Örvitinn

Dótadagur, ultrawide Samsung tölvuskjár

tölvuskjár
Fjörutíu og níu tommu Samsung skjár
Ég bugaðist og splæsti í tölvuskjá á heimaskrifstofuna í dag. Ekki að ástandið hafi verið slæmt fyrir, ég var að nota tvo ágæta skjái. En mig vantaði eiginlega annan skjá og af hverju þá ekki bara að kaupa almennilegan skjá fyrir vinnuaðstöðuna heima. 49" Samsung breiðskjár varð fyrir valinu. Ekki ódýr, en geggjaður!

Af hverju finnst mér ég þurfa að réttlæta svona kaup? Það er engin ástæða til þess.

Til að syndajafna fór ég og gaf blóð. Fékk SMS frá Blóðbankanum í morgun og bókaði tíma 16:30. Allir þurfa að panta tíma til að gefa blóð núna og þvi var rólegt. Ekki hefðbundnar veitingar í boði í bankanum, bara möffins í plasti, engin skúffukafa! Bömmer. Ég gleymdi að fá mér möffins þegar ég fór en fékk mér djús áður en ég gaf. Þetta var blóðgjöf númer fjörutíu og sjö.

Kom við í Nettó í Mjódd á heimleiðinni og keypti kartöflur, pasta og mjólk. Ekkert spritt í boði við innganginn, slatti af fólki í búðinni en ekki þröngt.

Við misstum af kvöldfréttum, föttuðum það tíu mínútur yfir sjö en vorum svo sammála um að það væri allt í lagi. Maður þarf ekki að sjá þetta allt í beinni, ef það er fréttnæmt sjáum við það á fréttamiðlum. Merkilegasta stemmingin á samfélagsmiðlum í dag finnst mér hugmyndin um að fyrst fjölmargir í einkageiranum séu að fara í hlutastarf eigi það sama að gilda um ríkisstarfsmenn. "Sælt er sameiginilegt skipbrot" væri hægt að segja, "ef ég tapa, verða aðrir að tapa líka" gætu aðrir sagt. Mér finnst þetta óskaplega furðulegt viðhorf. Í fyrsta lagi er ríkið að fara að greiða muninn að hluta og í öðru lagi mæðir mikið á mörgum opinberu starfsmönnum.

Eldaði saltfisk með tómat-chili-ólívusósu og kartöflumús. Afskaplega gott þó ég segi sjálfur frá, enda segja stelpurnar það líka. Skar fiskinn í bita, velti upp úr hveiti og pipar og steikti í helling af ólívuolíu ásamt hvítlauk og chili. Lagði svo ofan á tómatsósuna í lokin.

saltfiskur
Útvatnaður saltfiskur, chili, hvítlaukur, tómatar, rauðlaukur, ólívur ofl.

dagbók græjur