Örvitinn

Bílaumboð veldur ógleði

Ég sótti bílinn minn í Öskju áðan. Sendi hann þar í reglulega skoðun, bað um að skipt yrði um loftnet sem hefur virkað illa og samþykkti svo bremsuviðgerðir þegar þeir hringdu og sögðu að skipta þyrfti um klossa að framan og aftan.

Þegar ég sá reikninginn varð mér óglatt og er ekki enn búinn að jafna mig.

Hef áður hrósað þeim en hef nú ákveðið að fara aldrei til þeirra aftur. Hvorki með bíl í viðhald né til að kaupa mér nýjan.

Þegar ég bað um nýtt loftnet datt mér aldrei í hug að það myndi kosta mig um fimmtíu þúsund krónur (30.713 + 8.995 + vsk =) 49.436. Þegar hringt er í mig útaf bremsuviðgerð að framan datt mér aldrei í hug að verð sem gefið væri upp væri fyrir annan bremsuklossa án virðisaukaskatts og vinnu. Bremsuklossar að framan og aftan auk vinnu kostuðu (14.740 + 13.699 + 7.196 + 6.409 + vsk =) 52.357.

Reikningurinn var hundrað og sextíu þúsund krónur. Lækkaði um tíu þúsund vegna þess að ég hvítnaði í framan þegar ég sá upphæðina. Bjóst við reikning upp á 60-80þ krónur.

Svo límdu þeir listann að framan ekki einu sinni almennilega en bílbeltið er helvíti gott.

Það fáránlega við þetta er að bróðir minn er bifvélavirki og hefði séð um að skipta um bremsur fyrir mig. Mér datt bara ekki í hug, vegna fyrri reynslu, að Askja myndi taka mig svona gjörsamlega í görnina. Auðvitað átti ég að vita betur, ég hefði átt að spyrja um allan kostnað fyrirfram, þar með talið varðandi loftnetið. Ég var bara svo fjandi saklaus.

Takk fyrir viðskiptin og bless.

ps. Ég vann á verkstæðismóttöku Ventils (Brimborgar) eitt sumar og hef töluverða samúð með þeim sem því starfi sinna.

kvabb
Athugasemdir

Lárus Viðar - 02/07/09 17:23 #

Loftnet fyrir 50 þús kall! Þetta er meira en sæmileg mánaðarlaun hér í Mexíkó. Hvernig er hægt að rukka svona fyrir eina stöng?

Séra Jón - 02/07/09 17:33 #

Óheimilt er að gefa upp verð á vöru eða þjónustu án virðisauka.

Matti - 02/07/09 17:37 #

Hvernig er hægt að rukka svona fyrir eina stöng?

Vel má vera að það sé klukkutíma vinna að skipta um loftnet í Kia Sorento. Ég hef bara ekki hugmynd um það.

Aftur á móti skil ég ekki hvernig stöngin kostar 38.000 með vsk. Fatta ekki hvernig menn hafa hugmyndaflug í slíka verðlagningu. Hefði ég vitað að hún kostaði svo mikið þá hefði ég athugað á partasölu.

Mér finnst reyndar bara lélegt að loftnetið skyldi eyðileggjast á þremur árum - en það er önnur saga.

Víðir Ragnarsson - 02/07/09 19:51 #

Nú, þegar nýir bílar seljast ekki virðast umboðin reyna að ná inn veltunni með geðveiku verðlagi á varahlutum. Það var einmitt umfjöllun í gær eða fyrradag á Bylgjunni um mann sem ætlaði að kaupa spíss fyrir rúðupiss sem er á framstuðara á Mazda. Hann hélt að afgreiðslumaðurinn í umboðinu væri að grínast þegar þetta litla plaststykki átti að kosta 50 þúsund!

Sjálfur geri ég alltaf ítarlegar verðkannanir og hringi í alla sem mögulega selja samskonar hluti og ég þarf í bílinn. Ég hef jafnvel leitað út fyrir landsteinana. Því miður eru samt svo fáránlegar innflutningsreglur, því ofan á verðið og flutningskostnaðinn leggst tollur og/eða vörugjald auk tollmeðferðargjaldsgjalds. Nokkuð sem gerir varahlutakaup að utan oft á tíðum þannig að það varla borgar sig. Eins og það sé ekki nóg að vera í fjötrum þess hvað flutningskostnaður er hár til landsins...

Þetta er orðið ansi blóðugt, sérstaklega ef maður er á bíl sem er ekki algengur á partasölunum...

hildigunnur - 02/07/09 21:39 #

ááái!

Vorum einmitt að sækja okkar ræfil í bremsuviðgerð áðan, sú kostaði rúm 60k, hann Siggi viðgerðameistari sleppti því að skipta um einn bremsudisk þar sem hann fékkst bara á okurverði í Stillingu (20k í stað rúmlega 4k í EnnEinum)

Já, viðgerðin var semsagt 1 diskur, bremsudælur báðum megin að framan og bremsuklossar. 60 þúsund.

Mæli með Kvikkþjónustunni semsagt :P

Sirrý - 02/07/09 22:29 #

Vá þú varst rændum um hábjartan dag ekki hægt að segja annað. Hvað varstu að láta gera meira eða kostaði bremsudótið 120 Þ

Gunnar J Briem - 03/07/09 00:22 #

Það var keyrt aftan á bílinn minn um daginn - bara smá nudd sem mér fannst ekki taka því að gera mál úr. Ég fór með bílinn í tékk í umboðinu stuttu síðar og bað þá að kíkja á þetta í leiðinni og sjá hvort ástæða væri til að gera eitthvað í þessu. Þeir gerðu mér tilboð um að laga þetta fyrir 66737 (með vsk).

Daginn eftir keypti ég bón í N1 og bónaði þetta burt. Það sér ekkert á bílnum.

Matti - 03/07/09 11:03 #

Hvað varstu að láta gera meira eða kostaði bremsudótið 120 Þ

Þetta var "stór þjónustuskoðun" (vinnan kostar um 20þ + vsk) sem ég hef farið með bílinn í á hverju ári. Geri það ekki oftar.

Inni í þessu er smurning og efni.

Bragi Skaftason - 03/07/09 11:36 #

Matti, ég fer núna með bílinn minn í Bilson í Ármúlanum. Stóra þjónustuskoðunin á bílnum mínum er stærri en í flestum bílum þar sem ekki á að smyrja bílinn nema á 30.000 km fresti. Þeir buðu mér að greiða undir 40.000 krónur fyrir þetta á meðan umboðið Hekla bauð 65-70 þúsund. Djöfulsins rugl. Síðast kom í ljós að eitthvað var í ólagi með vatnskassa og buðu þeir mér upp á marga valkosti í stöðunni. Sýndu mér sem sagt verðin á nýjum kassa, nýjum stút og svo viðgerð á þeim sem var fyrir.

S.s. frábær þjónusta og góð verð ekki það að ég hafi neitt yfir þjónustunni hjá Heklu að kvarta. Verðlagningin er bara í kúk.

Rebekka - 03/07/09 22:21 #

Askja hefur lengi okrað, og smurt vel ofan á verðið. Tengdapabbi á Benz sem hefur þurft að láta gera við nokkrum sinnum og verðmunurinn á varahlutunum hjá Öskju og hjá Ræsi heitnum var allt að þrefaldur. Þetta voru nákvæmlega sömu hlutirnir, sama tegund og allt.