Örvitinn

"Lifewave-plástrarnir eru blekking"

Fyrir viku bloggaði ég um kjánana í Fréttablaðinu, í dag bætir Henrý Birgir fyrir bullið og birtir alvöru grein um Lifewave plástrana.

Þetta hefur ekkert með nálastungur eða hómópatíu að gera. Samkvæmt lýsingum fer ekkert í gegnum húðina nema einhverjar bylgjur sem eru ótilgreindar og óskilgreindar og enginn veit hvað er. Þær eiga að hafa áhrif á frumur líkamans og stjórna þeim. Ef svo er þá er þetta einhver merkilegasta nýjung í læknavísindum síðustu alda hið minnsta. Það er að segja ef það er hægt að stjórna frumum líkamans með einhverjum bylgjum. Þess utan veit enginn hvaða bylgjur þetta eru," sagði Magnús.

Greinin er reyndar bara viðtal við Magnús Jóhannsson en hann segir allt sem segja þarf.

Um leið og ég hrósa Fréttablaðinu og Henrý verð ég að tuða örlítið. Þessar tvær greinar í Fréttablaðinu eru nefnilega dálítið dæmigerðar fyrir fjölmiðla á Íslandi. Í stað þess að skoða fullyrðingar viðmælenda eru birtar bullfréttir og svo er beðið eftir viðbrögðum. Þannig er óskaplega algengt að fréttir séu viðbrögð við fyrri fréttum, gagnrýnin komi fram síðar í stað þess að vera hluti af upphaflegu umfjölluninni.

Af hverju skoða menn málin ekki strax í upphafi, það á ekki að þurfa neinn vísindamann úti í bæ til að átta sig á að Lifewave er svikamylla.

efahyggja fjölmiðlar
Athugasemdir

Haukur - 21/05/09 12:21 #

Eini gallinn við þessa grein er að hún lætur það hljóma eins og hómopatía sé viðurkennd aðferð sem virkar.

Helgi - 21/05/09 14:30 #

En finnst þér þá í lagi að það komi fram ósannindi í fréttinni í því sem Magnús Jóhannsson?

Það eru áhugaverðir punktar þar sem hann er að fullyrða hluti sem eru með öllu tóm þvæla. Útskýring hans á nálastunguaðferðum er alröng og í besta falli hlægileg. Svo heldur hann áfram með að gera lítið úr David Schmidt stofnanda Lifewave með því að gefa í skyn að hann sé einhver huldumaður sem enginn veit neitt um, hann hefði átt að prófa að "googla" nafnið því þar er hægt að nálgast hvaða menntun og reynslu sá maður hefur. Svo til að toppa þetta þá fullyrðir hann að það sé einn læknir á snærum Lifewave, enn og aftur alrangt.

Burt séð frá því hvaða skoðun menn hafa á Lifewave plástrunum þá finnst mér ótrúlegt að sjá "sérfræðing" á borð við Magnús Jóhannsson komast upp með það í fjölmiðlum að setja fram fullyrðingar sem eiga sér hvergi stoð í raunveruleikanum og eru hrein þvæla.

Er Fréttablaðið að skíta upp á bak aftur?

Helgi - 21/05/09 14:30 #

...í því sem Magnús Jóhannsson segir átti þetta að vera...

Matti - 21/05/09 19:12 #

Sæll Helgi.

Ég mæli með umræðunni við þessa færslu á Vantrú.

hann hefði átt að prófa að "googla" nafnið (David Schmidt) því þar er hægt að nálgast hvaða menntun og reynslu sá maður hefur

Í umræðunni á Vantrú kemur m.a. fram að:

Maðurinn að baki Lifewave, David Schmidt, kallar sig doktor án þess að hafa nokkra doktorsgráðu að því næst verður komist. Schmidt hefur neitað að gefa nokkuð upp um menntun sína eða reynslu af rannsóknum eða fræðastörfum.

