Örvitinn

Raus um allt og ekki neitt

Kom heim af æfingu klukkan hálf eitt. Ágæt æfing, alltaf gaman að spila á þessum frábæra gervigrasvelli Leiknis. Ég þyrfti að fara í bælið en nenni því ekki. Held ég rausi aðeins hér í staðin.

Sýnist Örn Bárður telja sig hafa unnið fullnaðarsigur með síðasta innleggi sínu. Hinir trúmennirnir standa hjá og kinka kolli, "góður punktur" segja þeir vafalítið með skömmustusvip því þeir vita að þetta var fullkomlega glórulaust innskot. En þeir verða að standa með sínum manni, það er fyrir öllu. Þetta byggist voðalega mikið á hópefli, ef einn maður trúir því að hann tali við Gvuð er hann talinn bilaður, ef þúsund manns trúa því stofna þeir trúarbrögð og klappa hver öðrum á bakið, "við erum ekkert biluð".

Nóg að gerast hjá Liverpool þessa dagana, nýr leikmaður mætti á svæðið og meiddist á fyrstu æfingu. Tveir aðrir sterkir spánverjar á leiðinni. Væntanlega spilar enginn nýr leikmaður á laugardaginn en ég hlakka til að sjá leikinn, verð þó hugsanlega að taka hann upp og glápa á óbeint, Gyða er að reyna að plata mig (les: ég ræð engu um það) í fjölskylduferð upp í sveit.

Hætti fyrr en ég ætlaði í vinnunni í dag, rafmagnið fór af hluta hússinss og tölvurnar hjá meirihluta hugbúnaðardeildar fóru úr sambandi. Merkilegt hvað maður getur lítið gert tölvulaus, a.m.k. ef maður fær ekki tíma til að undirbúa sig.

Tók grisjuna af brunablettinum á lærinu í morgun (gærmorgun). Þetta er þokkalega gróið, allt annað að hafa sílikongrisju á þessu. Síðast var ég með venjulega grisju sem ég þurfti að skipta um á hverjum morgni, reif þá náttúrulega sárið upp um leið og var heillengi að fá það til að gróa. Fann ekkert fyrir þessu í boltanum í kvöld, fann aftur á móti nokkuð fyrir marblettinum við hnéð, en ekki þannig að það taki því eitthvað að væla útaf því.

Hvar var Arnaldur í kvöld? Ætli hann hafi sofnað, maður veit aldrei.

Canon var að kynna nýja stafræna myndavél, alltaf gaman að lesa um það þegar eitthvað gerist í þessum bransa. Ég er sáttur við mína vél og langar ekkert að uppfæra. Langar aftur á móti að eignast linsur, það er efni í pistil. Fjárveitingarvaldið tekur ekki vel í slíkar hugmyndir, samt erum við að tala um smápeninga, undir tíu þúsund krónur fyrir 50mm 1.8 annars vegar og 70-300 4.5-5.6 hinsvegar- hræódýrar linsur og frekar takmarkaðar en nógu góðar fyrir mig.

Ég þarf annars að fara að skila þessari ferðavél sem ég er með í láni, bara svo helvíti hentugt að hafa hana. Veit ekki hvað ég þrauka lengi ferðatölvulaus, þarf að fara að koma mér í samband við undirheimalýð borgarinnar, þeir ku geta reddað ferðavélum á sanngjörnu verði! Ég hef ekki efni á að kaupa mér ferðatölvu.

Forsíða www.gmaki.com fékk löngu tímabæra yfirhalningu í dag. Svosem ekki margir sem fara í gegnum hana, aðallega ættingar sem muna slóðina og kíkja inn til að gá hvort það séu komnar nýjar myndir. Ég held mig við einfalt útlit á forsíðunni. Ef ég gæti hannað útlit á vef myndi ég breyta þessari dagbók líka, en ég hef það ekki í mér og því breytist síðan ósköp lítið. Þetta virkar ágætlega held ég og það dugar mér. Annars er það dæmigert fyrir duglausa, þeir sætta sig við ástandið eins og það er.

Á Ítalíu borðaði ég oft nautkjöt í forrétt, ekki carpaccio sem er hrátt, heldur þurrkað nautakjöt. Ég hef man ekki hvað rétturinn heitir, var yfirleitt borið fram með basiliku, parmesan og ólívu olíu. Þessi mynd er af réttinum eins og fékk hann í Flórens. Hér heima er hægt að kaupa þurrkað nautakjöt sem heitir El Toro og er svipað, höfum fengið okkur það tvisvar í forrétt, síðast í gærkvöldi. Þetta kostar náttúrulega heilan helling útí í búð hér, enda lúxusvara.

Djöfull er ég alltaf forvitinn um fólk sem skoðar vefinn, sérstaklega þegar það eyðir miklum tíma og les helling af pistlum. Maður sér hvaðan sumir koma og þekkir þá sem hafa kommentað, ættingjar og vinir ramba inn og svo hef ég rekist á fólk sem hefur sagt mér að það kíki hingað af og til, en aðrir gægjast hingað og lesa þetta marklausa raus reglulega án þess að ég hafi hugmynd um hverjir það eru. Þangað til annað kemur í ljós geri ég ráð fyrir að þetta séu allt saman leynilegir kvenkyns aðdáendur eða lausleiksbörn frá unglingsárum mínum, nú komin á unglingsaldur og orðin forvitin um föður sinn.

Annars á ég engin lausleiksbörn frá unglingsárum mínum, það er nokkuð öruggt. Í fyrsta lagi byrjaði ég ekkert mjög snemma og svaf ég ekki hjá svo mörgum stelpum, í öðru lagi veit ég hverjar flestar þeirra eru og í þriðja lagi held ég að ég hafi ekki logið svo oft til um nafn. En það er önnur saga.

En auðvitað er öllum velkomið að lesa þetta og engin ástæða til að fólk geri grein fyrir sér, þannig virkar þetta.

Jæja, þetta var nú sæmilega marklaust raus, er það ekki bara? Spurning hvort maður fari að koma sér í háttinn fyrst klukkan er að verða tvö.

Ýmislegt
Athugasemdir

Nanna - 20/08/04 09:15 #

Bresaola. Ég hef reyndar oftar fengið það með klettasalati en basilíku, hún getur orðið of ráðrík ef mikið er af henni.

Matti Á. - 20/08/04 10:06 #

Takk kærlega, ég hef reynt að segja ýmsum frá þessu en aldrei gat ég munað hvað þetta heitir.

Kannski er ég bara að bulla með basilikuna, mig minnti eins og þetta hefði verið borið fram þannig en það væri samt full mikið á þessari mynd.