Örvitinn

Slys upplýst

Við morgunverðarborðið voru systurnar að spjalla um lækna og gorta sig af spítalaheimsóknum. Kolla sagði frá sínum heimsóknum, þegar hún fékk gat á hausinn eftir að Sven henti grjóti í hana og þegar hún fékk gifs. Það atvik var dularfullt vegna þess að enginn vissi hvað kom fyrir, fóstrurnar tóku eftir því að Kolla var farinn að hlífa hendinni og hún gat ekkert sagt sjálf, okkur þótti líklegast að hún hefði dottið.

Þegar Kolla var að segja frá þessu í morgun sagði ég einmitt "þegar þú dast" en þá leiðrétti hún mig strax. "Nei, stelpan var að skamma mig". Ég spurði hana nánar út í þetta og þá sagði hún að ein fóstran hefði verið að skamma hana og togaði í hendina. Barnið hefur eitthvað skammast sín og ekki þorað að segja frá. Það sem verra er, fóstran sagði ekkert heldur og því hafði enginn hugmynd um hvað olli þessu, það er afar ólíklegt að fóstran hafi ekki vitað að hún meiddi barnið og það fór ekki framhjá neinum í leikskólanum að hún var slösuð. Ég passaði mig á að gera ekki mikið úr þessu þegar við ræddum saman, engin ástæða til að Kolla sé að rifja þetta upp og gera mikið úr þessu

Þegar við vorum að fara út kom Kolla með bekkjarmyndina sem var tekin á leikskólanum í haust og benti mér á stelpuna. Ég held hún sé hætt, a.m.k. var ekki mynd af henni við Kisudeild.

Nú er ekki alltaf hægt að taka 100% mark á því sem börn segja, en þessi frásögn Kollu er afar trúverðug og kom alveg upp úr þurru. Hún mundi ekki hvað stelpan heitir en gat bent mér á hana á mynd. Það er ekki laust við að ég sá dálítið reiður.

fjölskyldan
Athugasemdir

Binni - 09/05/05 13:15 #

Ég væri „dálítið reiður“ líka í þínum sporum. Ég myndi a.m.k. ekki hika við að ræða þetta við leikskólastjórann. Miðað við hversu margt hefur valdið þér uppnámi á þessum leikskóla, sem skaðar kannski ekki beinlínis dóttur þína, þá þætti mér við hæfi að þú vektir máls á þessu, þó ekki sé meira!

Matti Á. - 09/05/05 16:57 #

Við ætlum að nefna þetta við leikskólastjórann, annað er ekki hægt.

Sirrý - 10/05/05 08:45 #

Ég myndi hafa orð á þessu við leikskólastjórann.