Örvitinn

Þjóðkirkjan er vatn á myllu moskuandstæðinga

haustlauf

Ef hópurinn sem hæst hefur hrópað gegn byggingu mosku í Reykjavík er skoðaður sést fljótt að eitt einkenni hans er kristni og/eða stuðningur við ríkiskirkjufyrirkomulag á Íslandi*.

Undanfarinn áratug hefur ríkiskirkjufólk ítrekað talað um kristilega arfleifð íslenskrar menningar og annað í þeim dúr. Margir stuðningsmenn ríkiskirkjunnar hafa rökstutt afstöðu sína með vísun til þess að annars komi múslimarnir (tveir þingmenn, einn fyrrverandi, hafa viðrað slíka skoðun við mig). Þræðirnir milli ríkiskirkjunnar og andstæðinga mosku eru margir.

Það sem ég vildi semsagt segja er að megin vandinn við herskáan málflutning Þjóðkirkjunnar og stuðningsmanna hennar gegn þeim sem þau fyrirlíta er að hann er vatn á myllu haturshreyfinga sem grafa undan allsherjarreglu og almennu siðferði með því t.d. að fordæma minnihlutahópa á borð við múslima og skerða frelsi þeirra sem ekki aðhyllast kristni.

Sorry krakkar, stuðningur við ríkiskirkju er stuðningur við hópinn sem mótmælir mosku á Íslandi.

Annað var það ekki í bili.

ps. Ef þið eruð skráð í ríkiskirkjuna en viljið hætta því hafið þið morgundaginn til að skrá ykkur úr henni.

* Auðvitað eru ekki allir í hópnum kristnir eða stuðningsmenn ríkiskirkju en ég fullyrði að flestir eru það. Skoðið málið ef þið trúið mér ekki.

kristni íslam
Athugasemdir

Matti - 16/12/14 18:11 #

Sjáið bara þetta fína dæmi:

Síðast en ekki síst tel ég henta mínum sjónarmiðum hvað varðar velferð þjóðarinnar að hafa kirkjuna sem brimbrjót gagnvart innrás framandi trúarbragða eins og Islam í þetta þjóðfélag. Hefur enginn velt því fyrir sér hvort hingað streymi erlent fé í þá hugsjónabaráttu sem Islam heyr hérlendis?

Ég vil því að kirkjan fari að standa undir nafni sem þjóðkirkja og taki eindregnari afstöðu gagnvart þessari innrás, bæði af hálfu Islamista og annarra afsiðunaraflanna. Þó það sé sjálfsagt ekki hennar eðli að bíta frá sér, þá má hún verða ákveðnari i afstöðu með þjóðinni svo að hætt verði að skríða fyrir slíku liði þeirrar gerðar sem þessi Líf Magneudóttir fer fyrir. Fara ekki flestir landsmenn í kirkjur við jarðarfarir eða slíkt hverju sem þeir nú trúa?

Baráttan gegn íslam er baráttan fyrir kirkjuheimsóknum leik- og grunnskólabarna og fyrir tilvist ríkiskirkjunnar. Halldór Halldórsson er langt frá því að vera einn um þessa skoðun.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)