Örvitinn

Nói albinói og uppgjörið við Kierkegaard

Leigði Nóa albinóa á DVD í gærkvöldi, varð fyrir nokkrum vonbrigðum enda hefur myndin hlotið afskaplega mikið lof. Hún er svosem ágæt að mínu mati, en ekkert meira en það.

Horfði á fyrstu mínúturnar af myndinni þar sem leikstjórinn, Dagur Kári, ræðir við Ásgrím Sverrisson (held ég alveg örugglega) um myndina. Þar var gullmoli sem stendur eiginlega upp úr að mínu mati.

Í byrjun myndarinnar fer Nói í bókabúðina. Þar situr eigandinn og les upphátt úr bók eftir Kierkegaard. Lýkur við lesturinn, blótar bókinni og fleygir henni í ruslið. Segist ekki selja svona drasl en vill samt ekki gefa Nóa bókina.

Ásgrímur segir þá við leikstjórann eitthvað á þessa leið "þarna er uppgjör þitt við Kierkegaard" og gerir að því skóna að Dagur Kári hafi lesið Kierkegaard, þótt hann leiðinlegur eða ekki verið sammála honum og því ákveðið að senda honum tóninn í myndinni. Dagur Kári segir að svo hafi alls ekki verið, hann slysaðist bara til að heyra þetta brot eftir Kierkegaard lesið upp í Ríkisútvarpinu og þótti það passa inn í myndina, hefur sjálfur ekki lesið staf eftir þennan danska heimspeking.

Mér þótti þetta dásamlegt samtal, því þetta sýnir svo vel hversu mikla og djúpa speki fólk getur lesið úr listaverkum. Eignað höfundinum allskonar hvatir og hugsanir sem voru svo alls ekki til staðar. Í raun segir túlkunin oft meira um þann sem setur hana fram en verkið sjálft. Þessi túlkunarþörf hefur mér oft þótt skondin, meðal annars hjá Deus ex cinema [1] sem sjá trúarstef í hverju verki.

kvikmyndir
Athugasemdir

Árni Svanur - 14/03/04 22:18 #

Ég sem hélt að við hefðum tekið það skýrt fram á sínum tíma að við sæjum einmitt ekki trúarstef í hverri kvikmynd, en að siðferðisstef mætti finna í næstum öllum kvikmyndum. Hitt höfum við við einnig bent á að trúarstef má finna í fleiri myndum en marga grunar.

Matti Á. - 14/03/04 22:21 #

Hér voruð þið bara teknir sem dæmi, ég hefði alveg eins getað sagt, feministar sem sjá klám í hverju verki eða eitthvað í þá áttina.

Annars hef ég lesið töluvert af umsögnum um kvikmyndir á vefnum ykkar og finnst þið vera merkilega duglegir við að finna trúarstef á ólíklegustu stöðum.

Árni Svanur - 15/03/04 18:19 #

Ég tek þessu bara sem hrósi :-)

Þorkell - 15/03/04 18:26 #

Hvaða máli skiptir það hvort Dagur Kári hafi lesið Kierkegaard eða ekki? Um leið og hann lætur texta hans og rit í myndina verður tilvitnunin og þar með Kierkegaard hluti af landslagi myndarinnar og því einnig hluti af túlkun hennar.

Við á Deus ex cinema erum ekki að skoða hvað leikstjórinn ætlaði að segja. Þeir sem hafa áhuga á slíku geta tekið viðtal við leikstjórann sjálfir (ef hann er á lífi eða gefur færi á sér). Við erum að rannsaka hvað myndirnar segja. Þetta tvennt fer ekki alltaf saman og það er sannleikur sem bókmenntafræðin komst að fyrir mörgum áratugum.

Óli Gneisti - 15/03/04 19:03 #

Þið eruð semsagt ekki að leita að því sem myndin átti að segja heldur það sem reynsluheimur ykkar vill lesa úr myndinni. Er þetta ekki nákvæmlega sama aðferð og þið notið til að lesa Biblíuna?

