Örvitinn

Pisa í annað skipti

Fórum aftur á veitingastaðinn Pisa á föstudagskvöld (umfjöllun um fyrstu heimsókn). Staðurinn var nokkuð þétt setinn klukkan hálf átta en við sluppum og fengum borð fyrir fjóra (pabbahelgi). Klukkutíma síðar var fólki vísað frá því ekkert var laust.

Ég var löngu búinn að ákveða að prófa hitt risottoið (Villisveppa Risotto með grænum spergil, breiðbaunum, gorgonsola og valhnetum), Inga María var líka löngu búin að ákveða að fá sér spagettí og kjötbollur. Kolla fékk sér það sama og síðast, spagettí með steiktum skelfisk og Gyða fékk sér Penne með spínati, eggaldin, kúrbít og portobello sveppum. Í forrétt pöntuðum við parmaskinku með melónu og bruchetta með kjúklingalifrar moussee eins og síðast. Fengum okkur ís í forrétt eftirrétt, nema Gyða sem fékk sér kaffi og Tiramisu.

Maturinn var afskaplega góður. Risotto sérlega gott, spergill og valhnetur komu einstaklega skemmtilega út. Ég er samt á því að hitt risottoið (Risotto með andalæri confit, grænum pipar og skarlottulauk) sé betra. Það eina sem ég set út á í þessari heimsókn er að focaccia brauðið var ekki alveg jafn gott og síðast.

Þegar við kvöddum minntist vertinn á hvað stelpurnar (Kolla 9 ára, Inga María 7 ára) voru góðar allt kvöldið. Stelpurnar hafa báðar gaman af því að fara út að borða og eru ekki matvandar, sérstaklega Kolla. Svo er stór hluti af þessu sá að við spjöllum öll saman. Ég held að börnum fari fljótt að leiðast á veitingastað ef þau fá ekki að vera með í samræðum.

veitingahús
Athugasemdir

Jóhannes Proppé - 23/03/09 15:30 #

Hver var meðalprísinn á mann?

Matti - 23/03/09 15:48 #

Öll verð eru á heimasíðunni. Pasta og risotto á tæplega 2000, barnaréttir á 800.-. Nokkuð sanngjarnt að mínu mati.

Eyja - 23/03/09 17:07 #

Meinarðu ekki örugglega eftirrétt frekar en forrétt? Þ.e. ísinn og tiramisuið og það. Annars hef ég ekkert út á það að setja að fólk borði ís í forrétt.

Kannski maður fari að prófa þennan stað.

Matti - 23/03/09 17:11 #

Jú, mikið rétt. Búinn að laga færsluna :-)

Jóhannes Proppé - 23/03/09 17:21 #

Nokkuð kurteisir prísar. Ég ætla samt að vera með smá plögg og benda á að flestir af fínu stöðunum eru með rosaleg tilboð í gangi á þessum rólegu mánuðum, janúar til sumars.

hildigunnur - 23/03/09 18:51 #

Já, rétt, við erum ekki farin að prófa þennan. Hmm.

Klárt að krakkarnir eiga að fá að vera með í svona spjalli, enda er ógurlega skemmtilegt (já og mikilvægt) að tala við krakka. Sína og annarra.