Örvitinn

Vigdís Hauks eyðir, Teitur Atla falsar

Teitur Atlason vísaði einu sinni á bloggfærslu hjá Vigdísi Hauks. Þegar Teitur var svo að skoða eigin færslu nýlega virkaði vísunin ekki lengur. Teitur dró ranglega þá ályktun að Vigdís hefði eytt bloggfærslunni. Þegar honum var bent á mistökin í athugasemd játaði hann þau og breytti fyrirsögn færslunnar. Við getum öll gert mistök og það er gott þegar fólk viðurkennir þau.

Vigdís Hauks frétti af þessu og í stað þess að kynna sér málið og gera létt grín að mistökum Teits, t.d. með því að skamma hann fyrir að leita ekki á google, fór hún enn lengra í misskilningi og vanþekkingu á netinu og sakaði Teit um að falsa slóðir, fullyrti að bloggfærslan hafi aldrei verið á þeirri slóð sem Teitur vísaði á á sínum tíma.

Skjáskot af bloggi Vigdísar Hauks

En bloggfærslan var þar víst meðan Vigdís notaði Blogger til að hýsa vefinn sinn. Svo skipti Vigdís (eða sá sem sér um vefinn hennar) yfir í Wordpress kerfið og þá breyttust allar slóðir á blogginu hennar Vigdísar, dagsetningarparturinn féll út. Það er frekar algengt að þetta gerist þegar vefir eru uppfærðir og því miður er fólk alltof latt við að láta gamlar slóðir virka, t.d. með því að nota redirect. Slíkt er hægt að gera sjálfkrafa og þarf ekki að vera mikið mál, sérstaklega ekki í tilviki Vigdísar því breytingar á slóðum á hennar vef voru mjög "reglulegar".

Þannig að Vigdís eyddi engu og Teitur falsaði ekki neitt. Enginn stimplaði sig út.

Aftur á móti sýnist mér þörf á stjórnmálamönnum sem skilja internetið almennilega, netið er nefnilega engin bóla heldur fyrirbæri sem skiptir virkilega miklu máli. Á netinu eiga íslendingar viðskipti fyrir milljarða króna á hverju ári og á Alþingi íslendinga er kannski ein manneskja sem getur sagt mér hvað VPN, Tor, router eða redirect er.

ps. Er ég ekki hér með kominn í hóp þeirra sem leggja Vigdísi Hauks í einelti?

vefmál
Athugasemdir

Einar - 15/02/13 10:31 #

Mér fannst alveg ótrúlegt að lesa þessa færslu hennar nýju. Að Teitur hafi stimplað sig út, með þessum miskilningi.

Ef Teitur hefur stimplað sig út með þessu, hvað er þá Vigdís Hauks að gera enn á alþingi. Hennar "miskilningur" og ótrúlegar yfirlýsingar ættu þá að hafa stimplað hana út fyrir löngu.

Það er þetta með að kasta steinum úr glerhúsum. Nokkuð algengt hjá Framsóknarþingmönnum.

Að þessi kona sé á alþingi þar sem hún gerir sig að athlægi ítrekað er vægast sagt sorglegt. Og síðan skilja alþingismenn ekkert í því afhverju virðing alþingis er fokin út í veður og vind.

Helgi Hrafn Gunnarsson - 15/02/13 16:07 #

Þess vegna er um að gera að kjósa Pírata í komandi kosningum. Tölvuólæsið lýsir sér ekki bara í svona rugli heldur hryllilegri ákvarðanatöku yfirvalda gagnvart öllu sem varðar internetið og upplýsingatækni. Það var sú tíð að það skipti engu sérstöku máli að Alþingismenn og ráðherrar hefðu aldrei litið inn á 9gag, en nú er það farið að verða alvarlegra og alvarlegra vandamál. Þetta ágæta fólk getur ekki annað en misskilið, rangtúlkað og tekið vondar ákvarðanir meðan vanþekkingin er svona gríðarleg.

Matti - 15/02/13 18:17 #

Það má segja að þetta fólk skorti "læsi" á internetið.

Þess má geta að allar gamlar slóðir á þetta blogg virka - jafnvel þó ég hafi á sínum tíma breytt slóðum. T.d. virkar þessi slóð frá því áður en ég keypti lénið örvitinn:

http://www.gmaki.com/matti/dagbok/000638.html

Matti - 16/02/13 13:35 #

Hér sjáum við að Björn Bjarnason veit jafn lítið um vefinn og Vigdís. Björn hefur þó bloggað lengur en flestir stjórnmálamenn - en sér auðvitað ekki sjálfur um tæknimálin.

ArnarG - 17/02/13 10:36 #

Getum við samt farið fram á það að Björn og Vigdís viti betur?

Matti - 17/02/13 17:31 #

Björn Bjarnason hefur bloggað óskaplega lengi og hefur sjálfur uppfært bloggið sitt oftar en einu sinni. Hann ætti að vita hvernig þetta virkar.

ArnarG - 18/02/13 12:18 #

Nákvæmlega, "ætti", og veit eflaust betur. Vigdís veit eflaust einnig betur. Það hentar henni (og eflaust þeim báðum) betur að láta málin líta öðruvísi. Það er alveg til orð yfir þannig fólk...