrrð er eitthvað sem við lesum um í bókum.

Í bókinni Focus er lagt upp með að einfalda hlutina. Taka tíma án áreitis til að sinna verkefnum, hvort sem það er að skapa eitthvað, lesa bók eða grein eða bara njóta stundarinnar. Gera færra og minna. Útiloka áreiti í tiltekinn tíma, bara einhvern lítinn tíma. Slökkva á tölvupóstinum og messenger, blokkera síður sem ekki tengjast því sem við ætlum okkur að gera og slökkva á netinu ef við þurfum ekki að vera á netinu til að ljúka verkinu. Taka til á skrifborðinu og skjáborðinu, hafa ekkert í gangi sem ekki þarf að vera í gangi. Það er ekkert að gerast á Facebook eða Twitter.

Ég hef alltaf verið lítið fyrir svokallaðar sjálfshjálparbækur en mæli með því að þið sækið Focus, afritið í spjaldtölvuna ef þið eigið slíkt tæki, slökkvið á internetinu og lesið þessar rétt rúmu hundrað síður. Ættuð að geta afgreitt það á einum eða tveim klukkutímum ef þið einbeitið ykkur.

Ég ætla að slökkva á netinu og einbeita mér að því að stúdera þýðendur í dálitla stund.

Ýmislegt
Athugasemdir

Erna Magnúsdóttir - 17/03/12 15:03 #

Ef þú notar Mozilla þá mæli ég með Leechblock. Ég nota það til að læsa ákveðnum síðum þegar ég vil einbeita mér.

Ég finn mikið fyrir þessu sama og þú, ætli við séum ekki flest að díla við þennan "vanda". Finnst ég oft vinna best á kvöldin þegar það róast í vinnunni og færri eru á staðnum.

Matti - 17/03/12 15:06 #

Já, það er oft gott að vera með "einkaskrifstofu" á kvöldin.

Jón Thoroddsen - 17/03/12 18:50 #

Takk fyrir linkinn á Focus. Tékka á henni.

Annars hef ég hef náð ágætis árangri í einbeitingu með Pomodorotækninni.

Frí PDF útgáfa af bókinni