Óli Gneisti - 15/03/04 19:11 #

Kannski er bara best að orða þetta svona: Þið lesið það sem þið viljið lesa úr kvikmyndum einsog þið lesið það sem þið vijið lesa úr Biblíunni.

Þorkell - 15/03/04 19:44 #

Nei, við lesum ekki bara það sem við viljum úr kvikmyndum. Og ég skil ekki þessa hugmynd þína að kvikmynd hafi "átt að segja" eitthvað.

Við skulum taka dæmi Óli. Hér kemur setning:

"Ég elska kalda kók."

Segjum sem svo að ég hafi ætlað að segja að ég hati kalda kók en að ég mismælt mig. Hvor merkingin stendur þá? Merkir setningin: "Ég elska kalda kók." að ég hati kalda kók vegna þess að það var það sem ég ætlaði að segja eða merkir hún einfaldlega það sem þar stendur, þ.e. að ég elski kalda kók?

Við getum heimfært þetta upp á öll listaverk. Við erum ekki bundin af því hvað listamenn hafa um verk sín að segja heldur verðum við að lesa þau á eigin forsendum. Auðvitað verður slíkur lestur alltaf litaður af bakgrunni þess sem les, en svo verður ávallt og í raun barnalegt að halda að til sé einhver lestur sem sé óháður lesandanum.

Óli Gneisti - 15/03/04 20:20 #

Á netinu þá hef ég mikið séð af einum Queenaðdáanda sem heldur að nær öll Queenlög fjalli um hann persónulega (reyndar heldur hann líka að meðlimir Queen elti hann reglulega í dulargervum). Þetta breytir engu um lögin sjálf.

Það er eitt að taka listaverk til sín og það er annað túlka listaverk fyrir aðra út frá sjálfum sér.

Þorkell - 15/03/04 20:35 #

Hvað ertu að fara Óli? Ertu að segja að öll túlkun sé geðveiki? Eða ertu að segja að þeir einu sem mega túlka listaverk séu höfundarnir sjálfir?

Ég var alls ekki að segja að öll túlkun sé jafn rétthá. Auðvitað fylga bókmenntafræðingar, kvikmyndagagnrýnendur eða aðrir þeir fræðimenn sem túlka listaverk ákveðnum aðferðafræðum.

Ég hvet þig Óli til að lesa eitthvað í bókmennta- eða kvikmyndafræði. Þar muntu fá mörg svör við þessum hugleiðingum þínum. Þú getur einnig lesið smá um þá aðferðafræði sem við styðjumst við á www.dec.hi.is

Njóttu Þorkell

Óli Gneisti - 15/03/04 20:41 #

Ég er að segja að maður eigi að túlka verk út frá höfundunum en ekki út frá sjálfum sér. Ég þarf ekki að lesa neitt í kvikmynda- eða bókmenntafræðum til þess að fá svör enda á þessi gagnrýni mín (og Matta held ég) alveg eins við um menntaða bókmennta- og kvikmyndafræðinga þó þeir séu yfirleitt ekki jafn grófir í þessu og þið.

Óli Gneisti - 15/03/04 20:49 #

Kannski að taka fram að þegar maður er sjálfur að njóta listaverks þá gerir maður út frá eigin hugmyndaheimi. Ef þú ætlar hins vegar að túlka verkið fyrir aðra þá verðurðu að gera það á annan hátt, þú getur kannski tekið fram að "þetta minnti mig á" en þú segir ekki "þetta minnir að sjálfsögðu á" því þá ertu kominn út í það að ætlast til að allir sjái hlutina með þínum augum.

Þorkell - 15/03/04 20:53 #

Þú ert sem sagt að segja það Óli að við megum ekki túlka listaverk ef höfundar þess eru dauðir og sögðu ekkert um það?

