Örvitinn

Lágmarksþátttaka og gjáin mikla

Ágætur punktur sem kemur fram í aðsendri grein í mogganum í dag. Er óeðlilegt að krefjast lágmarksþátttöku í kosningum sem fara fram í kjölfar fullyrðinga um gjá milli þings og þjóðar?

M.ö.o. ef helsta röksemdin fyrir því að þessar kosningar fari fram sé sú að þjóðin sé á annarri skoðun en þingið hlýtur um leið að vera eðlilegt að einhver ákveðinn hluti þjóðarinnar mæti og staðfesti þau rök.

Ég tel 75% þátttökumarkið of hátt og tel jafnvel að nægilegt sé að 20-25% greiði atkvæði gegn lögunum svo þau falli niður eins og Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt til, það þarf í raun ekki að setja aðra takmörkun á þátttöku en þá. Ef allir sem styðja lögin sitja heima gætu því 25% þjóðarinnar fellt þau. En upphrópanir eins og "lýðræðið er fyrir þá sem mæta" á ekki við í þessu tilviki. Hér hefur verið þvinguð fram kosning og völdin tekin af þinginu. Því hlýtur að liggja í hlutarins eðli að þeir sem þvinguðu fylgi málinu eftir og fjölmenni á staðinn. Ef ekki tekst að fá 20-25% þjóðarinnar til að mæta á staðinn og fella lögin eða ef fleiri staðfesta þau er ljóst að aldrei var forsenda fyrir því að færa valdið til þjóðarinnar, gjáin var mýta.

Áður: Fjölmiðlagjá

pólitík
Athugasemdir

Skúli - 14/06/04 13:23 #

Heyr heyr

Már - 14/06/04 22:13 #

Mér finnst oft megi alveg leyfa þeim sem hafa sterkar skoðanir og nenna að mæta og kjósa um eitthvað að ráða.

En ég er líka alveg sammála þér að það sé saklaust að heimta einhverja lágmarks þátttöku til að minna fólk á hvað kosningarétturinn er verðmætur.

Hins vegar grunar mig að þessi umræða um kosningarnar sem enginn mætir í nema tíu manna nasistaklíka, sé enn eitt dæmið um óþarfa hræðsluáróður. Í fyrsta lagi er engin sérstök ástæða til að trúa því að heimurinn fari til fjandans ef engin lágmarksþátttökukrafa sé sett í kosningalögin, og í öðru lagi þá fær maður ekki séð að nokkur þúsund atkvæða kosning sé minna marktæk en innan við 63 atkvæða kosning í Alþingishúsinu.

Á móti má þó færa þau rök að með því að setja mátulega lága þátttökukröfu (segjum 20%), þá er fólkinu í landinu gefinn kostur á að hundsa kosninguna og segja þannig forsetanum að við viljum ekki kjósa um þetta ákveðna mál. Þetta er möguleiki sem við höfum ekki annars...

Matti Á. - 14/06/04 23:43 #

þá fær maður ekki séð að nokkur þúsund atkvæða kosning sé minna marktæk en innan við 63 atkvæða kosning í Alþingishúsinu
Þeir 63 einstaklingar sem sitja á alþingi gera það samt í krafti atkvæða 80% þjóðarinnar. Nokkur þúsund Íslendingar kjósa einungis í eigin nafni.

En eins og ég segi, lágmarksþátttökukrafan er eðlileg að mínu mati sökum þess að helsta forsendan fyrir því að forseti sendi svona mál í kosningu til þjóðar er sú að meirihluti þjóðarinnar sé á móti lögunum. Ef hið rétta er að meirihluta þjóðarinnar stendur á sama og hefur ekki fyrir því að kjósa er forsendan að mínu mati brostin. Því finnst mér ekki rétt að bera þetta saman við aðrar þjóðarkosningar, aðdragandi þeirra er einfaldlega ekki sá sami.

Ég tel einnig að með því að setja mörkin við að 20-25% eða meirihluti kjósi gegn lögunum til að þau ógildist og engin önnur lágmarksþáttta sé tiltekin sé komið til móts við gagnrýnina um að þeir sem sitji heima ráði úrslitum. Ef ekki er hægt að fá 25% þjóðarinnar til að kjósa gegn lögunum er ljóst að gjáin var mýta.

Mér finnst oft megi alveg leyfa þeim sem hafa sterkar skoðanir og nenna að mæta og kjósa um eitthvað að ráða.
Mér hugnast það illa. Þrýstihópar eiga að þrýsta, ekki stjórna. Nú er ég sjálfur með sterkar skoðanir á ýmsum málum og tel að meirihlutinn eigi ekki að kúga minnihlutann, en ég sé fyrir mér mögulegar neikvæðar hliðar á því að litlir hópar fái mikil áhrif sökum sinnuleysis meirihlutans. Gæti nefnt feminista til sögunnar en held ég sleppi því :-P

JBJ - 15/06/04 01:28 #

Svo ég afriti það sem ég skrifaði öðrum aðila

50% kjósa í þingkosningum = fullkomlega löglegt 51% þingmanna styður frumvarp = fullkomlega löglegt 50% kjósa í þjóðaratkvæði = ekki tekið til greina Ég næ þessari stærðfræði hreinlega ekki. Segjum að 25% kjósi í Alþingiskosningum, meirihlutinn hefur þá rúmlega 13% atkvæða á bak við sig. Svo ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur þarf allt í einu 75%? 75% reglan er gölluð að því leyti að þeir sem EKKI TAKA ÞÁTT hafa meiri áhrif, með því að mæta ekki á kjörstað geta því 26% fellt niðurstöðu 74% meirihlutans.

Már - 15/06/04 09:02 #

"Þeir 63 einstaklingar sem sitja á alþingi gera það samt í krafti atkvæða 80% þjóðarinnar."

Þessir ákveðnu einstaklingar sem nú sitja á Alþingi hlutu sæti sín í kosningu þar sem þátttökuhlutfallið var um 80%. En ef ég skil þetta rétt, þá eiga lögin um þjóðaratkvæðagreiðsluna að gilda almennt til frambúðar, og það má meira en vera að einhvern daginn verði þátttakan í alþingiskosningunum slatta minni en það.

Í öðru lagi má sko vel deila um það hversu raunverulegt umboð almennings þessi valdaklíka hefur. Sjálfur kaus ég af illri nauðsyn, en í raun og veru var enginn valkostanna sem mér stóðu til boða raunverulegir talsmenn fyrir mín sjónarmið. Eins-atkvæðis flokkakosningar, eins og Alþingiskosningarnar eru, koma nokkuð kyrfilega í veg fyrir að útkoma kosninganna endurspegli raunverulegar skoðanir kjósenda.

...en í megin atriðum er ég alveg sammála þér.