Örvitinn

kolvetni djöfulsins

Tengdafaðir minn hefur undanfarin ár tileinkað sér kenningar Dr. Atkins í mataræði.

Það er óhætt að segja að það hafi virkað hjá honum, hann grenntist all hressilega. Þrátt fyrir það hefur mér alltaf þótt þessi fræði vafasöm. Vissulega bekena ég að það er ekki gott að éta pasta í óhófi en að troða sig út af feitum mat í staðin hefur mér aldrei þótt geta verið gáfulegt. Í mjög stuttu máli (og þar af leiðandi röngu) ganga þessi fræði út á að kolvetni valda offitu hjá vesturlandabúum og að alrangt sé að feitur matur sé sökudólgurinn eins og næringarfræðingar og læknastéttin halda fram.

Hvað um það, New York Times birta langa og ítarlega grein sem gagnrýna ráðleggingar heilbrigðistyfirvalda undanfarna áratugi varðandi mataræði harkalega. Í þessari grein fjalla þeir um kenningar Dr. Atkins og virðist hann vera að fá uppreisn æru. Að minnsta kosti í þessari grein.

Ég reyni nú bara að borða þokkalega hollan mat, forðast allan viðbjóð og hreyfi mig eins og brjálæðingur. Það virkar líka :)

Annars finnst mér röksemdarfærsla á eftirfarandi nótum frekar vafasöm. Einhverjir (stofnanirnar) hafa ráðlagt fólki að gera X. Þrátt fyrir þessar ráðleggingar og að fólk hafi aldrei gert meira af X er árangurinn enginn. Þar af leiðandi er eitthvað athugavert við X.

Það sem vantar inn í þetta er náttúrulega hvort fólk fór að öllu leyti eftir ráðleggingunum. Sem dæmi má nefna neyslu á kolvetnum. Næringarfræðingar ráðleggja fólki að auka neyslu á kolvetnum á kostnað fitu. Ef neysla á kolvetniríkum mat eykst án þess að dregið sé úr neyslu á feitum mat er varla hægt að gera ráð fyrir öðru en að fólk fitni. Ef fólk hreyfir sig ekki neitt á sama tíma og það treður sig út af kolvetniríku mat hlýtur það að enda á einn veg. Eins og fram kemur í greininni fóru fyrirtæki að framleiða skyndibita sem inniheldur minni fitu en til þess að halda í bragðgæði juku þau sykurinn í staðinn. Ég er nú nokkuð viss um að þetta er ekki það sem næringarfræðingarnir hafa í huga þegar þeir ráðleggja fólki að minnka fitu í fæðunni. Í greininni er svo bent á að bandaríkjamenn borða nú 400 kaloríum meira á dag en þeir gerðu þegar næringarfræðingar hófu áróður sinn fyrir fituskertu mataræði.

Bandaríkjamenn hafa aldrei borðað meira af ruslfæði en akkúrat núna. Skyndibiti oft í viku. Djúpsteiktir kleinuhringir í morgunmat. Kók drukkið allan daginn og snakk og sælgæti á hverju kvöldi. Bandaríkjamenn hafa aldrei hreyft sig jafn lítið og nú. Nei ég held að sökin liggi þar, en ekki í auknu kolvetnaáti

Ég er ekki að segja að það geti ekki skilað árangri að skera niður kolvetniríkan mat og borða frekar prótínríkan og feitan mat. Hugsanlegt er að slíkt mataræði dragi úr hungurtilfinningu og geri það að verkum að fólk borði minna. En það er líka hugsanlega að fólk borði einfaldlega minna á svona kúr vegna þess að mataræðið verður svo helvíti einhæft. Það þarf ekki að vera einhæft, heilmikið úrval uppskrifta er hægt að finna til að hjálpa manni í þessum kúrum. En staðreyndin er sú að fólk er ekki sífellt að elda veislurétti úr slíkum bókum. Mun líklegra er að það steiki sitt kjöt og éti það með smá salati. Engin sósa, engar kartöflur, ekkert brauð.

Á slíku fæði hlýtur maður að éta minna! Rétt í þessu var ég að éta kvöldmat. Vissulega seint að borða kvöldmat um hálf tólf en ég var að spila fótbolta í kvöld. Gyða eldaði fínan kjúkling og bringurnar voru eftir handa mér. Ég fékk mér tvær bringur á diskinn og sleppti öllu meðlæti. Engin auka sósu og ég lét hrísgrjónin eiga sig. Staðreyndin er sú að þannig er rétturinn ekkert sérstakur. Það eru sósan og hrísgrjónin sem gera þetta gott. Ég borðaði eina og hálfa bringu og er saddur. Það hefur áhrif að ég var að koma af æfingu. Lystin er alltaf minni eftir svona átök. En samt, einhæft fæði þar sem öllum kolvetnum er sleppt dregur úr áti. Maður hefur bara ekki lyst á miklu kjöti eintómu.

Ég varð vitni að þessu með tengdaföður minn. Hann fór að borða miklu minna vegna þess að hann sleppti mest öllu meðlæti. Vissulega borðaði hann mikið af kjöti, meira en meðalmaður og svo hugsanlega eitthvað salat með. En engar kartöflur sem hann hafði nú fengið sér ríflega af áður. Ekkert brauð sem hann hafði ekki fúlsað við. Og ekkert auka morgunkorn eftir kvöldmatinn eins og hann gerði iðulega áður! Margir myndu draga þá ályktun að hann hafi grennst vegna þess að hann hafi sleppt kolvetnum. Ég dreg þá ályktun að hann hafi grennst vegna þess að hann fækkaði kaloríum með því að borða mun minna. Auk þess sem hann fór að hreyfa sig meira. Þar er þetta náttúrulega orðið spurning um eggið og hænuna. Hann þurfti að léttast til að geta hreyft sig. Ég þurfti að hreyfa mig til að geta lést.

Hvort það að sleppa kolvetnum hafi hjálpað honum að borða minna er svo önnur pæling. Dr. Atkins og skoðanabræður hans vilja meina að mataræði eins og þeir leggja það upp dragi úr hungurtilfinningu. Það sé mergur málsins.
Ég vil meina að fólk sé latt og borði of mikið vegna þess að það vorkennir sjálfu sér. Það nennir ekki að hreyfa sig vegna þess að það þorir ekki að taka á vandanum.

Þannig upplifði ég þetta að minnsta kosti. Til að draga úr hungurtilfinningu ráðleggja margir að maður borði fleiri og minni máltíðir á dag. Þannig kemur maður í veg fyrir að blóðsykur sveiflist mjög mikið. Ég borða fimm til sex máltíðir á dag. Er í rauninni alltaf étandi eftir að ég fór að æfa.

Greinar um sama efni.
Meira um megrun
Atkins kúrinn

heilsa
Athugasemdir

Tengdafaðir - 25/07/02 15:13 #

Ég hef ekki hreyft mig lengi lengi. Svengdartilfinningin ákveður hvað maður étur og Atkins aðferðin tryggir að úr henni dregur. Þannig verða engin átök um magnið og sálarkvalir.