Örvitinn

Framboðsblogg og athugasemdir

Mér finnst ekki traustvekjandi þegar frambjóðendur treysta sér ekki til að hafa opið fyrir athugasemdir á bloggsíðum sínum. Vissulega er hætt við því að gagnrýnendur frambjóðendanna kíki í heimsókn og bauni á þá - en hvað með það? Er þetta lið ekki að bjóða sig fram í opinbert embætti, ætlar það sér ekki að vinna fyrir fólki? Hvernig væri þá að leyfa fólkinu að tjá sig. Ef málstaður frambjóðandans er góður getur hann einfaldlega svarað allri gagnrýni málefnalega.

Ég held þetta gefi ágæta sýn á framhaldið. Stjórnmálamaður sem ekki treystir sér í samræður við almenning á jafnréttisgrundvelli hefur einfaldlega ekki áhuga á þessu sama fólki. Hann vill atkvæði þeirra en svo á fólk að halda kjafti og leyfa honum að vinna við eitthvað mikilvægt.

pólitík
Athugasemdir

Kristín í París - 11/03/09 18:06 #

Æ, er ekki kosningakjaftavaðallinn nógur samt þó fólk þyrfti ekki að plægja sig í gegnum misvitrar athugasemdir líka? Djöfull var ég búin að gleyma því í hita leiksins yfir því að henda burt ríkisstjórninni, hvað kosningabarátta er leiðinlegt tímabil í sögu þjóðar.

Matti - 11/03/09 18:32 #

Kostur athugasemda er að oft spara þær manni vinnuna við að vaða í gegnum kjaftavaðalinn.

Kosningabarátta er óþolandi.

Matti - 12/03/09 00:01 #

Þess má geta að í kvöld eyddi Jón Magnússon út seinni athugasemd minni á bloggi sínu. Breytti svo ritstjórnarstefnu þannig að hér eftir fara athugasemdir ekki á vefinn fyrr en hann hefur samþykkt þær.

Athugasemdin sem hann eyddi var sárasaklaus. Ég spurði hvaða þjónustustarfi kirkjan sinnir og benti á að orðfærið "þjónar kirkjunnar" væri kjánalegt þegar um væri að ræða opinbera starfsmenn.

Halldór E. - 12/03/09 01:51 #

Það er fátt meira pirrandi en rasistar og hægri öfgamenn sem sleikja sér upp við kirkjuna á tillidögum.

GH - 12/03/09 08:16 #

Lítt áberandi frétt á mbl.is en gladdi gamalt hjarta mitt mikið þegar ég rakst á hana:

Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra, ætlar að láta endurskoða ákvæði laga um að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélög móður. Ráðherrann svaraði fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í gær.

Ráðherrann var spurður hvort ekki væri ástæða til að breyta fyrirkomulaginu þannig að forsjáraðilar tækju sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag, þegar og ef þeir kysu svo. Árni benti jafnframt á að Jafnréttisstofa teldi að ekki mætti sjá neina hagsmuni af því fyrir nýfætt barn að það væri sjálfkrafa skráð í trúfélag við fæðingu.

Ráðherrann sagði málið verða skoðað í víðu samhengi og út frá fleiri sjónarmiðum en jafnréttis, s.s. siðferðilegum og uppeldislegum sjónarmiðum.

Matti - 12/03/09 08:41 #

Halldór, ég vil nú ekki ganga svo langt að kalla Jón Magnússon rasista og hægri öfgamann þó hann sé það sennilega. Jón var afar sár yfir því að fólk hefði "mistúlkað" grein hans "Ísland fyrir íslendinga"!

Þess má geta að athugasemd mín hefur nú birst hjá Jóni.

GH. ég hef einmitt verið að fylgjast með þessu máli frá byrjun. Þetta er afar spennandi. Svar dómsmálaráðherra á á þingi var dálítið áhugavert.

Matti - 12/03/09 13:59 #

Ég lagaði slóðina, fyrirsögn fréttarinnar var breytt á mbl og slóðin um leið. Þetta er allt að gera. Ég er samt ennþá dálítið hræddur um að í dóms og kirkjumálaráðuneytinu sé verið að vinna í að finna lausn sem hentar hagsmunum ríkiskirkjunnar.