Örvitinn

Kafka lendir í árekstri (og tryggingafélagi)

Fyrir tveim vikum lenti ég í árekstri, ekið var á mig þar sem ég ók yfir gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Vitni voru að árekstrinum og ökumaður hins bílsins játaði strax fyrir mér að hafa ekið yfir á rauðu. Hann virtist vera í annarlegu ástandi þannig að ég hringdi á lögreglu sem sá um að gera skýrslu.

Ég sótti bílaleigubíl strax eftir áreksturinn en bílinn minn var dreginn í burtu af vettvangi. Hef ekið um á bílaleigu bíl síðustu tvær vikur og aðeins verið að stressa mig á því hvort tryggingafélag borgi ekki alveg örugglega.

Fyrir viku hringdi ég í VÍS, bíllinn sem ók á mig er hjá þeim, inn bíll var í kaskó hjá Sjóvá. Þá fékk ég þær upplýsingar að þeir borguðu bílaleigubíl meðan bílinn væri í viðgerð, svo lengi sem viðgerðartími væri "eðlilegur". Hvað svo sem það þýðir. Fyrir viku reyndi ég einnig að fá afrit af skýrslu lögreglunnar sem búið var að senda til tryggingafélaga en fékk ekki. Sjóvá benti á að tala við lögregluna en þar var mér sagt að hringja aftur eftir helgi.

Í morgun ákvað ég að hringja aftur til að tékka á því hvort ég væri ekki örugglega enn með bílaleigubíl á kostnað VÍS. Fékk samtal við þjónustufulltrúa sem sagði mér að þeir litu á þetta sem 50/50 mál! Ég fékk næstum því áfall, grínlaust. Hringdi í Sjóvá og ræddi þar við menn í tjónadeild, hafði svo samband við lögregluna. Það var lögreglan í Kópavogi sem mætti á vettvang og gerði skýrslu. Ég hef ekki rétt á að fá afrit af skýrslunni! Lögreglumaðurinn sem er að rannsaka málið er auk þess í fríi til 6. nóvember.

Ég kíkti í heimsókn í VÍS. Fékk þar að sjá að í skýrslunni sem send var til tryggingafélaganna er tekið fram að vitni hafi verið að árekstrinum en ekki er búið að ræða við vitnið, kennitala og símanúmer eru í skýrslunni en ekki vitnisburður. Einnig er tekið fram að ég segist hafa farið yfir á grænu en hinn segist hafa farið yfir á gulu. VÍS túlkar það því þannig að annar hvor sé að segja ósatt og þetta sé því 50/50 mál. Engu máli skiptir þó hinn ökumaður sé grunaður um að aka undir áhrifum lyfja, hafi verið að koma úr meðferð og hafi sennilega skrautlegan feril að baki. Orð gegn orði! Jafnvel þó vitni hafi verið að árekstrinum. VÍS lítur ekki á það sem sitt hlutverk að hringja eitt símtal í það vitni. Einnig er ljóst að ef hinn bíllinn hefði farið yfir á gulu hefði ég þurft að fara yfir á eldrauðu þar sem áreksturinn átti sér stað á fjær akrein, bíllinn kom frá hægri, lenti á hægri hlið míns bíls og Breiðholtsbraut er tvöföld.

Eftir heimsókn í VÍS kíkti ég í Sjóvá og ræddi við gamla ökukennarann minn. Hann ætlar í málið, mun hafa samband við lögregluna og fara fram á að þeir ræði við vitnið.

Ef ég hefði fengið afrit af skýrslunni í síðustu viku, á sama tíma og tryggingafélögin, hefði ég getað farið í málið. Ég á að sjálfsögðu ekkert að þurfa að fara í málið. Það er óásættanlegt að lögreglan í Kópavogi sendi frá sér skýrslu þar sem hægt er að túlka einhvern vafa í málinu þegar vitni varð að árekstrinum og glæfraakstri hins ökumanns áður en árekstur varð. Einnig var vitni að því þegar ökumaðurinn sagði mér að hann hefði ekið yfir á rauðu. Það að framburður hans breytist í lögreglubíl án þess að mér sé sagt frá því er líka skandall. Einnig kemur ekki fram í skýrslu að opin bjórdós var fyrir framan sæti bílstjóra eftir áreksturinn. Starfsmaður Króks getur vitnað um það og ég tók mynd.

Það að ég hafi ekki nokkurn rétt á að sjá þessa skýrslu er að mínu mati algjörlega út í hött.

Ég þarf að skila bílaleigubílnum á eftir svo ekki sé hætta á að ég fái bakreikning upp á tugi þúsunda.

ps. Þess má geta að þegar ég kom til vinnu beið mín póstur frá Gallup þar sem ég var beðinn að svara skoðanakönnun. Meðal annars er spurt um tryggingafélög. N.b. ég held að Sjóvá sé að gera góða hluti í málinu og að vinna fyrir mig.

dagbók
Athugasemdir

Sirrý - 21/10/10 13:31 #

Ef þetta endar sem 50 50 sem ég vona nú að gerst ekki ert þú þá ekki kaskótryggður ? og er ekki inni í því bílaleigubíll ? En hvaða svakalega tíma tekur að gera við bílinn ?

Matti - 21/10/10 13:33 #

Kaskó borgar bara bílaleigubíl í fimm daga held ég.

Tja, ég lenti í tjóni á föstudegi. Bíllinn var dreginn á athafnasvæði Króks þar sem hann var yfir helgina. Á mánudegi skoðuðu menn frá tryggingafélögum bílinn. Á þriðjudegi var farið með hann á réttingaverkstæði sem hefur þá væntanlega tekið bílinn strax inn og pantað varahluti. Það er alltaf einhver bið eftir varahlutum. Svo kom önnur helgi. Þannig að ég veit ekki hvort þetta er óeðlilega mikill tími í viðgerð.

Elías Halldór - 21/10/10 15:58 #

Bíddu, var ekki tekin blóðprufa af honum?

Matti - 21/10/10 22:25 #

Jú en niðurstöður eru ekki komnar. Málið enn í rannsókn og lögreglumaðurinn sem á að vera að rannsaka það enn í fríi.

Aftur á móti vildi gaurinn í VÍS meina að þær niðurstöður skiptu engu máli! Ég væri enn í órétti þó gaurinn hefði verið á einhverju, ef ég hefði farið á rauðu.

Ekki virtist skipta máli hvort trúverðugleiki minni væri ekki 784% meiri en hans í því tilviki.

En vonandi drullast þessir menn til að hafa samband við hann Steve sem sá þetta allt saman. Ég mun böggast í lögreglunni þar til þeir gera það.

Matti - 22/10/10 14:47 #

Ég man líka að þegar lögreglumaður kom til mín, eftir að hafa rætt við hinn ökumanninn í lögreglubílinum, sagði hann mér að ég hefði réttarstöðu grunaðs, sem mér þótti afar skrítið en gerði ráð fyrir að væri bara hluti af ferlinu. En svo sagði hann mér að hinn ökumaðurinn hefði játað að fara yfir á rauðu. Bróðir minn varð vitni að þessu.

En svo skrifar sami maður skýrslu þar sem hinn ökumaður segist hafa farið yfir á gulu!

Hvað er eiginlega í gangi hjá lögreglunni?