Það er nefnilega hægt að skrifa ýmislegt á netið, eins og t.d. það að maður hafi doktorsgráðu, en svo þegar fólk skoðar málið nánar reynist allt í kringum þetta Lifewave dótarí vera bull enda Lifewave bara plat.

Helgi - 21/05/09 21:12 #

Sæll Matti Nú er ég búinn að renna yfir þessa umræðu en get ekki séð hvernig umræðan um þennan David Schmidt staðfesti að hann sé ekki með doktorsgráðu. Það telst varla sönnun ef einhver varpar því fram í umræðunni á vantrú eða hvað?

Ég bíð allavega spenntur eftir svörum frá Lifewave, þeir hljóta að stinga upp í Magnús "sérfræðing" ef þeir hafa innistæðu til þess. Það verður áhugavert að sjá hvað gerist.

Lárus Viðar - 21/05/09 21:20 #

Útskýring hans á nálastunguaðferðum er alröng og í besta falli hlægileg.

Að kvarta yfir ónákvæmum útskýringum á nálastungum er fyrir mér eins og að rausa yfir óvönduðum fréttaflutningi á Baggalúti. Nálastungur eru þvættingur frá A til Ö, sama hversu vel þær eru skýrðar út.

Helgi - 21/05/09 22:48 #

Það sem ég er að benda á er að hann þykist vita hvernig nálastungum er háttað og fari fram en fer með rangt mál. Það er kaldhæðnin í þessu. Hann gefur sig út fyrir í viðtalinu að vita nákvæmlega hvernig nálastungumeðferðum er háttað er skýtur sig svo í fótinn með því að fara með rangt mál.

Hvort menn eru með eða á móti nálastungum almennt þá er lágmark að vita hvernig það fer fram.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 21/05/09 22:59 #

Aðeins meira um "nitpick":

Hómópatía gengur út á að gefa efni í litlum skömmtum. Það er einhvers konar inntaka.

Ætti að vera: ...gefa efni í engum skömmtum.

Matti - 21/05/09 23:11 #

Það sem ég er að benda á er að hann þykist vita hvernig nálastungum er háttað og fari fram en fer með rangt mál

Ha?

Um nálastungur segir Magnús:

„Stundum setja þeir þetta upp eins og þetta sé einhvers konar form af nálastungum. Þeir sem vita eitthvað um þau málefni, og ég geri það meðal annars, vita að þessir plástrar hafa ekkert með það að gera. Til að nálastunguaðferðin virki þarf ertingu eða nálastungu.

Þarf ekki ertingu eða nálastungu til að nálastunguaðferðin "virki"? Hvernig fer hann með rangt mál?

Þess má geta að ég tel bæði nálastungur og smáskammtalækningar algjört húmbúkk.

Kristinn - 21/05/09 23:20 #

OT

Miðað við hvað bloggið þitt er vinsælt, Matti, ef marka má Gáttina, þá sýnist mér áhuginn fyrir sjónarmiðum yfirlýstra trúleysingja sé mun meiri en félagatala Vantrúar eða jafnvel Siðmenntar gefur til kynna.

En kannski ertu bara svona geðþekkur rjómapungur ;)

mbk,

Matti - 21/05/09 23:23 #

Ég hef óskaplega gaman að því hversu margir hafa sömu skoðun og við vantrúarsinnar á ýmsum málum. Það er t.d. áberandi í athugasemdum á Eyjunni og sumum moggabloggum. Fullt af trúleysingjum og trúfrelsissinnum (sem margir eru trúaðir) sem skrifa eins og alvöru vantrúartalibanar (umburðarlyndisfasistar) :-)

Annars er nú málið að blogga nógu andskoti oft til að skora hátt á blogggáttinni ;-)

Helgi - 21/05/09 23:37 #

Þykir leitt að hryggja þig Matti minn en hann er ekki að lýsa þessu rétt :)

p.s. Ég er mjög sammála ykkur vantrúarmönnum þegar kemur að trúarbrögðum! Ótrúlegt hvað mikið af fólki er ennþá skráð í Þjóðkirkjuna þó það hafi í raun enga samleið með henni...

