Örvitinn

Avignon og Pont du gard

Ég, Gyða og Áróra fórum í dagsferð til Avignon með Stebba og Margréti. Fórum á okkar bíl og ókum hraðbrautina til Avignon. Vorum um tvo tíma á leiðinni.

Gömul kona dansar fyrir framan Palais des Papes"Þegar við komum til Avignon ókum við beint í gamla miðbæinn og þar í bílastæðahús. Þegar gengið var úr bílastæðahúsinu vorum við komin að Palais de Papes. Við byrjuðum á því að ganga framhjá því og inn að aðalgötunni. Fengum okkur hádegisverð á veitingastað sem auglýsti paellur. Ég fékk mér svarta paellu, með smokkfiskableki. Þetta var ágætt en varla meira en það, lauksúpa sem við fengum í forrétt var frekar vond.

Í kapellunniFórum svo í Palais de Papes og skoðuðum okkur um. Ansi merkilegt, þarna var páfi staðsettur á árunum 1309-1377. Því miður mátti ekki taka myndir og ég þurfti að skilja mína vél eftir í móttökunni, aftur á móti var fullt af fólki með vasamyndavélar og tók myndir af miklum móð. Það mátti í kirkjunni við hliðina á og svo röltum við aðeins í garðinn áður en við héldum lengra. Það var óskaplega heitt þennan dag og við leituðum í skugga sem voru vandfundnir.

Pont du gardNæsti áfangastaður var Pont du gard, afskaplega fræg vatnsveita sem rómverjar byggðu á fyrstu öld. Lögðum í bílastæði sem voru smá spöl frá, samferðafólk mitt kvartaði sumt yfir því að þurfa að ganga í kvöldsólinni. Afskaplega merkilegt mannvirki sem rómverjar byggðu og ákaflega tilkomumikið að rölta um svæðið.

Við slepptum hraðbrautinni á heimleiðinni, ókum í gegnum Apt. Ferðin gekk nokkuð greiðlega.

Gunna og Þór á veitingastaðnumÞeir sem eftir voru í Esparron höfðu pantað borð á veitingastað í bænum þannig að við mættum beint á veitingastaðinn. Þar fengu flestir andalæri með spagettí í tómat/ólívu sósu. Ansi gott og aprikósutertan sem ég fékk í desert var með því besta sem ég hef fengið.

Þetta kvöld var lifandi tónlist á staðnum, þriggja manna band, gítarleikari, hljómborðsleikari og söngkona. Þau spiluðu slagara, þar með talið fræg lög eftir Édit Piaf . Afskaplega skemmtileg og íslendingarnar trölluðu duglega með.

Myndir dagsins

Fyrri dagur - Næsti dagur

Frakkland 2007