Þá langar mig að vita hvort þú haldir virkilega að sá sem horfir á kvikmynd eða les bók túlki ekki listaverkið jafn óðum (þótt ómeðvitað sé)?

Að lokum langar mig að biðja þig um að benda mér á þá "grófu" oftúlkun á dec sem þú talar um í svari þínu hér að ofan.

Óli Gneisti - 15/03/04 21:01 #

Það eitt og sér að þið teljið kærleika til guðfræðistefa er afar gróft.

Ef þú ert að túlka eitthvað bókmenntaverk þar sem ekkert er vitað um höfundinn, til dæmis eitthvert guðspjallana, þá ferðu ekki í það verk með það að markmiði að sjá þínar skoðanir í verkum þeirra heldur reynir þú að átta þig á því hvað raunverulega er sagt.

Þetta á náttúrulega aðeins við ef þú ætlar að þér að stunda raunverulega fræðimennsku en ekki ef þú ert bara að þessu fyrir sjálfan þig.

Þorkell - 15/03/04 21:20 #

"þá ferðu ekki í það verk með það að markmiði að sjá þínar skoðanir í verkum þeirra heldur reynir þú að átta þig á því hvað raunverulega er sagt."

Og það er einmitt það sem ég var að segja í upphafi. Maður rannsakar það sem er raunverulega sagt. Það er það sem við gerum á dec. Ef um hliðstæðu er að ræða þá er það alltaf tekið fram í umfjöllunum okkar.

Það er svo annað mál að fólk er ekki alltaf sammála um hvað sé raunverulega sagt og hvað ekki. Hvernig skal ákveða hver hefur rétt fyrir sér í slíkum málum Óli?

Svo er auðvitað hægt að skoða verk út frá ákveðinni kenningu en þá er það alltaf tekið fram. Umfjöllunin er því aldrei meira en sjónarhorn á verkið út frá þeirri kenningu.

Annars bíð ég enn eftir dæmi um "grófu" oftúlkunina. Ekki segja mér að kærleikurinn sé það eina sem þú fannst! Þótt kærleikur geti verið veraldlegur þá er hann einnig guðfræðilegt hugtak, eða telurðu virkilega að kærleikur sé ekki hluti af kenningum trúarbragða?

Óli Gneisti - 15/03/04 21:28 #

Þið túlkið kvikmyndir út frá trú ykkur sjálfum, ykkar trú án þess að reyna að skilja hvað var raunverulega sagt. Ég væri ákaflega spenntur að lesa umfjallanir á Deus ex cinema ef þið væruð raunverulega að fjalla um birtingarmyndir trúarbragða í kvikmyndum en þið gerið það afar sjaldan.

Ef þetta væri "kærleikur Jesú", "kristilegur kærleiki" eða eitthvað álíka þá væri það skiljanlegt en þið gerið þetta ekki, ykkur finnst kærleikur falla inn í guðfræðistef. Mundu að kærleikurinn er einskis virði ef ekki fylgir trú með, eða svo segir Lúther.

Þorkell - 15/03/04 21:31 #

Það er ljóst samkvæmt þessum orðum Óli að þú veist lítið um það sem þú ert að tala um. Lestu þig nú smá til um málið áður en þú svarar aftur.

Óli Gneisti - 15/03/04 21:33 #

Ef ég veit ekkert hvað ég er að tala um þá ættirðu að geta hrakið orð minn á einfaldan hátt, ég skora á þig að gera það.

Þorkell - 15/03/04 21:34 #

Það væri einnig gott ef þú gætir stutt rök þín raunverulegum dæmum, ekki bara almennt, mér finnst að ...

Eða getur verið að andúð þín í garð trúarbragða liti um of túlkun þína á skrifum okkar á dec?

Þorkell - 15/03/04 21:37 #

Halló Óli. Ertu ekki að snúa hlutunum á hvolf hér? Það ert þú sem ert að skjóta á okkur og því er það þitt að koma með dæmin og hrekja rök.