Daníel - 22/05/09 08:40 #

Hafa menn ekki trúa á nálarstungum? Ég hélt að þær virkuðu, án gríns.

hildigunnur - 22/05/09 09:18 #

nei, var ekki einmitt gert double blind test á nálastungum yfir einhvern heillangan tíma um daginn - sýndi að það skipti ekki nokkru lifandis máli hvort væri stungið random um líkamann eða á hinum alþekktu 'orkupunktum', batinn varð svipaður.

Ég er reyndar hvorki skráð í Vantrú né Siðmennt (né reyndar neina kirkjudeild) en er þó langoftast mjög sammála sjónarmiðum sem hér koma fram, og hjá Siðmenntarfólki.

Haukur - 22/05/09 09:26 #

Tja, virkar og virkar ekki. Upphaflega hugmyndakerfið á bak við nálastungur er dulspekilegs eðlis og, eins og þú getur ímyndað þér, ekki hátt skrifað hjá Vantrúarmönnum. Hins vegar hafa í seinni tíð einnig verið gerðar vísindalegar rannsóknir á virkni nálastunga og sumar þeirra hafa leitt í ljós virkni umfram hin svokölluðu lyfleysuhrif.

Ef þú trúir Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni þá eru nálastungur nothæf meðferð til að koma af stað fæðingu, til að leiðrétta ranga staðsetningu á fóstri, gegn morgunógleði, höfuðverk og ýmsum sársauka ásamt öðru. Mjög margar íslenskar ljósmæður beita nálastungum enda eru þær iðulega mjög áhugasamar um að beita sem minnstum inngripum - nálastungum (sem þjálfaður heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir) fylgir lítil sem engin áhætta og þær hafa litlar eða engar aukaverkanir.

Matti - 22/05/09 09:34 #

Viðhorf mitt er í algjöru samræmi við vantrúargreinina :-)

"Fræðin" á bak við nálarstungur eru rugl, vel getur verið að þær hafi einhverja virkni varðandi sársauka.

Íslenskar ljósmæður hafa boðið upp á ýmislegt sem ekki stenst rýni en það er önnur umræða ;-)

Helgi Briem - 22/05/09 09:42 #

Nei Haukur, nýjustu rannsóknir hafa einmitt ekki bent til þess að nálarstungur hafi nein áhrif umfram lyfleysuáhrifin.

Eins og við er að búast því aðferðin er hrein endaleysa frá upphafi og byggð á göldrum.

Lyfleysuáhrif eru reyndar merkilegt viðfangsefni og etv mætti rannsaka þau meir.

Haukur - 22/05/09 09:55 #

Ertu með einhverja nýrri yfirlitsrannsókn, Helgi, en þessa frá WHO? Eða áttu við, eins og Hildigunnur talar um, að það skipti ekki máli hvort nálunum er stungið í samræmi við upphaflegu dulspekikerfin eða annars staðar? Sú niðurstaða finnst mér trúleg en hún væri ekki jafngild því að lyfleysuáhrifin ein væru að verki.

Annars hef ég aldrei prófað nálastungur, þekki engan sem stundar þær og þær eru ekkert sérstakt áhugamál hjá mér.

Matti - 22/05/09 10:03 #

Skeptískur vísindabloggari bloggar um nálastungurannsókn. Lykilatriðið:

Then I actually started paying attention to the scientific literature regarding acupuncture, including literature like this and this. The more I read, the more I realized something. I realized that there was far less to acupuncture than I had previously thought, and, even with my previous openness to it, I hadn't thought all that much about it anyway. What I had thought about it was that it might have a very mild beneficial effect. What I know now is that acupuncture is almost certainly no more than an elaborate placebo. What I know now is that virtually every study of acupuncture claiming to show a positive effect has serious methodological flaws and that the better-designed the study the less likely there is to be an effect. What I now know is that any study without a true "sham" acupuncture arm is worthless, and that well-designed studies show "sham" acupuncture to be no different than "real" acupuncture; i.e., no different than placebo.

