Örvitinn

Skrípamynd af efahyggju / aðþrengdar eiginkonur

Lokaþáttur seríunnar um aðþrengdar eiginkonur var sýndur í síðustu viku. Ég horfði ekki mikið á þessa þætti síðustu árin en fylgdist með þessari síðustu seríu.

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar um lokaþáttinn í Morgunblaðinu í dag og segir meðal annars.

Aðþrengdar eiginkonur kvöddu á dögunum. Handritshöfundar þáttanna hafa átt sína misjöfnu daga, en brugðust ekki í lokaþættinum þar sem allt fór vel að lokum. Þannig átti það auðvitað að vera, maður hefði ekki nennt að horfa á þáttinn í mörg ár nema vegna þess að maður var þess fullviss að hann myndi enda vel.

Fyrir þá sem trúa staðfastlega á framhaldslíf er alltaf notalegt að sjá í þáttum eins og þessum þegar framliðnir birtast og ljóst er að þeir vaka yfir þeim sem lifa. Þetta var sýnt á fallegan hátt í þessum þætti. Allra jarðbundnustu áhorfendum hefur sennilega ofboðið þetta atriði þáttarins en okkur hinum fannst það krúttlegt.

Ég get frætt Kolbrúnu um að jafnvel jarðbundnustu áhorfendum ofbauð ekki því það finnast varla jarðbundnari áhorfendur en ég og mér stóð á sama. Reyndar var sögumaður þessa þátta draugur þannig að "jarðbundið" fólk hefði fyrir löngu verið búið að fá nóg ef slíkt truflaði það. Fólk eins og ég, sem ekki trúir á framhaldslíf, getur alveg notið skáldskapar sem fjallar um slíkt. Fullt af fínum skáldskap fjallar beint og óbeint um hindurvitni.

Annars hefur lengi verið ljóst að Kolbrún hefur ekki mikið álit á "jarðbundnu" fólki. Slíkir fordómar þykja bara krúttlegir í Hádegismóum.

efahyggja sjónvarp
Athugasemdir

Óli Gneisti - 18/06/12 18:46 #

Jarðbundið fólk á alveg sérlega auðvelt að greina á milli skáldskapar og raunveruleika - ólíkt Kolbrúnu.