Ég veit ekki betur en að ég hafi svarað þér skírt en hins vegar fæ ég bara fullyrðingar án raunverulegra dæmi að baki.

Óli Gneisti - 15/03/04 21:39 #

Tökum dæmi af Bridget Jones's Diary, sú mynd fjallar varla neitt um trúarbrögð, einhverjir prestar koma þarna fram en annars man ég ekki eftir neinu. Þetta kemur ekki í veg fyrir heillanga umfjöllun um trúarstef sem tengist myndinni eiginlega ekki neitt.

Birgir Baldursson - 15/03/04 21:40 #

"Annars bíð ég enn eftir dæmi um "grófu" oftúlkunina. Ekki segja mér að kærleikurinn sé það eina sem þú fannst!"

Hvað um þetta hér í umfjölluninni um Two Towers?

"Þá eru mörg trúartákn í myndinni. Það byrjar t.d. að rigna rétt áður en stríðið hefst en tengsl rigningar við syndina minnir að sjálfsögðu á söguna af örkinni hans Nóa."

Annars er það alþekkt í bókmenntafræðinni að túlka verk að eigin geðþótta, lesa verk "á móti" höfundinum en ekki "með" honum. Öllu er því vafstri ætlað að auka skilning okkar á þeirri skepnu sem við erum og stundum gengur það bara ágætlega.

Matti Á. - 15/03/04 21:50 #

Ekki skil ég þetta fjaðrafok, í færslunni tók ég deux ex bara sem dæmi, eins og ég nefni nú í svari mínu til Árna.

Lykilatriðið var svo að sjálfsögðu þessi setning.

Í raun segir túlkunin oft meira um þann sem setur hana fram en verkið sjálft.

Þarf eitthvað að deila um þetta? Er deux ex cinema ekki stórgott dæmi um að trúmenn geta horft á atriði sem koma trú ekkert við en fundið samt í atriðinu trúarstef á nákvæmlega sama hátt og öfgafullur feministi getur fundið nauðgun í saklausri uppstillingu. Trúarstefið eða nauðgunin er í raun einungis til í kolli þess sem skynjar. Vissulega er hægt að benda öðrum á og þá sjá þeir það líka en þau tengsl eru framleidd eftir, svipað og hægt er að heyra ákall til djöfulsins þegar ákveðin tónlist er spiluð afturábak - en einungis þegar maður veit hvað maður á að heyra.

Það sem var fyndið við Nóa albinóa og Kierkegaard var að Ásgrímur virtist fullviss um að eitthvað meira byggi á bak - í reynd var engin djúp pæling hjá leikstjóranum heldur þótti honum þetta bara passa. Það er ekkert uppgjör við Kierkegaard í Nóa albinóa og það eru ekki trúarstef í fjölda mynda sem þið fjallið um á deus ex, trúarstefin eru í kollinum á ykkur.

Þorkell - 15/03/04 22:14 #

Ég ætla ekki að svara fyrir Árna Svan, en hann skrifaði um Bridget Jones's Diary. Hins vegar skrifaði ég um LOTR og skal glaður svara fyrir hana.

Rigning er trúartákn rétt eins og dúfa, kross eða hvað annað. Spurningin er hins vegar sú hvenær rigning í bíómynd hættir að vera "bara" rigning og fær trúarlegt samhengi. Oftast er rigning notið til að undirstrika hryggð viðkomandi persóna.

LOTR fjallar um baráttu hins góða og illa og það er ljóst að stríðið tengist hinu illa. Þeir sem þekkja til söguheims J.R.R. Tolkien vita að "the Dark Lord" er fallinn guðleg vera. Því finnst mér ekki langsótt að sjá tengsl á milli hinnar trúarlegu merkingar rigninarinnar og þessa stríðs sem illskan hefur hrundið af stað.

