Örvitinn

Brúðkaup og afmæli

hringberinn.jpgÉg er ekki ljósmyndari, bara karl* með myndavél. Samt er það svo að stundum biður fólk mig um að taka myndir og ég tek að mér verkefni.

Í gær tók ég myndir í brúðkaupi Ingólfs vinnufélaga míns. Sá ekki um brúðarmyndatökuna, þau fengu sem betur fer fagmann í það, en ég var í kirkjunni og veislunni. Þetta er í þriðja skipti sem ég tek myndir í kirkju og alltaf finnst mér jafn óþægilegt að þvælast fyrir athöfninni - hef það á tilfinningunni að gestir blóti mér í hljóði fyrir að þvælast fyrir. Ég reyni að láta fara lítið fyrir mér en það er nauðsynlegt að rölta um til að ná ákveðnum lykilmyndum í athöfninni.

Fékk lánaða D50 vél hjá tengdamóður minni til að vera með varavél. Tók myndina hér til hliðar með henni og Sigma 30mm 1.4 linsunni. Var afskaplega feginn að eiga 17-55 2.8 linsuna - hún er alger snilld, tók langflestar myndir með henni galopinni (á 2.8 semsagt) - var með hana á D200 vélinni nær allt kvöldið. Tók um 1450 myndir, allt RAW, um 10GB. Vonandi eru nokkrar þokkalegar myndir þarna inn á milli :-)

Það er óhætt að segja að þetta geri ég bara fyrir fólk sem ég þekki (og kann vel við). Ég er alveg uppgefinn eftir þessa törn, var að frá fimm til tíu, yfirgaf samkvæmið eftir að brúðhjónin skáru kökuna. Hefði viljað vera lengur því vafalaust var slatti eftir sem hefði verið gaman fyrir brúðhjón að eiga á mynd - en ég þurfi að koma mér heim, við erum nefnilega að halda afmælisboð í dag.

Áróra Ósk varð fimmtán ára síðustu helgi, var þá í bústað með vinkonum sínum (og móður) og því er fjölskylduboð í dag. Gyða þurfti að sjá um undirbúning í gær og bakaði þá einhverjar kökur. Ég geri hummus, pizzur og quesadillas. Er búinn að sjóða kjúlingabaunir, þarf að fara að koma mér upp og gera pizzudeig.

* Ég vildi ég gæti sagt strákur, því þannig upplifi ég sjálfan mig, en ætli ég verði ekki að fara að sætta mig við að vera karl.

dagbók
Athugasemdir

Kristín - 10/06/07 18:19 #

Sumt fólk verður karlar og kerlingar fyrir aldur fram. Sumt fólk er stelpur og strákar fram eftir öllu. Ef þú fílar þig strák, kallaðu þig þá bara strák.

Matti - 11/06/07 11:36 #

Það er rétt, auðvitað er ég strákur :-)