Örvitinn

Súkkulaðibitakökur með beikon og viský

Smákaka
Dásemd!

Í síðustu viku bakaði ég súkkulaðibitakökur með beikon og viský. Studdist við þessa uppskrift (það þarf að setja fæðingardag til að komast áfram) en aðlagaði aðeins. Kökurnar voru bakaðar fyrir smákökukeppni í vinnunni en ég stólaði ekki á þessar kökur heldur bakaði tvær aðrar sortir ef þessar yrðu vondar. Í ljós koma að þær voru alls ekkert vondar, eiginlega ansi góðar.

Aðlögunin mín var ekkert mjög flókin, ég notaði 10 ára Laphroaig í staðin fyrir bourbon vegna þess að ég á ekkert bourbon og þessi Laphroaig flaska er eldhúsviskýið mitt. Ég notaði þar að auki bara sykur og púðursykur en ekki light brown og dark brown sykur eins og er í uppskriftinni (og ég hef ekki hugmynd hvað er). Auk þess notaði ég fimm tegundir af dökku súkkulaði, sem var það sem ég var með í eldhúsinu, 56%, 70% og 85% súkkulaði auk tveggja tegunda af súkkulaðidropum. Ég var ekki með jafn mikið beikon og í uppskriftinni, átti ekki nema tæplega 200 grömm.

Næst ætla ég að prófa að bæta hnetum við og nota annað viský, jafnvel bourbon.

Fólki sem finnst viský mjög vont (Jón Magnús) finnur sterkt viskýeftirbragð en við hin sem erum eðlileg finnst þetta mjög gott :-) Beikonbragðið er ekkert rosalega sterkt en skilar sér. Vinnufélagar voru sáttir og sögðu meðal annars að þessar kökur væru "surprisingly really good".

Ég var hræddur um að kökurnar myndu harðna en þær sem ég geymdi í boxi heima voru enn mjúkar fjórum dögum eftir bakstur.

Myndin af kökunni í hærri upplausn og risastór.

matur
Athugasemdir

Matti - 22/12/15 15:24 #

Bakaði þessar kökur aftur í morgun, undirbjó deigið í gærkvöldi.

Gerði tvær breytingar. Notaði Johhny Walker Black Label 12 ára viský - en það er ekki nærri jafn reykt og Laphroaig. Auk þess gerði ég tvær mismunandi útgáfur, bætti valhnetum í aðra.

Kökurnar tók Gyða með í vinnuna, ég vona að vinnufélagar hennar hafi notið.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)