Örvitinn

Lífið á tímum kórónuveiru

30km hámarkshraði
Gyða í göngutúr við bústað

Þetta eru skrítnir tímar.

Það er merkileg ró yfir öllum. Við vitum að ástandið er alvarlegt en áttum okkur kannski á hversu alvarlegt það er. Eflaust vegna þess að enn sem komið er hefur Ísland ekki lent illa í þessu. Ég held það muni ekki þurfa mörg dauðsföll til að stemmingin breytist.

Ég vinn heima í dag. Kolla og Inga María að læra hér útaf lokun háskóla og framhaldsskóla. Ég dró þær framúr í morgun, þýðir ekkert að hangsa! Mætti á skrifstofuna í gær, það var ansi rólegt, vorum þrír í húsinu. Ég er að spá í að taka þetta til skiptis, heima og á skrifstofunni. Bara til að hafa smá fjölbreytileika í þessu. Þetta ástand er fín æfing fyrir teymið til að æfa sig í fjarvinnu.

Eitt gerist næstum alltaf þegar ég vinn heima; ég fer að sinna heimilisstörfum! Búinn að setja í tvær þvottavélar og einn þurrkara, uppþvottavél að klára og rusl og endurvinnslurusl komið út í tunnu. Þetta er svona svipað og að vera heima og læra fyrir próf!

Ræktin er opin, ég ætla að tékka á henni á eftir. Fór á sunnudag í World Class í Breiðholtslaug. Það var nokkuð rólegt. Fáir fóru eftir leiðbeiningum um að þrífa eftir sig þrátt fyrir nóg framboð af brúsum með sótthreinsandi og tuskum.

Við hjónin fórum í bústað fyrri helgi. Mjög langt síðan við fórum þar á undan. Ég vann þaðan á föstudegi, sem er ágætt. Dálítið erfitt að hafa bara ferðatölvuskjá en á móti kemur að ég sit vel við og einbeiti mér í bústaðnum. Annars eldaði ég fáránlega góðan mat í bústað þó ég segi sjálfur frá! Ribey á föstudagskvöldi, andalæri á laugardagskvöldi og carbonara á sunnudagskvöldi.

andalæri og franskar
Andalæri, hægsteiktur rauðlaukur og franskar kartöflur eldaðar með andafitunni, sveppasósa á kantinum!

Það sýnir kannski ágætlega hvað ég er firrtur að frestun ensku úrvalsdeildarinnar er það sem hefur komið einna verst við mig það sem af er fári. Sem er auðvitað viss bilun.

Ef maður spáir of mikið í þetta allt saman er hætta á því að maður bilist endanlega. Á stundum sem þessum þarf maður að treysta sérfræðingum og ég hef ekkert séð sem bendir til annars en að fólkið sem stjórnar þessum málum sé með allt á hreinu. Spámenn eins og Frosti Sigurjónsson þurfa í alvöru að læra stundum að steinhalda kjafti. Ræða þessi mál bara við nærstadda en ekki á opinberum vettvangi því þó þetta séu allt bara saklausar pælingar hjá þeim, þá er þetta miklu meira en það og getur valdið vantrausti og ótta.

Ég þvertek fyrir að rökræða eitthvað við fólk um þessi mál. Ég veit jafn lítið um það og Frosti Sigurjónsson!

Það var verið að auglýsa eftir dagbókum í þessu ástandi. Mitt framlag mun birtast hér.

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)