Örvitinn

Aumingjavæðing fjölmiðla

bíll og snjór
Bíllinn minn á kafi í snjó á laugardag, ég þurfti lítið að skafa í morgun.
Kæra fjölmiðlafólk. Það er ekki fréttnæmt* þó einhver kennari skrifi Facebook status um "aumingjauppeldi" vegna þess að sumir foreldrar héldu börnum heima í dag. Þið vitið að það var óvissa í gangi og fólk varað við að mjög slæmt veður gæti skollið á. Jafnvel þó veður hafi verið ágætt í morgun voru sumir að hugsa til eftirmiðdags og hvort allt yrði stopp þá.

Er ekki fínt að fólk haldi sig heima ef það getur? Ætli umferðin í dag hafi ekki einmitt gengið snurðulaust fyrir sig vegna þess að það voru fáir bílar á götunum?

Kæru fjölmiðlar, hættið að birta svona barnalegar æsingsfréttir þó einhver segi eitthvað (heimskulegt) á Facebook. Þetta er svo ógeðslega ódýrt, einungis birt til þess að fá smelli (þess vegna vísa ég ekki á neina svona frétt) og athugasemdir. Þetta sýnir hvað þessir tilteknu fjölmiðlar eru orðnir miklir aumingjar. Nenna ekki að skrifa vandaðar fréttir sem krefjast örlítillar vinnu.

*Hver þykist ég vera að segja hvað er fréttnæmst og hvað ekki? Tja, þetta er bara augljóst dæmi um ekkifrétt. Fólk má alveg hafa skoðanir og tjá þær á Facebook án þess að þær rati í fjölmiðla. Í raun er óþolandi hvað fjölmiðlar eru endalaust að draga fram Facebook ummæli einhverra einstaklinga og gera úr því fréttir. Skrifið færri fréttir, birtið færri skoðanir. Það er munur á því hvort opinberir aðilar segi eitthvað eða hvort það er bara Jón eða Gunna úti í bæ.

fjölmiðlar
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)