Peningamynd á flakki
Einu sinni tók ég fáeinar myndir af peningaseðlum. Ég man ekki af hverju ég var með seðlana þennan dag en stundum vantaði peningamyndir með greinum á Vantrú og þessi mynd var meira að segja sérstaklega tekin fyrir grein. Svo notaði ég stærri útgáfu í bloggfærslu.
Í kvöld sá ég myndina með grein á forsíðu vefrits og þegar ég ákvað að dunda mér að athuga með TinEye vefsíðunni (setti slóðina http://www.orvitinn.com/myndir/2009/peningar.jpg inn) hverjir aðrir hefðu notað myndina sá ég að hún hafði ratað á vefi eins og Eyjuna, Pressuna og RÚV.
(Pressan 1, Pressan 2, Pressan 3, Pressan 4)
Hversu kaldhæðnislegt er að taka mynd af peningum ófrjálsri hendi? :-)
Nýlega bað ágætur maður mig um leyfi til að nota myndina og fékk það að sjálfsögðu. Hann þurfti ekki einu sinni að taka fram að myndin væri frá mér en það var samt fallegt af honum að gera það.
Eitt pirrar mig mikið við svona notkun á myndum. "Fræðimaður" nokkur sagði í greinargerð sem hann skrifaði að Vantrú hikaði ekki við að nota myndir án leyfis. Það er algjörlega rangt, í félaginu eru margir ljósmyndaáhugamenn og við pössum okkur á að nota eigin myndir eða myndir sem eru með CC leyfi sem hentar. Það gildir t.d. um myndir sem við höfum notað af flickr síðu kirkjunnar en myndanotkun okkar virðist hafa orðið til þess að kirkjan notar ekki lengur CC leyfi. Eflaust eru til dæmi um að við höfum notað mynd án leyfis en þau er fá og gömul.
Arnold Björnsson - 16/03/13 12:23 #
Ég held þú getir auðveldlega sótt greiðslu til Pressunnar í gegn um lögfræðing ef þeir kjósa svo. Málið er alltaf tapað fyrir þá.
Erlendur - 16/03/13 13:41 #
Það mætti halda að þú hafir verið að minna á tilvist myndarinnar: http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/03/16/verdur-samid-vid-krofuhafa-um-snjohengjuna-fyrir-kosningar-gridarlegir-hagsmunir-i-hufi/
Matti - 16/03/13 18:05 #
Sendi þennan tölvupóst á ritstjórn Eyjunnar rétt í þessu.
Komið þið sæl,
ég vil vekja athygli ykkar á þessari bloggfærslu:
http://www.orvitinn.com/2013/03/13/21.30/
Þar kemur fram að þið hafið ítrekað og án leyfis notað ljósmynd frá mér. Eins og þið sjáið er bloggfærslan nýleg og því varð mér nokkuð við þegar mér var bent á að þið notið myndina enn og aftur í dag 16. mars.
Ég er viss um að við getum komist að samkomulegi um sanngjarna þóknum fyrir afnot ykkar á myndinni síðustu ár. Hér eftir geri ég ráð fyrir að þið leitið leyfis hjá mér áður en þið nýtið ljósmyndir mínar.
Kær kveðja.Matthías Ásgeirsson