Örvitinn

Þráhyggja mín gagnvart Gerrard

Matti, alveg merkilegt hvað þú virðist upptekinn af því að gagnrýna Gerrard hér í gegnum tíðina. #

Skrifar Baros á Liverpool blogginu í umræðum um bikarúrslitaleikinn í gær. Ég hafði bent á að sennilega hafði verið stillt upp með Gerrard "í holunni" en hann hefði fljótlega verið kominn í stöðu aftasta miðjumaður og Suárez þarf af leiðandi verið aleinn og einangraður frammi.

Ég kannast reyndar ekki við að vera upptekinn af því að gagnrýna Gerrard á Liverpool blogginu, þó ég hafi tuðað um hann við vinnufélaga mína. Þrátt fyrir að ég sé dyggur lesandi Liverpool bloggsins hef ég ekki tekið mikið þátt í umræðum á síðunni. Af og til hef ég þó sagt skoðun mína.

Ég fór því að athuga hvað ég hefði tjáð mig um Gerrard á Liverpool blogginu og fann m.a. þessi ummæli eftir Baros frá desember 2010.

Matti. Átta mig illa á þessari Gerrard þráhyggju þinni. Virðist nota hvert tækifæri til að skíta hann út sem miðjumann #

Í þeirri umræðu benti ég á að þáverandi stjóri liðsins, Roy Hodgson, hefði sett Gerrard á miðjuna ef hann hefði haft val um það - sem hann hafði ekki þann dag. Lucas og Meireles sáu um miðjuna og stóðu sig vel.

Ég held að þessi tvö dæmi séu svona helmingur tilfella þar sem ég hef minnst á Gerrard á Liverpool blogginu og í bæði skiptin er Baros á þeirri skoðun að ég sé "upptekinn af" eða með "þráhyggju" gagnvart Gerrard. Í hvorugt skiptið hef ég verið að rakka Gerrard niður en vissulega gagnrýnt hann.

Í seinni athugasemd sinni skrifar Baros einnig:

En ég get ekki með nokkru móti kvittað undir þá skoðun þína að Gerrard sé slakur miðjumaður, ekki frekar en þá skoðun þína að Roy Hodgson væri fáviti sem ætti umsvifalaust að reka þegar 5 umferðir voru búnar af deildin #

Þarna vísar hann í "fræga" bloggfærslu mína um Roy Hodgson. Er til stuðningsmaður Liverpool sem heldur því fram að ég hafi ekki haft rétt fyrir mér þarna?

Gerrard

Skoðun mín á Gerrard er eftirfarandi: Gerrard er frábær leikmaður, einhver allra besti knattspyrnumaður heims síðasta áratug. En Gerrard er ekki alltaf góður leikmaður fyrir Liverpool. Síðustu þrjú tímabil hefur hann verið töluvert mikið meiddur og þegar hann hefur spilað hefur hann ekki átt marga góða leiki.

Að mínu mati er Gerrard ekki góður á miðri miðjunni. Hann er ekki nógu skynsamur, þarf að gera allt á fullu og tekur oft ranga ákvörðun, reynir trekk í trekk "Hollywood" sendingu þegar betra hefði verið að gefa 10-20 metra sendingu. Svo á hann það til að hlaupa úr stöðu og hengja haus og rölta aftur þegar hann missir boltann sem veldur því að meðspilari hans á miðjunni þarf að dekka allt miðjusvæðið. Þess vegna á Gerrard að vera framar á vellinum, í "holunni" eða á hægri kanti. Þar hefur hann átt bestu leiki sína fyrir Liverpool í gegnum árin. Fyrsta mark Suárez á móti Norwich var gott dæmi um það sem Gerrard getur gert, pressaði varnarmann, vann boltann og gaf frábæra sendingu á Suárez. Þetta á Gerrard að vera að gera.

Ég er alls ekki að kenna Gerrard um tapið á móti Chelsea, athugasemd mín í þetta skipti var einungis ábending um það hvernig liðið stillti upp. Mér fannst augljóst að holningin á liðinu var vitlaus, þetta gat ekki gengið upp. Kannski hefði verið rétt að stilla upp 4-4-2 í þessum leik eins og einhverjir hafa sagt þó ég sé ekki hrifinn af því leikskipulagi.

Gerrard er frábær leikmaður þegar hann er upp á sitt besta, sem því miður sést afar sjaldan. En hann er ekkert sérstakur á miðri miðjunni og stundum er hann satt að segja alveg hroðalega slakur í þeirri stöðu.

Ég á eina Liverpool treyju með nafni leikmanns, keypti hana á Anfield árið 2004. Aftan á henni stendur nafnið Gerrard og númerið 17.

ps. Eftir að ég setti færsluna inn sá ég athugasemd frá AEG á Liverpool blogginu. Ef menn halda að ég hafi gagnrýnt Gerrard, þá er þetta slátrun!

