Örvitinn

ESB klíkan og Moggaklúbburinn

moggaklubbur.jpg
Mogginn hatar ESB, selur klúbbfélögum ferðir til ESB landa!

Ég fæ Morgunblaðið heimsent þessa daga og fletti af og til. Í morgun skoðaði ég blaðið frá því í gær og rakst á skemmtilega opnu, blaðsíður átta og níu.

Á fyrri síðunni eru Staksteinar þar sem moggafólk drullar yfir óvini í skjóli nafnleyndar. Tónninn er iðulega rætinn og oft vitnað í afskaplega undarlegar heimildir.

Staksteinar gærdagsins fjalla um orð kanslara Austurríkis um væntanlegan samning Breta við ESB í kjölfar Brexit. Kanslarinn bendir á þá (augljósu) staðreynd að Bretar muni (og megi) ekki fá jafn góðan samning við ESB eftir úrsögn; þeir muni tapa gagnvart ESB ríkjum á úrsögninni. Þetta þykir eðlilegu fólki ósköp eðlilegt! Þú græðir eitthvað á því að vera í félagsskap, annars værir þú varla í honum, eða eins og Staksteinar hafa eftir Kanslaranum:

Meðlimir í klúbb eiga að hafa það betra en þeir sem eru ekki meðlimir í honum.

Staksteinar eru hneykslaðir á „ESB elítunni“ að ætla að refsa Bretum fyrir að segja sig úr ESB, og spyrja:

Skyldi nokkur annar klúbbur í heimi hafa refsireglur um þá sem kjósa að kveðja klúbbinn?

Það sem gerir þessa opnu sérlega skemmtilega er að á hinni síðunni, blaðsíðu níu, er heilsíðuauglýsing frá Moggaklúbbnum, félagi áskrifenda Morgunblaðsins. Í auglýsingunni eru kynnt sérkjör sem klúbbmeðlimum bjóðast á „Moggaklúbbsferð“ til Veróna í byrjun næsta mánaðar. Neðst í auglýsingunni kemur fram að „áskrifendur Morgunblaðsins eru sjálfkrafa meðlimir í Moggaklúbbnum og njóta ýmissa fríðinda og tilboða“.

Ætli áskrifendum Morgunblaðsins sé refsað með lakari kjörum ef þeir segja upp áskrift eða njóta þeir enn fríðinda og tilboða eftir að þeir hætta í klúbbnum? Ég hvet áskrifendur Morgunblaðsins til að segja upp áskriftinni og kvarta til Staksteina þegar blaðið hættir að berast!

fjölmiðlar