Haukur - 22/05/09 10:52 #

well-designed studies show "sham" acupuncture to be no different than "real" acupuncture; i.e., no different than placebo.

Ég skil ekki hvernig hann dregur þessa ályktun. Þótt það skipti ekki máli hvar nálarnar eru eða hvort þeim er stungið djúpt eða bara í húðina og þær síðan strax dregnar út aftur er ekki þar með sagt að nálarnar skipti ekki máli. Vandamálið er að það er mjög erfitt að hanna tvíblinda rannsókn með lyfleysuhóp - það er eiginlega engin leið að leyna því fyrir sjúklingnum hvort það er verið að pota í hann með nálum eða ekki.

Lyfleysuáhrifin eru mjög umdeild, eins og við vitum, og mismunandi skoðanir á lofti. Jafnvel bara undir tenglinum sem Robert gefur að ofan má finna greinar sem fullyrða að þau séu mjög öflug og aðrar sem fullyrða að þau geri nánast ekki neitt.

Haukur - 22/05/09 15:03 #

En svo að þessir punktar mínir um nálastungur séu ekki misskildir þá er best að taka fram að ég hef enga trú á þessum Lifewave-plástrum. Það virðast ekki neinar alvöru-rannsóknir á þeim hafa birst og útskýringarnar á því hvernig þeir eiga að virka eru í anda gervivísinda. Þar er notaður einhver kokteill af orðum úr orðaforða vísindanna ("tíðni", "nanótækni" o.s.frv.) á hátt sem er til þess fallinn að blekkja venjulegt fólk (sem hefur lítið vísindalæsi) til að halda að plásturinn byggist á vísindalegri undirstöðu.

Mér finnst yfirleitt meira ergjandi þegar reynt er að selja fólki eitthvað sem byggist á gervivísindum en eitthvað sem byggist á dulspeki. Hinn venjulegi maður skilur muninn á dulspeki á vísindum en getur átt erfitt með að átta sig á muninum á gervivísindum og vísindum.

Daníel - 23/05/09 08:23 #

Ég var búsettur í suður Ameríku í nokkur ár, og þar er mjög algengt að beita nálarstungum gegn ristilkrampa, án nokkura trúarbragða né hókus pókus í kringum það, eingöngu af læknum á sjúkrahúsum, og aðalllega við ristilkrampa sem er afleiðing af mikilli neyslu af óhreinu vatni sem er þó ekki nógu óhreint til að valda "alvöru" sýkingum og veikindum.

Þar var það viðurkennd staðreynd að þetta virkaði, og þótti ekki merkilegt. Þetta er stundað á sjúkrahúsum t.d.

Ég þekki marga sem að hafa farið í þetta, og það virtust allir læknast.

Ég hélt í alvöru að þau væru ekki að ljúga að mér....

Haukur - 23/05/09 10:23 #

Tja, þessi WHO-skýrsla sem ég tengdi á setur ristilkrampa (er það ekki það sama og "irritable colon syndrome"?) í flokkinn "þess virði að reyna nálastungur gegn því að hefðbundin meðferð er erfið". Þessi skýrsla er auðvitað ekkert hafin yfir gagnrýni en hlýtur samt að endurspegla þokkalega "mainstream" skoðanir.

En jafnvel þótt gagnrýnendur nálastungna hafi rétt fyrir sér og þær hafi engin áhrif umfram lyfleysu (og það getur vel verið þótt mér þyki ekki liggja fyrir nægileg gögn til að fullyrða það) þá myndi það samt alls ekki merkja að fólk sem segði að nálastungur virkuðu væri að ljúga.

Matti - 24/05/09 19:01 #

þá myndi það samt alls ekki merkja að fólk sem segði að nálastungur virkuðu væri að ljúga.

Nánari umfjöllun um það er í pistlinum um gagnsemisrökvilluna.