Örvitinn

Séra Bjarni Karlsson herjar á börn

Bjarni Karlsson barnatrúboðiAf hverju í andskotanum eru prestar svona óskaplega ásæknir í börn? Af hverju vilja þeir endilega fá tækifæri til að troða lygaáróðri sínum í börn meðan þau eru leiðitöm, trúgjörn og grandalaus. ? Æi, ég svaraði spurningunni. Það er vegna þess að þau eru (heppilega) leiðitöm, trúgörn og grandalaus.

Á forsíðu Morgunblaðsins er mynd af Bjarna Karlssyni, einum af þessum "frjálslyndu" prestum sem elska homma og trúa í raun ekki á Gvuð (nema sem jákvæða póstmóderníska orku eða eitthvað álíka).

Hvað um það, skv. forsíðu Morgunblaðsins fara yngstu börnin úr Laugarnesskóla einu sinni í viku til Bjarna, hlusta á sögur úr Biblíunni og fara með bænir. Smellið á myndina til að lesa fréttina.

Hvað er eiginlega í gangi? Af hverju í andskotanum heldur kirkjuhyskið að það getið sótt börn í grunnskóla og stundað trúboð? Getur það ekki haldið trúaráróðri sínum þar sem hann á heima, í sunnudagaskólum.

Þessi hjón eru plága.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Óli Gneisti - 19/02/09 14:14 #

Og síðan er fólk hissa að við séum ekki slefandi af hrifningu yfir þessum pm prestum.

Jón Yngvi - 19/02/09 14:21 #

Ég er nokkuð viss um að þetta er ekki jafn slæmt og það hljómar og Bjarni sækir ekki heilu bekkina í skólann. Mínar dætur eru að vísu komnar í 4. og 5. bekk og hættar í skólaselinu, en meðan þær voru þar var þetta kirkjustarf í sæmilegu formi, þ.e. krökkunum bauðst að fara í kirkjustarf ef þau vildu, starfsmaður fylgdi þeim í kirkjuna, en starfsmenn fylgdu þeim líka á æfingar hjá Þrótti þannig að mér fannst ekki ástæða til að gera athugasemdir við það. Laugarnesskóli er almennt í sæmilegum málum og lítið samkrull við kirkjuna (á því eru þó undantekningar). Foreldrafélagið hefur mér á hinn bóginn þótt blanda sínu starfi of mikið saman við starf kirkjunnar, en þar sem ég hef ekki sjálfur gefið mig að starfi þar hef ég að mestu látið það yfir mig ganga, börnin enda svo ljómandi sjálfstæð og fengu leið á kirkjuheimsóknum skólaselsins eftir eitt eða tvö skipti.

Matti - 19/02/09 14:26 #

Er þetta semsagt hluti af heilsdagsvist ÍTR eftir skóla?

Þó það sé vissulega mun skárra heldur en það sem lesa má úr fréttinni (að öll yngri börnin séu send í kirkju) finnst mér þetta samtarf kirkju og ÍTR ólíðandi.

Jón Yngvi - 19/02/09 14:48 #

Ég kíkti inn á heimasíðu skólaselsins og sýnist þetta vera u.þ.b. eins og ég lýsti því. Kirkjan er að því er ég held í svipaðri stöðu gagnvart skólanum og t.d. íþróttafélögin í hverfinu.
Ég hef í tvígang fengið tilkynningar um kirkjulegt starf af þessu tagi í gegnum mentor, bæði frá Laugarnesskóla og Laugalæk. Í bæði skiptin skammaðist ég í tölvupósti og fékk afsökunarbeiðni til baka - ég á ekki von á að fá fleiri tilkynningar frá kirkjunni í gegnum skólann. Mér sýnist að skólastjórnendur séu sæmilega meðvitaðir um að blanda ekki saman skólastarfinu og kirkjunni hér í Laugarnesinu þótt ástandið sé auðvitað langt frá því að vera fullkomið.

Halldór E - 19/02/09 17:53 #

Umfjöllun Morgunblaðsins er bæði óheppileg og vitlaus sýnist mér og viðbrögð þín eru eðlileg í því samhengi.

Hvað ég best veit er starfið í Laugarneskirkju hvorki hluti af heilsdagsvistinni eftir skóla né skólanum sjálfum. Hins vegar bíður kirkjan upp á starf fyrir börn á starfstíma skólaselsins í samræmi við hvatningu ÍTR um að allt frístundastarf fyrir börn fari fram á hefðbundnum dagvinnutíma til að slíta ekki í sundur samveru foreldra og barna á erfiðasta tíma dagsins milli kl. 17-20.

Mér sýnist að þetta sé gert á tiltölulega vandaðan hátt í Laugarneskirkju þar sem börnin fara af skólasvæðinu til að taka þátt í kirkjustarfinu, en kirkjustarfinu er ekki þröngvað inn í starfsrými skólaselsins.