Óli Gneisti - 15/03/04 22:18 #

En rigningin er ekki á nokkurn hátt þannig að hægt sé að lesa tilvísun í syndaflóðið. Rigningin er á mjög einfaldan hátt "þegar þú hélst að þetta gæti ekki orðið verra þá fer að rigna".

Þorkell - 15/03/04 22:23 #

Það er annar túlkunarmöguleiki Óli.

Óli Gneisti - 15/03/04 22:25 #

Mín túlkun hefur þann ótvíræða kost að vera líklega rétt á meðan þín er nær örugglega vitlaus sem dregur úr gildi hennar.

Árni Svanur - 15/03/04 23:09 #

Ég leyfi mér að skjóta hér inn vísun í umfjöllunina um Bridget Jones's Diary sem minnst hefur verið á hér að ofan.

Það stef sem tekið er til umfjöllunar á Deus ex cinema vefnum (kærleikurinn og það að játast manneskjunni eins og hún er) er algjört lykilstef í henni og snertir tvö af mikilvægustu þemunum sem tekin eru fyrir í henni: Sjálfsmynd og samskipti kynjanna. Það er því út í hött að segja þetta stef ekki tengjast myndinni neitt.

Útfærslan í umfjöllunni sjálfri er síðan grundvölluð á hliðstæðu og samanburði. Þetta er tekið skýrt fram í textanum. Gerður er samanburður á kvikmynd og kenningu og bent á mögulega hliðstæðu þar á milli. Markmiðið er tvíþætt: Annars vegar að útskýra kenninguna og hins vegar kvikmyndina.

Óli Gneisti - 15/03/04 23:14 #

Þessi umfjöllun segir ekkert um myndina, það að troða guði inn í þetta skýrir myndina ekki neitt.

Þorkell - 15/03/04 23:20 #

"Mín túlkun hefur þann ótvíræða kost að vera líklega rétt á meðan þín er nær örugglega vitlaus sem dregur úr gildi hennar."

Ertu búinn að spyrja leikstjórann, handritshöfunda og fl. að þessu? Samkvæmt þínum eigin orðum Óli er það eina sem skiptir máli.

Um það hvort kenning þín sé líklegri til að vera rétt vil ég bara segja þetta. LOTR er heimsslitamynd. Hún fjallar um möguleg endalok heimsins. Það stríð sem háð er þarna er því háð af hinum illu öflum til að þurrka út allt það sem getur talist gott í heiminum. Finnst þér það virkilega svo langsótt að tengja rigninguna sem byrjar við upphaf átakanna við söguna af syndaflóðinu? Og hvað hefur þú fyrir þér í því að þarna sé verið að segja að "þegar þú hélst að þetta gæti ekki orðið verra þá fer að rigna". Er einhver í myndinni sem segir það?

Óli Gneisti - 15/03/04 23:24 #

Til að tengja þetta við syndaflóðið þá þyrfti:

A: Náunga að safna dýrum í örk B: Guð að drekkja syndurum

Frelsarinn - 15/03/04 23:31 #

Ég ætla að vona að þeir félagar á Deus ex cinema fjalli ekki um "Singin'in the Rain" Spurning hvernig 900 ára gamli drykkjuhrúturinn hann Nói komist frá borði í því syndaflóði ;)

Árni Svanur - 16/03/04 08:41 #

Þessi umfjöllun segir ekkert um myndina, það að troða guði inn í þetta skýrir myndina ekki neitt.
Það er skýrt tekið fram í umfjölluninni að ekki er verið að troða Guði inn í eitt né neitt. Ég sé af orðum þínum að þú færð ekkert út úr því að lesa umfjöllunina og ég fæ lítið út úr því að ræða hana við þig. Ég er sáttur við að láta þar við sitja.

Matti Á. - 16/03/04 10:14 #

Umfjöllun Árna um Bridget Jone's Diary er afbragðsdæmi fyrir upphaflegu grein mína (ef einhver hefur gleymt því, þá byrjar þessi umræða á sárasaklausri grein eftir mig).

