Örvitinn

Bílablús

Jeppi

Fyrir þrem vikum bloggaði ég um árekstur sem ég og Kolla lentum í annan í jólum. Sem betur fer meiddumst við ekki og aðrir sem lentu í slysinu jafna sig vonandi.

Þegar ég bloggaði var bíllinn kominn á verkstæði. Þar er hann enn og ekki sér fyrir endann á því. Viðgerðin stoppar á varahlutum, brettaköntum sem umboðið átti ekki á lager og þurfti að flytja inn. Þegar ég hringdi í gær var verið að vonast til þess að varahlutir kæmu í dag. Ég hefði haldið að það væri hægt að redda svona hlutum á 2-3 dögum.

Ég fékk bílaleigubíl í viku, ók um á smábíl með tæpar bremsur frá bílaleigu Akureyrar í verstu færð sem sést hefur á höfuðborgarsvæðinu í einhverja áratugi. Sú vika leið hratt. Þessa dagana er ég með bíl í láni frá tengdó. Sá er töluvert miklu betri en bílaleigubílinn.

Það stefnir í að bíllinn verði í mánuð á verkstæði. Ég hefði þurft að hafa vit á að taka hann af númerum fyrir þrem vikum til að spara tryggingar (og hugsanlega önnur gjöld). Ætla að hringja í Sjóvá á morgun og spyrja hvort ég fái ekki afslátt af kaskótryggingu þennan mánuð.

dagbók
Athugasemdir

Baldvin - 17/01/12 21:58 #

Þú ættir nú að geta keyrt bílinn án fjandans brettakantanna, er það ekki?

Eru þetta brettin sem vantar, eða bara plastkantarnir?

Matti - 17/01/12 22:03 #

Þeir geta ekki klárað að rétta eitthvað fyrr en þeir eru komnir með brettakant og bretti. Svo er verið að laga álfelgu, en ég á annan umgang af dekkjum á felgum og þeir vita það.

Baldvin - 17/01/12 22:08 #

Þá strandar nú væntanlega á brettinu sjálfu eða jafnvel innra brettinu. Það hlýtur að vera hægt að smella plastdraslinu á eftirá.

En það getur gengið erfiðlega að fá varahluti frá Kia, eða gat amk gert það meðan Hekla var með umboðið. En það var reyndar millibilsástand, ég þekki ekkert til hjá Öskju.

hildigunnur - 17/01/12 23:10 #

hmm, varla áttu nú að þurfa að þola bílaleigubíl með tæpar bremsur! Ég fékk annars mjög fína þjónustu einmitt hjá Bílaleigu Akureyrar þegar bílnum mínum var rústað í desember, sjá hér.

Matti - 17/01/12 23:33 #

Þeir vissu ekki að bremsurnar voru tæpar en það voru skruðningar í þeim - eins og bremskuklossar væru að verða búnir.

Matti - 20/01/12 14:40 #

Hringdi áðan af rælni til að fá fréttir. Var sagt ég fengi hann "nokkuð líklega" í dag. Það átti bara eftir að fara með bílinn í Öskju og láta lesa úr tölvunni.

Svo var hringt aftur, það næst ekki í dag, þannig að ég þarf að bíða fram yfir helgi.

Dæs^3