Örvitinn

Leikskólaprestasiðferði

Það er óþarfi fyrir mig að vera sífellt að úthúða einhverjum prestum á þessu bloggi. Lesið bara það sem þeir hafa að segja.

„Þeir sem skera sig úr fjöldanum hljóta einhvern tíma að mæta því,“

Með þessum orðum reynir Valgeir Ástráðsson, sóknarprestur Seljakirkju, að verja leikskólatrúboðið. Hvað er hann að segja? Þriggja ára börn sem ekki eiga kristna foreldra þurfa bara að takast á við það? Hvernig er hægt að túlka þetta öðruvísi?

Seljakirkja er í nánu samstarfi við leikskólana í sókninni. Að sögn Valgeirs heimsækja prestar nokkra skóla reglulega og fara meðal annars með bænir með börnunum. „Við teljum að það sé mjög mikilvægt fyrir börn að fara með bænir, við teljum það ekki hættulegt.“

Aðspurður hvort hann þekki trúarlega samsetningu nemendaskarans segir Valgeir mögulegt að nýbúar á svæðinu hafi aðra trú en kristna. Valgeir tekur þó skýrt fram að háværustu mótmælin komi ekki frá þeim, heldur frá trúleysisfélagsskapnum Vantru.is.

Hvað finnst ykkur?

Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, tekur undir að trúarlegt kirkjustarf sé réttlætanlegt sem hluti skólastarfs. Hann leggur hins vegar áherslu á að umgjörð fyrir þá sem aðhyllast aðra trú eða lífsskoðun verði að vera góð.

Bíddu við... ha? Sagði Sigurður Árni virkilega að "trúarlegt kirkjustarf sé réttlætanlegt sem hluti skólastarfs". Þeir eru hættir að reyna að fela þetta, sem er að vissu leyti ágætt. En þeir kunna ekki heldur að skammast sín. Prestar ríkiskirkjunnar vilja gera leik- og grunnskólana okkar að kristniboðsstöðvum. Það er markmið þeirra og þeir eru að vinna að því - nema við stoppum þá.

En nei, það eru víst öfgar. Það eru bara einhverjir ofstækismenn í vantrú.is sem berjast gegn þessu.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Arngrímur Vídalín - 24/06/08 02:00 #

Ég skoðaði færsluna og skil innan vissra marka af hverju þú lokaðir á athugasemdir frá honum í stutta stund. En er ekki iðulega best að málflutningur fólks dæmi sig sjálfur, fremur en það sé á höndum einstakra síðuhaldara, jafnvel þótt hann hafi ekki tíma til að svara?

Matti - 24/06/08 08:35 #

Jú, þetta var ekki góð ákvörðun hjá mér á sínum tíma. Mér finnst samanburður hans samt ekki ganga upp.

Eva - 24/06/08 16:47 #

Mér finnst pólitískt flokkastarf vera réttlætanlegt sem hluti skólastarfs. Þá á ég vitanlega við starf vinstri grænna en ekki hinna kapítalísku flokka sem vilja veg auðvaldsins og illskunnar í heiminum sem mestan. Það getur ekki á neinn hátt skaðað börn að læra um mannhelgi, náttúruvernd og frið á jörð.

Svo eru öll börn líka kommúnistar í hjarta sínu og þeirri eðlishvöt þarf að finna réttan farveg, t.d. í starfsemi vinstri heyfingarinnar græns framboðs sem er á mun hærri siðgæðisstandard en aðrir flokkar.

Matti - 24/06/08 16:52 #

Eins og þessi samlíking er augljós og góð, þá hefur hún engin áhrif á presta. Hvorki þá sem stunda kristniboð í skólum né hina sem standa á hliðarlínunni. Þeir vilja ekki skilja hana.