Örvitinn

Galileó II

Fórum með stelpurnar út að borða á laugardagskvöldið. Ókum í bæinn og röltum um, byrjuðum á Kínahúsinu en gengum á reykvegg. Ég spurði þjón hvort eitthvað svæði á staðnum væri laust við mökkinn en fékk einfalt svar: nei. Er þetta ekki brot á einhverjum lögum?

Hvað um það, við röltum áfram og ákváðum að fara á Galileó, neðri hæðin þar er reyklaus.

Eins og síðast fengum við borð við innganginn og ég naut þess að fá gustinn í bakið í hvert sinn er einhver kom eða fór.

Á borð var borið brauð ásamt ólívu og tómatmauki. Ólívumaukið var með því betra sem ég hef fengið, grófara en ég hef áður séð. Tómatmaukið var líka mjög gott.

Í forrétt fengum við okkur nautacarpaccio (1480.-), pöntuðum sitthvorn skammtinn og gáfum stelpunum með. Afar gott og vel útlátið.

Pöntuðum pizzu (1300.-) með skinku (250.-) og ananas (250.-) handa stelpunum. Ég fékk mér sjávarréttarisotto (2460.-), síðast fékk ég mér kjúklingarisottó. Gyða fékk sér canneloni (1970.-). Hún drakk hvítvínsglas (750.-) með matnum en ég hélt mig við vatnið.

Risottóið var mjög gott. Fullt af sjávarfangi, þar með talið rækjur, hörpuskel og annar skelfiskur. Dálítið blautt miðað við það sem ég geri en það átti vel við í þessu tilviki. Gyða var ánægð með sinn rétt og stelpurnar sáttar með pizzuna.

Þjónustan var nokkuð góð, pizzan kom fljótt fyrir stelpurnar sem er til fyrirmyndar - ekki hægt að láta börn bíða. Borðið var illa staðsett, verð að muna næst að biðja um annað borð. Eini gallinn við þjónustuna var að sprite sem við pöntuðum fyrir stelpurnar reyndist var sódavatn þegar það kom á borðið, því var þó kippt í liðinn. Einnig var ekki alveg nógu gott að aldrei var fyllt á vatnið , ég endaði með að drekka vatnið hennar Gyðu líka þar sem hún var með hvítvín.

Ég er nokkuð ánægður með Galileó. Þeir fá stórt prik fyrir að vera með risottó á matseðlinum, mættu þó alveg breyta eitthvað til - þetta eru sömu réttir og síðast. Einnig fá þeir mikið hrós fyrir reyklausa hæð.

Kínahúsið nenni ég ekki að reyna að heimsækja aftur, ef það er ekki hægt að bjóða upp á sæti þar sem maður er laus við reykmökk er alveg hægt að sleppa því að bjóða upp á mat að mínu hógværa mati.

veitingahús
Athugasemdir

Erna - 16/05/05 14:08 #

Samt dæmigert að reyklausa "hornið" á veitingastað sé upp við dyrnar í dragsúgnum...
Þetta er svo fínt hérna í NY, frá því að ég kom hingað hefur verið reykingabann í sal veitingahúsa, en svo fyrir tveimur árum var bannað að reykja á börum líka. Alger sæla! Það hlýtur að koma að því að reykingar verði bannaðar á veitingahúsum heima, ég bara hef ekki trú á öðru!

Matti Á. - 16/05/05 18:29 #

Galileó verður samt að fá hrós fyrir að öll neðri hæðin er reyklaus. Ég hef ekki komið á efri hæðina, þar sem er reykt, en heyrði þó á þjóninum, sem var að sannfæra fólk um að það værik ekki mikið reykt þar þá stundina, að það væri "voðalega skemmtilegt" að sitja uppi.

Ég hlakka óskaplega til þess þegar það verður búið að banna reykingar á veitinga og skemmtistöðum. Það verður dásamlegt.