Líkt og Jón Yngvi bendir á hér að ofan, er svipað fyrirkomulag með marga aðra frístundastarfsemi, s.s. danskennslu, íþróttir og tónlistarnám. Ég veit ekki hvernig nákvæmlega skráning fer fram í Laugarneskirkju, en þar sem ég þekkti til var gerð skýr krafa um skriflega heimild foreldra svo börnunum væri leyft að ganga til kirkju. Í mínum huga er erfitt að gera greinarmun á þessu og þátttöku í íþróttastarfi, danskennslu eða tónlistarnámi, þar sem sum börn eru með og önnur ekki. Ástæður fyrir þátttöku/þátttökuleysi getur verið margskonar í öllum þessum tilfellum. Ég held að hagræði foreldra af því að sem mest af frístundastarfi barnanna sé á tíma skólaselsins, yfirvinni óþægindin af því að ekki öll börn taka þátt í öllum tilboðum.

Frá sjónarhorni kirkjunnar manns sem er að eyða bestu árum ævi sinnar í rannsóknir á samfélagsgerðum, kirkjuþróun, kirkjuuppbyggingu og kristniboði, þá tel ég að sértækt barnastarf líkt og þarna er líst sé ekki besta leiðin til að byggja upp trúaða einstaklinga og hef góða ástæðu til að ætla að áhersla undanfarinna ára á sértækt aldursmiðað kirkjustarf sé ein fjölmargra ástæða þess að kirkjan hafi glatað hlutverki sínu í huga mjög margra. En það er hins vegar ekki umræðuefnið hér.

Halli - 20/02/09 09:14 #

Flott innlegg Halldór.

Matti - 20/02/09 09:17 #

Ég tek undir það, athugasemd Halldórs er fín. Áður hefur verið rætt um ÍTR (dagvist) og kirkjuna á þessu bloggi.

Ég held að hagræði foreldra af því að sem mest af frístundastarfi barnanna sé á tíma skólaselsins, yfirvinni óþægindin af því að ekki öll börn taka þátt í öllum tilboðum.

Ég held áfram að gera greinarmun á trúarlegu (og pólitísku) starfi og öðru. Mér finnst ekki hægt að líkja saman íþróttum/tónlist og trú/pólitík.

Halli, notaðu rétt póstfang næst.

Bjarni Karlsson - 20/02/09 14:04 #

Ágæti Matthías

Núna á miðvikudaginn verður öskudagurinn haldinn hátíðlegur í kirkjunni af því að þá er starfsdagur kennara og við bjóðum börnunum milli kl. 14:00 og 16:00. Þú ert mikið velkominn að koma og sjá hvernig við mætum börnunu og ég er þess fullviss að er þú bara kæmir og værir hér eitthvað þá myndir þú óðara skipta um skoðun á því starfi sem hér fer fram. Það eru um 300 börn og unglingar sem reglubundið taka þátt í æskulýðsstarfi þessa safnaðar og fer vaxandi fremur en hitt.
Af orðum þínum er mér ljóst að þú hefur rangar upplýsingar um starf kirkjunnar sem þú gætir auðveldlega leiðrétt með því að skoða það sem fram fer. Hér standa dyr nefnilega opna og enga launhelgar iðkaðar. Um guðfræði mína getur þú fræðst m.a. með því að skoða nýlega meistaraprófsritgerð mína á sviði kynlífssiðfræði þar sem m.a. er fjallað um málefni samkynhneigðra og staða þeirra innan kirkjunnar ekki burtskýrð heldur útskýrð með rökum. Eins má lesa prédikanir okkar hjóna á heimasíðunni hjonablogg.eyjan.is. En umfram allt hvet ég þig til að setja þig í samband við mig til þess að sjá af eigin raun hvernig við störfum.

Svo þakka ég þér annars áhuga þinn á starfi kirkjunnar og óska þér alls góðs.

b. kv. Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju

Matti - 20/02/09 14:07 #

Er semsagt rangt sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins, að yngstu börnin fari til þín til að hlusta á sögur úr Biblíunni og fara með bænir?

Mér finnst ég þekkja guðfræði þína ágætlega.

Matti - 21/02/09 13:37 #

Örlítil viðbót, fyrst Bjarni kom og fór.

Af orðum þínum er mér ljóst að þú hefur rangar upplýsingar um starf kirkjunnar

Eins og fram kemur í færslunni hef ég upplýsingar mínar af forsíðu Morgunblaðins sem hægt er að lesa með því að smella á myndina með færslunni.

Ég hef engan áhuga á að ræða við presta í einrúmi þar sem það er sú aðferð sem þeir nota til að geta sagt það sem þeir vilja ekki að sé haft eftir þeim.

