Örvitinn

Ökuníðingurinn skelfilegi nappaður aftur

HraunfossarÚbbs, ég gerði það aftur, ég get ekki hætt að brjóta landslög.

Í þetta skipti ók ég alls ekki of hratt heldur var ég a.m.k. 5km undir hámarkshraða þegar ég mætti lögreglunni í Borgarnesi rétt eftir miðnætti, var með bílinn á cruise control og hlustaði á Belle & Sebastian. Var að koma frá Hraunfossum þar sem ég hafði dundað mér við að taka myndir í skjóli nætur. Um leið og ég mætti lögreglubílnum voru blikkljósin sett á. Fjandakornið, ég var eineygður og þeir höfðu séð það þegar ég tók háu ljósin niður þegar við mættumst. Uppgötvaði skömmu áður að peran var farin í framljósinu hægra megin.

- "Get ég fengið að sjá ökuskírteini" spurði löggukarlinn ungi.

Ég hélt það nú en greip í tómt þegar ég leitaði í úlpunni. Hvar var veskið? Að lokum, eftir að hafa hringt í Gyðu, mundi ég að ég rétti henni veskið og ipodinn þegar ég hengdi úlpuna upp í fatahengi á veitingastað fyrr um kvöldið. Hvoru tveggja var öruggu skjóli í töskunni hennar í bústaðnum.

Jæja, inn í lögreglubíl fór ég og þeir fengu upplýsingar - nafn, kennitölu, heimilisfang, typpastærð og svo framvegis. Staðfestu að ég væri sá sem ég sagðist vera, eigandi bílsins, bláedrú í ljósmyndaferð. Spurðu hvort ég hefði komist í kast við lögin. Ég kannaðist ekki við það en mundi svo eftir síðasta stórglæp. Glæpurinn var rifjaður upp þegar mér var flett upp á stöð., "tekinn fyrir of hraðan akstur". Ég þakka fyrir að hafa ekki verið gasaður á staðnum.

Það breytir því ekki að ég mun væntanlega fá sekt fyrir þann stórglæp að vera ekki með veskið á mér. Við lifum á tækniöld, þeir staðfestu hver ég er, að ég er með bílpróf, bláedrú á löglegum hraða. Samt fæ ég sekt fyrir að vera ekki með einhver andskotans pappírsskilríki á mér! Til hvers? Hver var glæpurinn? Þegar ég fæ gíróseðil fyrir sektinni er það endanleg staðfesting á því að kerfið er alveg með það á hreinu hver ég er. Ég fullyrði að í a.m.k. 99 skipti af 100 er ökuskírteinið á sínum stað.

Mér leiðist svona ósanngirni og er satt að segja helvíti pirraður. Látið mig í friði ef ég er ekki að gera neinum neitt.

kvabb
Athugasemdir

GH - 04/04/10 11:24 #

Það verður áhugavert að vita hversu há sektin fyrir svona "stórglæp" verður. Skil vel að þú sért pirraður.

Davíð - 04/04/10 12:00 #

Þetta er asnalegt og pirrandi. Maður skilur ef að þú ert að keyra of hratt eða búinn að brjóta einhver önnur lög, og það vanti líka ökuskírteinið, en í þessu tilfelli er þetta tittlingaskítur.

Lögin segja að maður eigi að vera með skírteinið, en ég er aldrei með mitt.

Henrý Þór - 04/04/10 13:39 #

Ótrúlegt að þeir hafi ekki sett þig í varðhald.

María - 04/04/10 13:51 #

Svona er það með síbrotamenn, taktu þessu bara eins og maður og hættu að brjóta lögin. Það var betra hljóðið í þér þegar þú sleiktir upp sekt fyrir að koma einum degi of seint í skoðun, eins og þú segir sjálfur: "Þú getur engum um kennt nema sjálfum þér".

Egill Óskarss - 04/04/10 14:36 #

Árið 2008 var ég að keyra úr bústað rétt hjá Vaglaskógi yfir í Stóru-Tjarnir þar sem ég gisti í veiðiferð. Klukkan var rétt yfir miðnætti á föstudegi. Ég var ekki búinn að keyra langt, var s.s. ennþá í rauninni að keyra meðfram skóginum, þegar ég sá að löggan var að stoppa fólk til að láta það blása (sem var kannski alveg eðlilegt, mikið af liði í tjöldum í skóginum og svona). Ég hins vegar hafði gleymt veskinu með ökuskírteininu upp á herbergi á Stóru-Tjörnum.

Það var ekki meira vesen en það að eftir að ég hefði verið látinn blása (í mínum eigin bíl, lögregluþjónninn fyrir utan) sagði löggan að hann trúði því alveg að ég væri ég sjálfur og að ég væri með ökuleyfi. Bað mig um að keyra varlega og vel að lifa.

Enda algjör óþarfi og rugl að vera að hanka fólk á þessu ef það er að öðru leyti í lagi.

Matti - 04/04/10 17:26 #

María, ertu að grínast? Þegar ég kom of seint með bílinn í endurskoðun gat ég engum kennt um nema sjálfum mér - það voru mín mistök að vera of seint á ferðinni.

Í þessu tilviki ber ég enga sök þar sem ég gerði ekkert rangt. Eins og saga Egils sýnir er algjörlega tilviljanakennt hvort lögreglan ákveður að refsa mönnum fyrir að vera með ökuskírteini eða ekki. Það hefði ég reyndar haldið að væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár. Spurning hvort ég heyri eitthvað í sýslumanni þegar mér berst sektarmiði.

Davíð - 05/04/10 10:05 #

Sorry Matti, jú, auðvitað gerðirðu eitthvað rangt, það er í lögum að maður eigi að vera með ökuskírteinið á sér ef maður er að keyra.

HINSVEGAR, lögreglumönnum er í sjálfvald sett hvort að þeir sekti fyrir þetta, þar sem að þetta er ekki glæpur sem hefur áhrif á aðra, eins og t.d. að stoppa ekki á rauðu ljósi, keyra á gangstétt og svo framvegis.

Þetta er aulalegt, og sýnir bara að lögreglumaðurinn var líklega að láta hluti í sínu einkalífi bitna á þér. En hann má þetta alveg, þú fórst ekki að lögum. Sorry karlinn minn.....

Matti - 05/04/10 12:01 #

Ég veit ég braut lög en ég set ekki samansemmerki milli þess að brjóta lög og þess að gera eitthvað rangt. Ég gerði ekkert rangt þó ég hafi í þessu eina tilviki gleymt veskinu - enda vitum við að lögreglan aðvarar fólk yfirleitt bara fyrir þennan "glæp".

Davíð - 05/04/10 18:38 #

GLÆPAMAÐUR!!!!

Matti - 05/04/10 18:40 #

Ég er náttúrulega afar duglegur að brjóta lög, sérstaklega lög sem enn eru í gildi um gvuðlast.

Tinna G. Gígja - 06/04/10 14:27 #

Færðu sekt fyrir að vera ekki með skírteini, en ekkert sagt um ljósin?

Matti - 06/04/10 14:28 #

"Bara benda þér á það" sagði gaurinn þegar hann nefndi að bílinn væri eineygður.