Fyrirvarinn sem Árni setur er eiginlega bara til að toppa dæmið, hann veit að þetta er bara í kollinum á honum.

Það rétt að taka fram að það er ekki skoðun þess sem þetta ritar að það hafi verið ætlun höfundar myndarinnar að endursegja þessa kristnu hugmynd. Hann hefur satt best að segja ekki forsendur til að leggja á það mat. Engu að síður er hér um athyglisverða tilviljun að ræða, sem kann að endurspegla bakgrunn þess menningarsamfélags sem við lifum í.
Stundum eru tilviljanir einmitt bara það, tilviljanir. Ekki ætla ég að banna deus exurum að sjá kristgerving í hverju horni, en ég áskil mér þann rétt að brosa að þeim.

Árni Svanur - 16/03/04 20:50 #

Og ef ég hefði ekki slegið þennan sjálfsagða aðferðafræðilega varnagla þá hefði ég kannski verið skammaður fyrir að þykjast vera að fjalla um skoðun höfundar ;-)

Matti Á. - 16/03/04 21:09 #

Ég held þessi varnagli mætti fylgja næstum hverri grein á deus ex cinema ;-)

Skúli - 19/03/04 19:00 #

Nenni nú ekki að rekja mig eftir þessu öllu en v/Bridget þá er þetta einfalt og lítið dæmi um HLIÐSTÆÐA hugsun með bíómynd og merkum hugmyndum. Það er allt og sumt.

Eitt af því skemmtilegasta við bíórýni er einmitt að skoða boðskapinn m.t.t. háleitra hugmynda. Það að menn hafi ekki gramsað í skrifum stórra hugsuða þýðir ekki að þeir geti ekki tekið sér neitt úr smiðju þeirra sér til brúks. Áhrifin eru þá óbein.

Sjálfur set ég þennan fyrirvara í umfjöllun minni um Mann án fortíðar. Þess þarf h.v. ekki að mínu mati í Englum alheimsins sem hefur að geyma miklu skýrari tilvísanir.

Síðan - v/efni sjálfs pistilsins sem óx þessi langi hali - hvernig ber að túlka svona "dissara" athugasemdir leikstjóra? Auðvitað vill hann segja eitthvað með því að setja Sören þarna inn í, þótt hann hafi ekki lesið hann, æ, þessi hengilsháttur.

Matti Á. - 19/03/04 19:19 #

Auðvitað vill hann segja eitthvað með því að setja Sören þarna inn í, þótt hann hafi ekki lesið hann, æ, þessi hengilsháttur.
Af hverju auðvitað? Má ekki taka skýringu leikstjórans gilda, hann heyrði texta í útvarpinu og datt í hug að skella í myndina sem hann var að semja.

Skúli - 24/03/04 08:37 #

Jú, ætli það verði ekki að vera þannig. Samt þykir mér þetta eitthvað hálf billegt. Mönnum er þó vorkunn þótt þeir leiti spora Sörens þarna í myndinni.

Binni - 24/03/04 09:56 #

Ég hallast á sveif með þér, Matti, í þessu efni. Við skulum þó ekki gleyma því, að höfundurinn er dauður, að minnsta kosti í heimi bókmenntanna. Ætli megi ekki segja það líka um höfund kvikmyndarinnar? Það væri að minnsta kosti gaman að velta því fyrir sér.

Þetta veldur því, að listaverk lifa sjálfstæðu lífi og eru óháð höfundum sínum. Það er gömul saga og ný að "gagnrýnandinn" og "raunverulegi lesandinn" finni falinn fjársjóð í listaverkum sem "höfundar" þeirra kannast ekkert við.

PS: Þú átt fallega heimasíðu, Matti, þar sem textinn nýtur sín til fulls; ekkert óþarfa vesen.