Örvitinn

Leti á þjóðhátíðardegi

Sundlaugin okkarVið sváfum vel fyrstu nóttina í húsinu. Inga María kom yfir eins og búast mátti við, ég skellti mér þá yfir í hitt herbergið til Kollu svo hún svæfi ekki ein.

Fór snemma á fætur. ADSL tengingin virkar vel og ég fór á netið en náði aftur á móti ekki að tengja þráðlausa netið, wep lykill var ekki að skila sér. Ferðatölvan var því staðsett á loftinu í sjónvarpsholinu þessar tvær vikur.

MorgunverðarborðiðÉg fann símanúmer á hótelinu í Eurodisney og hringdi þangað útaf lyklunum sem urðu eftir. Lyklarnir höfðu fundist og ég ræddi við þau um að senda mér þá til Esparron. Fannst lítil ástæða til að setja lyklana í hraðpóst þar sem við ættum eftir að vera þarna í tvær vikur - vildi frekar fá sendinguna í einhverjum ábyrgðarpósti. Sá eftir því síðar.

Stelpurnar röltu út í bakarí með fána og sungu Öxar við ána í tilefni dagsins, vöktu nokkra athygli. Keyptu þar croissant og baguette sem við borðuðum með kæfu og ostum.

Við fengum lánuð hjól sem fylgja húsinu, ég og Ásmundur hjóluðum í búðina – það var auðvelt að hjóla þangað en aðeins erfiðara að hjóla til baka enda stendur bærinn í hlíð og húsið er ofarleg en miðbærinn neðarlega. Í búðinni fékk ég endanlega staðfest að við værum mætt til Frakklands, léttvínið var fáanlegt í smábúðinni og alveg fáránlega ódýrt.

Kolla, Inga María og DúlliÉg fór í sund með stelpunum eftir hádegi. Keyptur hafði verið krókódíll sem stelpurnar nefndu Dúlli króki krókódíll. Hann var mikið notaður í ferðinni. Kolla synti fram og til baka með kúta og stökk svo ofan í laug án þess að vera gripin. Inga María þorði því ekki.

Stelpurnar slökuðu svo á fyrir framan sjónvarpið, horfðu á DVD en Ásmundur og Áróra fóru og skoðuðu safn í nágrenninu. Gyða, Gunna og Margrét fóru í göngutúr og komu til baka með ís, Stebbi spilaði á píanó og ég dundað mér á netinu.

Kvöldmatinn borðuðum við á fínum veitingastað í næsta bæ, ég tók engar myndir! Stelpurnar voru orðnar verulega þreyttar sem var ekkert skrítið.

Myndir dagsins

Fyrri dagur - næsti dagur

Frakkland 2007