Örvitinn

Afstæðishyggja

Eitt af því sem ég á hvað erfiðast með að skilja er þegar fólk er svo opið og umburðarlynt að það liggur við að það boði þekkingarfræðilega afstæðishyggju. Allar skoðanir eru jafnar og það þykir jafnvel dónalegt þegar sett er út á skoðanir annarra, hrokafullt að benda á rökvillur og rökleysur í málflutningni og gott ef það er ekki bara ómálefnalegt að þykjast vita betur en annað fólk.

Fólk sem boðar afstæðishyggju passar sig yfirleitt á að benda á að vísindi séu bara ein af þeim aðferðum sem við höfum til að öðlast þekkingu á heiminum og fullyrðir jafnvel að ýmsar aðrar aðferðir séu jafn góðar. Stundum er talað um fólk sem trúir því að framþróun vísinda sé í eðli sínu góð eins og þar sé um kjánalega barnatrú að ræða enda ekkert gott í eðli sínu eða hvað?

Það er sérlega stutt á milli þekkingarfræðilegrar afstæðishyggju og siðferðilegrar afstæðishyggju. Siðferðileg afstæðishyggja byggist á því að þó okkur þyki eitthvað rangt þurfi það alls ekki að vera rangt annars staðar. Siðferðileg afstæðishyggja getur orðið afskaplega varasöm, því með henni er hægt að réttlæta hvað sem er með því að vísa til menningar eða sögu svæðis. Mannréttindi eru ekki lengur algild heldur afstæð eins og frægt varð þegar Vigdís heimsótti Kína. Það er því vont að fangelsa fólk fyrir skoðanir sínar á Íslandi en ekkert svo vont þegar það gerist í Kína.

Í greininni Áréttingar um póstmódernisma sem birtist meðal annars í bókinni mannkostir fjallar Kristján Kristjánsson um þá gagnrýni sem hann varð fyrir eftir að skrif hans um afstæðishyggju (póstmódernisma) birtust.

Tal um "ofsóknir" og "hleypidóma leiði ég hjá mér enda skýrist það af þeirri íslensku umræðuhefð (eða ef til vill fremur skorti á umræðuhefð) sem leggur að jöfnu sterka sannfæringu og ofsóknarkennd, skýrar skoðanir og fordóma.

Þetta ku vera dylgjublogg :-)

30.12.03 13:55
Áhugamenn um afstæðishyggju hefðu líka hugsanlega gaman að grein minni um Alan Sokal og póstmódernisma.

efahyggja
Athugasemdir

Bjarna Rúnari - 30/12/03 05:48 #

Afstæðishyggja er alveg frábær!

Næstum jafn góð og Discordianismi.

Siðferðislega afstæðishyggjan er líka fín, en maður verður þá að hafa bak við eyrað að gæði afstæðishyggjunnar er sjálf afstæð. ;-)

Már Örlygsson - 30/12/03 13:29 #

Tek undir með Bjarna.

Það er annas fyndið að fylgjast með því hvernig afstæðishyggjan sem varð til sem mótsvar við hefðbundinni algildri, aggressívri heimspeki fyrri alda (mitt-gildismat-er-réttara-og-betra-en-þitt-og-ég-lem/kúga/dissa-þig-ef-þú -samþykkir-það-ekki attitjúdið), verður núna í sífellt auknum mæli fyrir aðkasti frá nýrri kynslóð fólks sem aðhyllist einfalda og algilda sýn á heiminn í kringum sig.

Mér finnst mjög jákvætt þegar menn átta sig á takmörkunum afstæðishyggjunnar, en það er ekki það sama og að afneita henni algjörlega.

Allt er best í hófi - hvort tveggja afstæðishyggjan og ofurtrúin á ágæti eigin gildismats. :-)

Matti Á. - 30/12/03 13:45 #

Ég setti þessa grein inn Vantrú í örlítið breyttri útgáfu. Loka á athugasemdir hér, vinsamlegast kommentið þar ef þið viljið tjá ykkur um efni hennar.