Vandamálið með flesta presta hér á landi (langflesta þeirra sem teljast "frjálslyndir") er að þeir eru tvöfaldir í roðinu. Segja hitt og þetta í persónulegum samtölum og tölvupóstum en hafa allt aðrar skoðanir opinberlega. Þeir eru eins og og flestir stjórnmálamenn.

Bjarni Karlsson - 23/02/09 00:11 #

Matthías

Ég er ekki að bjóða þér í neitt viðtal, heldur að bjóða þér að koma og sjá það sem fram fer í opnu almannarými svo að þú getir sjálfur dæmt um það hvernig við nálgumst ómótuð börn í kirkjunni. Þú slærð fram fullyrðingum um mig sem fagmann og persónu sem eru bara byggðar á augljósum fordómum. Ég er viss um að þú sért vel gefinn og skynsamur maður og myndir fljótt sjá að göngulag okkar í samskiptum við börn er sanngjarnt.

Bestu kveðjur með endurteknu heimboði í kirkjuna!

Bjarni Karlsson

Matti - 23/02/09 11:19 #

Þú slærð fram fullyrðingum um mig sem fagmann og persónu sem eru bara byggðar á augljósum fordómum.

Bjarni, ég ítreka: [Er semsagt rangt sem fram kemur í frétt Morgunblaðsins, að yngstu börnin fari til þín til að hlusta á sögur úr Biblíunni og fara með bænir?]

...myndir fljótt sjá að göngulag okkar í samskiptum við börn er sanngjarnt.

Bjarni, ég geri athugasemdir við að þið eigið í nokkrum "samskiptum" við börn.

Bjarni Karlsson - 23/02/09 22:58 #

... og þar birtast fordómar þínir.

Matti - 23/02/09 23:10 #

Í hverju felast þeir fordómar mínir? Er það rétt eða rangt hjá Morgunblaðinu að þú lesir biblíusögur með börnunum og látir þau fara með bænir?

Getur verið að það sért þú sem hafir fordóma en ekki ég?

Reynir Harðarson - 24/02/09 09:08 #

Mig grunar að Bjarni telji það fordóma að prestar megi ekki tala við börn.

Þarna ruglast saman tveir punktar. Sá fyrsti er að börn eiga auðvitað að fá að vera í friði fyrir trúarlegri innrætingu í skólum (og á skólatíma). Um það geta velflestir verið sammála.

Hinn punkturinn gengur lengra og vísar til þess sjónarmiðs (Matta) að börn ættu að fá að vera í friði fyrir trúarlegri (og pólitískri) innrætingu yfir höfuð.

Teitur Atlason - 24/02/09 14:04 #

Prestar rugla þessu alltaf saman. Þeir halda því fram að trúleysningjar séu beinlínis á móti því að prestar tali um guðinn við börn undir öllum kringumstæðum.

þetta er rangt.

Trúleysingjum er alveg sama um hvort trúfélög séu með barnastarf á sinni könnu sbr. sunnudagaskóla eða þvíumlíkt. Við setjum hinsvegar varnagla á að prestar komi inn í leik eða grunnskóla til að tala um og við guðinn.

Matti - 24/02/09 14:31 #

Ég geri reyndar athugasemdir við að prestar eigi í nokkrum "samskiptum" við börn.

Ég get ekkert gert í því, foreldrar hafa það val að senda börn sín í trúboð og allt það.

Mér finnst samt alltaf siðlaust að prestar ljúgi að börnum.

Teitur Atlason - 25/02/09 00:13 #

Maður velur sér ekki foreldra. -Þannig er það nú bara.

Matti - 25/02/09 00:15 #

Vissulega. Ég áskil mér samt rétt til að hafa skoðanir á ýmsu þó ég sé þar með ekki að banna fólki nokkuð.

Ég get ekki bannað Bjarna að ljúga að börnum en ég get sagt að mér finnist það siðlaust.

Teitur Atlason - 25/02/09 07:16 #

Jú jú. Það er má alveg hafa skoðanir á öllu. Mér þykja reyndar svona pælingar vera svolítið út í loftið. Útópískar.

Fullkomni heimurinn er stóra þrætueplið í mannkynssögunni.

lqdirector - 21/01/10 16:56 #

Kæri Mattías,

Það eina sem Sr. Bjarni er að reyna að benda á er að þú sért líka að fordæma með því að segja að hann sé að ljúga að börnunum með því að segja þeim sögur úr Biblíunni.

Kannske væri gott að spyrja sjálfan þig um þína eigin trú, ss. trú þína að það sem Bjarni sé að gera er börnunum og fleiri til tjóns. Það eru líka rök fyrir því að trú á Krist er einstaklingum og þjóðfélögum til góðs.

Matti - 21/01/10 17:02 #

Mikið leiðast mér þessar nafnlausu athugasemdir. Ekki hjálpar innihaldið í þessu tilviki.

Það eru líka rök fyrir því að trú á Krist er einstaklingum og þjóðfélögum til góðs.

Nei.