Örvitinn

Tvær vikur á Spáni

Strönd, fólk, sól
Mannlíf við Estacas ströndina síðasta sunnudag
Við hjónin komum heim í gær eftir tvær vikur á Spáni. Hefðum alveg viljað vera lengur úti að slaka á og gera ekki neitt en það er ekki í boði, hversdagsleikinn tekur við. Hver veit samt, kannski eru áhugaverðir tímar framundan.

Þetta er frábær tími til að vera á Spáni, hitastigið hentar okkur, ekki of heitt, og svo eru líka frekar fáir á Zenia svæðinu, þó það séu reyndar oftast margir á laugardagsmarkaðnum og í verslunarmiðstöðinnni.

Flugið út var mjög þægilegt, fáir í vélinni þannig að það var rúmt um okkur. Reyndar ætlaði sessunautur minn ekkert að færa sig þó konan hans sæti alein hinum megin við gangveginn eftir smá hrókeringar, en eftir að ég benti honum á að það yrði þægilegra fyrir okkur báða ef hann færði, sig gerði hann það - þeim fannst báðum gott að vera við ganginn. Gyða gat því aðeins teygt úr sér í fluginu.

Tom tók á móti okkur á flugvellinum og skutlaði til Zenia þar sem við hittum Guðrúnu og Ásmund og vorum með þeim fyrstu dagana í íbúðinni.

Ásmundur, Guðrún, Gyða og ég
Skálað á svölunum þegar við mættum
Vorum tvö eftir og gerðum satt að segja lítið, Gyða er enn að jafna sig eftir covid, mörgum mánuðum síðar, og er ekki með þrek til að gera mikið. Við röltum þó saman að ströndinni nokkrum sinnum, með skipulögðum pásum og fórum á markað og í búðir. Allt með rólegu tempói. Kíktum út að borða, á staði sem við höfum heimsótt áður en líka nýja, suma ansi góða. Elduðum mjög einfaldan mat, brauð og álegg í morgunverð, ásamt jógúrt og safa úr nýkreistum appelsínum.

Vinnuhluti ferðarinnar var uppsetning á hillu í geymslu. Það gekk ágætlega hjá okkur hjónunum saman.

Flugið heim var eiginlega skelfilegt, þröngt og alltof heitt í flugvél Icelandair. Of margir sætabekkir í vél þannig að við gátum ekki einu sinni stjórnað blæstri eða ljósum. Og auðvitað þurfti gaurinn fyrir framan mig, sem sat þar n.b. ekki upphaflega heldur færði sig, að halla sætinu aftur. Ég er stubbur en gat ekki einu sinni setið með bók í fanginu án þess að rekast í sætisbakið fyrir framan mig.

Fínt að koma heim á föstudegi, hafa helgina til að slaka á áður en við mætum í vinnu. Kolla og Inga María komu og sóttu okkur út á völl og við gripum skyndibita á heimleið.

Sólsetur
Sólsetur getur líka verið fagurt á Spáni

Þó ég hafi mætt í ræktina annan hvern dag úti tókst mér að bæta á mig nokkrum kílóum enda skiptir meira máli hvað fólk lætur ofan í sig heldur en hve mikið það hreyfir sig. Best að reyna að ástunda einhverja naumhyggju næstu vikur, bjórdrykkja ekki í boði!

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)