Örvitinn

Stuðandi ummæli bönnuð?

Á sama tíma og allt á að vera upp á borði, baktjaldamakk er litið hornauga og spurningmerki sett við það ef einhverjir eiga einkaspjall, eru orð og skrif fólks reglulega rifin gróflega úr samhengi og skrumskæld til að láta fólk líta illa út ef það tjáir sig opinberlega.

Er þetta ekki bullandi þversögn?

Þeir sem fyllast heilagri vandlætingu líta yfirleitt ekki á sig sem ritskoðunarsinna en það eru þeir þó í raun. Sífellt skal þeim refsað sem halda sig ekki fyrir innan "strikið". Lexían er einföld, ekki segja neitt sem getur hugsanlega orkað tvímælis.

Ef opinber umræða takmarkast við það sem er óumdeilt og ekki hægt að túlka á verri veg er alveg eins hægt að sleppa umræðunni. Ekki satt? Ef það má ekki "stuða", hvar erum við þá stödd? Er þá hægt að breyta einhverju?

Ýmislegt
Athugasemdir

Matti - 25/03/12 17:56 #

Þá blasir spurningin við: Ertu að segja að fólk megi segja hvað sem er?

Nei, ég er að segja að ef fólk þarf að rembast við að lesa eitthvað úr orðum fólks, sé betra að spyrja fólk beint út hvort það sé skoðun þess - frekar en að gera mál úr einhverri lagnsóttri túlkun sem á ekki við rök að styðjast. Auk þess tel ég að sumt fólk hafi einfaldlega ekki lesskilning og eigi að láta það alveg eiga sig að túlka nokkurn texta. Samhengi skiptir næstum alltaf máli. Það er bara staðreynd.

Stundum segir fólk eitthvað heimskulegt og þá er nákvæmlega ekkert að því að benda á það og gagnrýna.

Þessa bloggfærslu má heimfæra á allan andskotann.