Annars sýndi þessi leikur mjög hvað Gerrard er hryllilega vondur fyrirliði og telur sig of góðan fyrir núverandi samherja. Nánast allt liðið var á hælunum í fyrri hálfleik og hann gerir sama og ekkert til að hvetja og rífa liðið upp andlega, þvert á móti fer hann úr sínu sóknarhlutverki og þvælist niður á miðju uppá sitt einsdæmi því hann treystir ekki Henderson og Spearing.

Svona vantraustsákvarðanir á fyrirliði að að taka og láta vita af fyrir leik í samráði við þjálfara ekki einsamall í miðjum úrslitaleik í bikar. Þessi staða fyrir aftan Strikerinn í 4-2-3-1 leikkerfinu er sú sem tengir allan sóknarleikinn saman. Viðkomandi hefur ekkert leyfi til að spila bara sóló þegar hann vill. Einnig tók ég eftir síðustu 20mín þegar Chelsea voru búnir að pakka í vörn þá hægir Gerrard stanslaust á spilinu til að koma með sína trademark 30-40m snúningsbolta frá hægri miðju á hausinn á Carroll í stað þess að halda hraðanum í spilinu gangandi og komast hugsanlega á bakvið bakverði Chelsea. Tactically inept, lítil yfirsýn og ónógur agi hjá smákónginum okkar. Það skiptir litlu hversu frábær leikmaður þú ert og með afburða spyrnugetu ef ert sjaldan á sömu bylgjulengd og samherjarnir og þínir hæfileikar nýtast liðsheildinni tilviljanakennt. Eftir höfðinu dansa limirnir, núverandi Liverpool lið er mótað eftir Gerrard og Carragher. Einhæft, fyrirsjáanlegt og hægt með hangandi haus.#

Tengdar færslur:

boltinn
Athugasemdir

Kristján Atli - 06/05/12 17:43 #

Ég hjó einmitt eftir þessu hjá Baros líka og minnti að hann hefði áður farið í vörn fyrir hönd Gerrard. Fínt að þú lagðist í rannsóknarvinnuna, annars hefði ég þurft að gera það.

Það er bara því miður enn til stór hluti Liverpool-stuðningsmanna sem finnst hrein og klár ósvífni að gagnrýna Gerrard. Af því að hann sé búinn að vera svo stórkostlegur, og sé svo mikil hetja, geti hann aldrei gert neitt slæmt og ef hann geri eitthvað slæmt eigi hann skilið þá lágmarkskurteisi að maður sé ekki að benda á það í sífellu.

Ég get tekið undir hvert orð hér að ofan, hjá þér og AEG. Tapið í gær var langt því frá honum að kenna, en stöðuflakk Gerrard hjálpaði alveg örugglega ekki til og það var engin tilviljun að Suarez var einangraður þangað til Dalglish gafst upp og sendi liðsauka í framlínuna, því ekki var Gerrard að fara að hjálpa til þar.

Jón Magnús - 06/05/12 17:50 #

Rétt greining hjá þér Matti, var sjálfur alveg brjálaður hvernig Gerrard var að vinna í fyrri hálfleik. Það var algjörlega absúrd að horfa upp á þetta. Suarez snerti varla boltann og við komum engum boltum í gegnum miðjuna hjá Chelsea.

Síðan þegar hann fór að "elta" manninn með boltann til að geta tekið hann af honum - dísus, hvað er hann að hugsa. Virkar ekkert nema niðurdrepandi á samherja að hlaupa og taka af honum boltann. Er bara að segja "ég treysti þér ekki, láttu mig fá boltann og ég skal gera þetta".

Samt ólíklegt að hann breytist úr þessu, því miður fyrir okkur.

Sveinn - 06/05/12 23:17 #

Ef þjálfarinn setur honum ekki skýr mörk þá fer hann bara í rólóbolta útum allan völl, stundum virkar það þó sbr. Istanbúl.

Full ástæða líka til að rifja upp Ewing Theory 101:

A star athlete receives an inordinate amount of media attention and fan interest, and yet his teams never win anything substantial with him (other than maybe some early-round playoff series).

That same athlete leaves his team (either by injury, trade, graduation, free agency or retirement) -- and both the media and fans immediately write off the team for the following season.

Matti - 06/05/12 23:25 #

Istanbúl er frábært dæmi um Gerrard. Spilaði á miðjunni í fyrri hálfleik, Liverpool tapaði 3-0. Í seinni hálfleik sáu Hamann og Alonso um miðjuna og Gerrard spilaði frjálsari stöðu og þá vann Liverpool 3-0. Að hann skuli ekki hafa lært sína lexíu þá er í raun afrek!

Matti - 07/05/12 08:58 #

Sé á Liverpool blogginu að Baros hefur lesið þessa bloggfærslu. Það hefði verið fróðlegt að fá viðbrögð frá honum.