Örvitinn

Trúboð er ekki ímyndun

Davíð Þór í Fréttablaðinu í dag.

Þar er önnur fylkingin skipuð andlegum öreigum og gott ef ekki siðblindum fjendum guðrækni og góðra siða líka, ef marka má hina sem virðist, samkvæmt þeirri fyrrnefndu, vera skipuð talsmönnum trúboðs í skólum sem vilja að valdagráðug ríkiskirkja fái óáreitt að heilaþvo ungviði borgarinnar í óþökk foreldra þess.

Er það einhver ímyndun að trúboð á vegum ríkiskirkjunnar hefur farið fram í leik- og grunnskólum landsins? Svarið er nei, þetta hefur farið fram og aukist mjög síðustu ár. Myndirnar tala fyrir sínu og auk þess gæti ég vísað á fjölmörg skrif ríkiskirkjufólks sem sanna að ríkiskirkja vil fá að heilaþvo ungviði borgarinnar (afsakið, ekki heilaþvo, heldur segja þeim sannleikann um Gvuð og Jesús). Það segir sitt þegar ein afsökun ríkiskirkjumanna er sú að það sé ekki trúboð að "fræða" skírð börn um Gvuð.

Það er nóg að skoða viðbrögðin við tillögum Mannréttindaráðs. Þau sýna að augljóslega er eitthvað í gangi sem margir vilja ekki að sé stöðvað. Mótmæli foreldra sem ekki sætta sig við trúbrögð sýna líka að kirkjan vill áfram fá að stunda slíka iðju í óþökk foreldra. "Minnihlutinn á ekki að fá að kúga meirihlutann" er frasinn sem menn nota.

Frasinn "sjaldan veldur einn þá tveir deila" á ósköp einfaldlega ekki við í þessu máli. Það er rangt að stunda trúboð í skólum og skólastarf á að vera óháð lífsskoðunarfélögum. Um þetta á ósköp einfaldlega að vera sátt - en þeir sem rjúfa þessa sátt eru trúmennirnir sem hrópa og hafa hátt um tillögur Mannréttindaráðs.

Um leið og tekið verður tillit til sjónarmiða þeirra höfum við öll tapað.

kristni
Athugasemdir

Óli Gneisti - 30/10/10 12:02 #

Það er til týpa sem vill helst alltaf geta staðsett sig milli tveggja öfga og reynir því ætíð að stilla öllu upp í því samhengi. Vandamálið við slíkt er að heimurinn virkar ekki þannig.

Kristinn - 30/10/10 14:30 #

Davíð á nú við að ímyndunin sé þessi heildarmynd, þeas "valdagráðug ríkiskirkja fái óáreitt að heilaþvo ungviði borgarinnar í óþökk foreldra þess".

Hann er ekki endilega að segja að ekki sé verið að stunda trúboð í skólakerfinu, heldur að fullyrða að þesi sem vill "heilaþvo í óþökk foreldra" sé ímyndun.

Raunveruleikinn er þó líklega ekki svo fjarri þeirri mynd í einhverjum tilfellum, en líklega ekki lýsandi fyrir fylkinguna sem mótmælir. Sú fylking hefur mest ranghugmyndir um hvað tillögurnar ganga út á eða neita að setja sig inn í hugmyndir um réttindi minnihlutahópa.

Einar Karl Friðriksson - 30/10/10 17:39 #

Las þennan pistil eftir Davíð Þór. Lipurlega skrifað. Davíð Þór er bara ekki hlutlaus og það felst ekkert hlutleysi í því að stilla þessu upp svona sem átök tveggja "fylkinga" sem báðar eigi jafna "sök".

Eins og þú bendir á VILL kirkjan fá að stunda trúboð, þó sumir talsmenn kalli það "kennslu um raunveruleika átrúnaðar" eða e-ð álíka loðið, eða bara neita að viðurkenna að trúboðið fari fram.

Ég hef ekki lesið orðin "valdagráðug" eða "heilaþvottur" í greinum fólks sem styður tillögur Mannréttindaráðs, ég kannast þannig ekki við "fylkingu" trúleysingja sem lýsa kirkju með þeim hætti. En það er samt alveg rétt að kirkjan vill viðhalda völdum sínum og vill fá að boða trú í leikskólum, þ.e. hafa áhrif á hugi barna, óháð skoðunum foreldra! Engin ímyndun með það.

Hins vegar notaði einmitt sjálfur biskupinn - leiðtogi annarrar "fylkingarinnar" - orðin andleg örbirgð og hefur oft sakað trúleysingja um siðleysi.

Svo er ég líka ósammála niðurlagi Davíðs Þórs, þar sem hann gefur í skyn að verði farið eftir tillögum Mannréttindaráðs sé brotið á mannréttindum kristinna barna. Það er tómt bull.

hildigunnur - 30/10/10 19:49 #

Mér finnst þetta reyndar alveg ágætur pistill hjá Davíð, sérstaklega í samhengi við blogg hans frá um daginn þar sem hann tekur í fyrri hluta alveg undir þau sjónarmið okkar að ekki skuli fara fram trúboð inni í skólastofunni.

Ég held nefnilega að skotgrafahernaður skili okkur ekki nokkrum sköpuðum hlut, fáum frekar langstærsta hluta þjóðarinnar, fólkið sem er nokk sama um málefnið, upp á móti ef við sýnum ekki neinn vilja til að hlusta og tala saman. Ekki endilega tala við þá ýktustu kirkjunnar megin (það þýðir jú ekkert) en hófsamara liðið sem skilur sanngirnina í því að trúboð eigi ekki heima innan skóla og leikskóla.

Óli Gneisti - 31/10/10 21:26 #

Ég fatta bara ekki hvað þú átt við með skotgrafarhernaður. Er það að svara lygum þjóðkirkjufólks? Er það að gagnrýna trúboðið? Þegar Davíð Þór tekur sig til og gagnrýnir lygar prestanna í sinni kirkju þá tek ég kannski eitthvað mark á honum en þangað til...

Óli Gneisti - 31/10/10 21:34 #

Þetta er náttúrulega engar rangtúlkanir heldur yfirveguð lygi. Það er ekkert hægt að breiða yfir það.