Örvitinn

Hvar endar þessi vitleysa Brynjar?

reykur

Séra Dalla Þórðardóttir skrifar á kvennakirkjan.is að það sé tíska að tala illa um kristni og kirkjuna. Held að það sé rétt hjá henni.

Það fer að verða með kristnu kirkjuna eins og tóbakið - má ekki tala um hana nema með neikvæðum hætti.

Um aðra trúarhópa eða lífsskoðanir má hins vegar ekki tala um nema með jákvæðum hætti - annars ertu vændur um hatur. Hvar endar þessi vitleysa? #

Þetta er fín líking hjá Brynjari, kristin kirkjan er eins og tóbakið, trúboðið eins og reykurinn - a.m.k. frá sjónarhóli okkar sem hvorki aðhyllumst kristni né reykingar. Það kemur mér ekki við hvað aðrir reykja svo lengi sem þeir gera það ekki á minn kostnað og ég og börnin mín verðum ekki fyrir óbeinum reykingum(trúboði). Ef einhver er að púa ofan í okkur áskil ég mér fullan rétt til að kvarta undan því og reka jafnvel við í áttina að honum ef hann þráast við. Brynjar og hans líkar eiga það þá til að mógðast verulega yfir dónaskapnum og fýlunni. Þetta er hræsni þeirra sem vilja fá að púa reyk yfir alla en ærast ef þeir svo mikið sem finna þef af öðrum ilm, sjá annan reyk.

Brynjar hefur kannski ekki tekið eftir því en andmælendur kristni hafa ekki sett sig upp á móti því að kristið fólk iðki sína trú (reyki) þar sem hún á heima á sinn kostnað. Frjálshyggjumaðurinn ætti að vera farinn að sjá að þetta snýst fyrst og fremst um frelsi. Frelsi til að ákveða hvaða trú eða lífsskoðun fólk aðhyllist. Frelsi frá reykjarkófinu.

En nei, Brynjar og kó vilja venja börnin við tóbakið strax í leik- og grunnskólum. Ef kirkjan nær þeim þar, meðan þau eru "heppilega trúgjörn og leiðitöm", eru góðar líkur á að hún haldi í þau fram eftir öllu. Þetta er taktík sem tóbaksfyrirtækin notuð lengi - þar til þau voru réttilega stoppuð.

Auðvitað má tala um aðra trúarhópa og lífsskoðanir með neikvæðum hætti, það hefur Vantrú t.d. ítrekað gert. Bróðir Brynjars hefur bara gert svo miklu meira en það. Það er fyrst og fremst heimskulegt gasprið, fordómarnir og fáfræðin sem valda því að honum er andmælt af krafti. Það sama gildir um liðið sem mótmælir mosku og framsóknarfylkinguna í Reykjavík, það eru heimskan og fordómarnir sem fólk andmælir, ekki það að tiltekin trúarbrögð séu gagnrýnd málefnalega. Já og blessaður vertu Brynjar, nógu andskoti oft erum við sem andmælum kristni sökuð um "hatur". Skiptir þá engu máli hve málefnaleg gagnrýnin er.

Nú er ég alls ekki að ritskoða Brynjar eða banna honum að setja fram skoðanir sínar, ég fagna því þegar hann tjáir sig eins og kjáni. Ég andmæli og það hlýtur að vera eðlilegt. Öðruvísi virkar umræðan varla. Og þegar Brynjar eða bróðir hans segja eitthvað ógeðslega heimskulegt eða fordómafullt er ósköp eðlilegt að viðbrögðin verði stundum harkaleg.

ps. Það hefur verið talað um andóf við kristni sem "tísku" afskaplega lengi. Þessi tíska virðist ansi lífseig. Er það þá tíska? Sem betur fer má andmæla kristni í dag, fyrir ekkert mjög löngu hefði fólk misst frelsið og jafnvel lífið á Íslandi fyrir það að andmæla kristni. Þá var lítið pláss fyrir slíka tísku. Brynjar virðist stundum sakna þeirra tíma.

Talandi um tísku. Reykingar eru á útleið, enda bráðdrepandi (sem er frekar óheppilegt). Kristni er líka á útleið, enda hindurvitni (sem er óheppilegt).

Ég held að þessi vitleysa endi þannig að lítill minnihluti stundu hvoru tveggja, reykingar og kristni.

kristni pólitík
Athugasemdir

Hjalti Rúnar - 26/01/15 16:04 #

Ég notaði nánast sömu líkingu í 9 ára gamalli Vantrúargrein. Fínasta líking og gott að sjá vin okkar Brynjar nota hana :)

Egill - 26/01/15 16:46 #

Í athugasemd við þennan status Brynjars sést svolítið hvernig umræðan er í raun, þar er trúleysingjum og siðleysingjum skellt saman í einn hóp til að mynda. Eftirtekt sumra er nefnilega alveg merkilega valkvæð...




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)