Örvitinn

Þjóðfundarefasemdir mínar

Það er þjóðfundur í gangi akkúrat núna. Ég er dálítið skeptískur á það fyrirbæri eins og ég er gjarnan, jafnvel þó stemmingin sé góð.

Ég hef farið á starfsdaga þar sem starfsmenn vinna að því að finna gildi sem fyrirtækið á að hafa í hávegum. Þetta hafa verið skemmtilegir dagar þar sem vinnufélagar leysa ákveðið verkefni og djamma svo um kvöldið. Niðurstaða dagsins er tekin saman með þremur eða fjórum orðum og birt á heimasíðu, "gildin okkar eru" áreiðanleiki, heiðarleiki og nýsköpun eða eitthvað þessháttar, stundum jafnvel með japönskum frösum þegar markaðsmenn vilja vera sérlega flottir.

Nema hvað, flestir sem skoða málið vita að gildin skipta engu máli. Þetta snýst ekkert um niðurstöðuna. Tilgangur starfsdagsins er að láta starfsfólki líða betur, láta það fá það á tilfinninguna að það hafi áhrif á raunverulega stefnu fyrirtækisins, sé mikilvægur hluti liðsins. Í raun eru það eigendur, stjórn og stjórnendur sem allar alvöru ákvarðanir taka eftir sem áður. Starfsdagurinn snýst um starfsdaginn, ekki niðurstöðu hans.

Niðurstaða svona fundar (hvort sem það eru gildi eða eitthvað annað) held ég að verði aldrei sérlega áhugaverð. Er fjöldafundur góð aðferð til að finna lausnir? Eftir svona fund er hætt við að hver túlki eftir sínu höfði eins og sást eftir eftir síðasta þjóðfund þegar ríkiskirkjuprestur túlkaði allt sér í hag.

Þannig að ég hef ekki trú á niðurstöðunni og augljóslega er þetta alltof lítið hlutfall þjóðarinnar til að "pepp" tilgangurinn nái fram að ganga. Þúsund manns munu fá þá tilfinningu að þeir hafi áorkað einhverju og eflaust líður þeim vel með það.

Ég ætla samt að vera dálítið leiðinlegur og skeptískur. Tengi þetta við yfirborðsmennsku og gallupstæla sem ég hef ofnæmi fyrir.

kvabb
Athugasemdir

Matti - 06/11/10 20:36 #

Friðrik Skúlason var á fundinum

Púkinn var á þjóðfundinum, en stundum fannst honum eins og hann væri í miðju barnaævintýri í Hálsaskógi, þar sem Bangsapabbi stóð og sagði ábúðarfullur "Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir".

Vandamálið var nefnilega það að helmingurinn af því sem kom fram var ekkert annað en innihaldslitlir frasar sem flestir geta verið sammála, en eiga lítið erindi í stjórnarskrána sem slíka -minntu frakar á innantóm kosningaloforð stjórnmálaflokka.

Már Örlygsson - 07/11/10 00:00 #

Við Palli Hilmars vorum leiðinlegu gaurarnir á twitter í hádeginu - og vorum fullkomlega sniðgengnir af Social Media elítunni fyrir vikið. :-)

@pallih:

Þá hefst klisjuflæðið

@maranomynet:

þetta format er fullkomlega optimerað til að finna lægsta samnefnara.

@maranomynet:

...og lægsti vitsmunalegi samnefnari er nákvl. það sem við þurfum til að gera stjórnarskrána betri. #yayforwordclouds

Matti - 07/11/10 00:08 #

Ég þarf greinilega að fara að fylgjast með ykkur á twitter :-)

Már Örlygsson - 07/11/10 00:19 #

Vandinn við að opna á sér kjaftinn og gagnrýna þetta format - er að þarna eru kollegar manns og góðkunningjar að púla af sér rassgatið við að koma þessu í framkvæmd, og allir með hjartað á fullkomlega réttum stað, allir af vilja gerðir að gera eitthvað sem skiptir máli.

Svo er maður bara fúli gaurinn að ybba gogg.

Finnur - 07/11/10 00:35 #

Allt í góðu að gagnrýna og ég get alveg tekið undir þetta með orðaskýin ;)

Það verður samt svolítið magnað að skoða niðurstöðurnar á morgun. Þetta 1000 manna slembi úrtak var glettilega sammála um hvað skiptir máli í stjórnarskrá 2.0

Ef þetta verður inntakið á stjórnlagaþinginu held ég að þetta sé alveg skör ofar en gildapælingarnar sem þú vísar í.

Just saying, en ég er náttúrulega ekki alveg hlutlaus :p

Matti - 07/11/10 11:59 #

Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðurnar. Ég hef heyrt sitthvað af fundinum og bíð eftir að sjá hvort heildarniðurstaðan (ef slíkt er til) rímar við það.

En fólk er þegar byrjað að túlka þetta í tætlur

Það lítur út fyrir að þjóðfundur sé að kalla eftir trúaðra samfélagi, að þarna sé þjóðkirkjunni gefið tækifæri til að rétta hjálparhönd, að fólk sé búið að fá leið á stöðugu áreiti þeirra sem vilja aðskilja ríki og kirkju, að fólk hafi andstyggð á þeirri sundrungu, ósamstöðu og spillingu sem virðist einkenna nútímasamfélagið á Íslandi.

Hrannar er reyndar óvenju óvandaður heimspekingur en það kemur mér ekki á óvart ef aðrir aðdáendur trúarbragða munu koma með svipuð viðbrögð.

Kom eitthvað fram á þessum þjóðfundi sem ekki hefði komið fram ef ég og Már hefðum sest niður með bjór og rætt þessi mál? :-)