Örvitinn

Bílastæðavandinn í úthverfunum

bill_a_gangstett_i_bakkaseli.jpg
Eigendur þessa bíls eru rosalega heppnir að eiga fínt einkabílastæði á göngustíg í Bakkaseli.
Þétting byggðar á sér ekki bara stað þar sem verktakar byggja ný hús á lóðum í þéttbýli, heldur einnig þegar fleiri flytja í rótgróin hverfi. Stærri húsum er skipt upp, hæðir og kjallarar sett í útleigu eða selt.

Mér finnst ekkert að þeirri þróun í raun en henni fylgir samt vandi. Í skipulagi var aldrei gert ráð fyrir að í hverju húsi væru margar fjölskyldur með marga bíla! Í Bakkaseli og víðar í Seljahverfi er orðið áberandi bílastæðavandamál. Seint á kvöldin er bílum lagt úti um allt, uppi á grasbölum, á gangstéttum og göngustígum.

Í vetur hefur fólk tekið upp á því að leggja sífellt á upphitaða gangstétt við göngustíginn upp að húsinu mínu í Bakkaseli. Þessir bílar þvælast oft fyrir og hafa pirrað mig óstjórnlega. Ég hef því tekið upp á því að setja miða undir rúðuþurrku þar sem ég bendi fólki kurteisilega á að þetta sé ekki bílastæði og bið það að leggja ekki þarna. Það virðist virka í flestum tilvikum en sumir virðast líta þannig á að þeir séu með einkabílastæði, eins og nágranni minn sem á bílinn á myndinni fyrir ofan. Hann kom heim rétt eftir miðnætti og lagði upp á gangstétt.

Vandinn er í raun ekki skortur á bílastæðum heldur fjöldi bíla. Það er ekki gert ráð fyrir rúmlega þremur bílum á hvert raðhús í götu eins og Bakkaseli og öðrum sambærilegum, þá færi alltof mikið svæði undir bíla og nóg er það fyrir. Hverju raðhúsi fylgir bílskúr, stæði fyrir framan skúrinn og eitt stæði að auki, þrjú stæði ef fólk er ekki með fullan skúr af drasli eins og við! Það er undantekning að fólk geymi bíla í skúrnum þannig í raun eru rétt rúmlega tvö stæði á hvert raðhús - en miklu fleiri bílar.

Loftmynd af Bakkaseli
Bílskúrar og bílastæði fyrir átján raðhús í Bakkaseli. Skjáskot af já.is

Vandinn er öll þessi bílaeign, fólk þarf einfaldlega að nota færri bíla og ef það leigir út kjallarann getur ekki fylgt því bílastæði nema fólk gefi sjálft eftir stæði í staðin.

Það er hægt að fjölga bílastæðum víða í Seljahverfi, t.d. við Seljabraut, en ég held að það sé ekki lausn. Fólk nennir ekki að ganga hundrað metra að stæði og þau myndu fljótt fyllast af númerslausum bílum, kerrum og vinnutækjum.

Lausnin er að ibúar taki þátt í kostnaði við bílastæðin í hlutfalli við fjölda bíla. Við erum með tvo bíla í dag, húsi nágranna míns fylgja fjórir bílar, í öllum húsunum á móti a.m.k. þrír! Ég borga jafn mikið fyrir framkvæmdir og snjóruðning á bílastæðinu - það er eiginlega glórulaust.

Þess má geta að það er frábært að taka strætó í Bakkaseli, tólfan og tvisturinn stoppa í tveggja mínútna göngufæri og fara beint í Mjódd þar sem hægt er að taka vagna í allar áttir. Að auki tekur ekki nema tuttugu mínútur að hjóla í Borgartún.

kvabb
Athugasemdir

Matti - 15/03/18 20:45 #

Auðvitað eru þau mætt aftur í einkastæðið í kvöld.

Matti - 16/03/18 14:31 #

Í morgun var svo annar nágranni í "stæðinu". Sá fékk handskrifaðan miða með vinalegri kveðju.

Þessi æsispennandi saga heldur áfram.

Hvað getur maður annars gert við bíla sem er rosalega pirrandi fyrir eigandann án þess að skemma nokkuð?

Baldvin - 16/03/18 17:01 #

Plasta? Post-it miðar? Til sölu skilti?

Ef þetta lokar aðgangi að lóðinni þinni má líka bara hringja í krók...

Matti - 16/03/18 18:14 #

Þetta lokar svosem ekki aðgangi, en takmarkar hann og bílar eru oft fyrir.

Matti - 18/03/18 10:23 #

Þegar ég skaust út til að sækja Ingu Maríu rétt eftir miðnætti gekk ég í flasið á pari sem var að leggja uppi á stétt, búin að drepa á bílnum. Hafði ekki séð þennan bíl áður á stéttinni.

Þau störðu stjörf á mig þegar ég gekk í áttina að þeim (gat ekki annað, bíllinn er bókstaflega fyrir).

„Þetta er ekki bílastæði, ekki leggja hérna“. Sagði ég. - Má ég hleypa honum út? Spurði stelpan sem var að keyra, strákurinn í farþegasætinu var á hækjum. „Já, en ekki leggja hérna.“

Svo horfði ég á strákinn skrölta á hækjunum yfir í næsta "U". Lengstu leið. Ef hún hefði viljað hleypa honum út hefði hún getað stoppað 30 metrum nær heimili þeirra.

Svo var laust stæði í brekkunni, mun nær fyrir þau.

Hægt og rólega tekst mér að ná til allra þessara andskota sem leggja þarna. Hægt og rólega!

Matti - 18/03/18 17:12 #

Snillingur dagsins er búinn að vera þarna a.m.k. síðustu þrjá klukkutíma.

Matti - 28/09/18 15:24 #

Alltaf leggur sami asninn hér. Miðar á glugga hafa ekkert að segja.

Matti - 25/12/18 17:14 #

Í nótt fræddi gestur nágranna míns mig um að maður er víst að skemma bíla þegar maður lyftir rúðuþurrkunum á þeim.

Og svo leggja víst allir svona uppi á stétt, líka ég.

Minnti mig dálítið á Sigmund Davíð svo ég segi alveg eins og er.

Mati - 06/02/19 09:36 #

Hver haldið þið að sé mættur aftur? Tvisvar síðustu þrjár nætur. Ég mokaði einmitt stéttina sérstaklega fyrir hann.

Matti - 07/02/19 10:26 #

Takið eftir plássinu sem hann skilur eftir fyrir okkur nágranna til að ganga framhjá bílnum - alveg 30-40 cm!

Annars:

Matti - 13/04/19 14:47 #

Eftir skemmtilegar uppákomur í kjölfar síðustu myndar hefur allt gengið vel þar til nú að nýr bíll er mættur á stéttina.