Örvitinn

Spurningar til innanríkisráðherra

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hélt samsæti til heiðurs fráfarandi biskups.

Í ávarpi sínu sagði Ögmundur meðal annars:

Árásargjarnir menn neyttu færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og varð um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar. #

Hverjir eru þessir "árásargjörnu menn" sem hafa vegið "grimmilega" að ríkiskirkjunni og hvernig hefur verið vegið grimmilega að henni af þessum árásargjörnu mönnum?

Innanríkisráðherra mærir Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands í ávarpinu en "gleymir" að minnast á baráttu Karls gegn hjúskaparlögum samkynhneigðra eða framlagi biskups í mál Ólafs Skúlasonar, bæði áður og eftir að Karl varð biskup. Einnig "gleymir" Ögmundur alveg hvernig Karl hefur talað um trúleysingja í gegnum tíðina, t.d. þegar hann talaði um Siðmennt sem "hatrömm samtök". Er Ögmundur kannski að tala um Siðmennt? Það læðist að mér sá grunur, eftir að hafa lesið ýmislegt sem Ögmundur hefur látið frá sér um kirkjumál undanfarið, að Ögmundur sé kannski sammála Karli í þeim málum.

kristni pólitík
Athugasemdir

Kristinn - 13/07/12 16:57 #

Eins og sjá má á slóðinni hér að neðan er Ögmundi alls ekki illa við Siðmennt og því ólíklegt - að mér finnst - að hann sé að vísa til félagsins í umræddum texta.

http://sidmennt.is/2011/11/04/storgod-raeda-ogmundar-jonassonar-innanrikisradherra/

Matti - 13/07/12 17:00 #

Ertu að segja að í Siðmennt séu ekki "árásargjarnir menn" sem hafa vegið grimmilega að kirkjunni og að Siðmennt séu ekki "hatrömm samtök" eins og Karl Sigurbjörnsson vill meina?

Heldur þú virkilega að mér hafi verið alvara með spurningunni um Siðmennt?

Kristinn - 13/07/12 17:10 #

Auðvitað var þér ekki alvara. En það vita ekki allir og því ágætt að benda á ágætt samstarf Siðmenntar við Ögmund.

Ögmundur er líklega bara að vísa til þess versta (mögulega óháð félögum) sem gerðist á undanförnum árum í umræðu um aðskilnað ríkis og kirkju. Sú umræða hefur ekki alltaf verið málefnaleg þótt mér finnist hún reyndar að mestu hafa verið það.

Matti - 13/07/12 17:14 #

Kannski var Ögmundur að tala um Hjört fríkirkjuprest - hann hefur verið duglegur við að gagnrýna ríkiskirkjuna.

Hvað var það versta sem gerðist á undanförnum árum? Taktu eftir að Ögmundur talar um að að þessum árásargjörnu mönnum hafi orðið ágengt.

Annars er best að bíða bara eftir svari frá Ögmundi - ég hef ekki trú á öðru en að hann svari þessu skilmerkilega.

Kristinn - 13/07/12 17:28 #

Já, hann svarar þessu vonandi bara sjálfur, karlinn.

Hjalti Rúnar - 13/07/12 17:37 #

Já, þetta er hræðileg veröld. Hérna höfum við saklaust trúfélag sem fær milljarða á ári frá ríkinu og notaði þá m.a. til þess að berjast gegn réttindum samkynhneigðra og kalla trúleysingja siðlausa heimskingja, og svo vega árásargjarnir menn grimmilega að henni! :(

Matti - 13/07/12 23:16 #

Ögmundur er ekki bara ráðherra kirkjumála heldur einnig æðsti yfirmaður löggæslu á landinu. Þegar hann talar um árásargjarna menn velti ég því fyrir mér hvort það sé ríkjandi viðhorf í stofnunum sem ráðuneyti hans hefur umsjón með, eru þetta upplýsingar frá einhverjum í ráðuneytinu? Hefur innanríkisráðuneytið eitthvað eftirleit með þessum árásargjörnu mönnum?

Þetta er ekki einhver Ömmi úti í bæ sem hér tjáir skoðun sína heldur innanríkisráðherra í ríkisstjórn Íslands.

Ögmundur Jónasson - 14/07/12 10:44 #

Stundum hefur mér þótt umræða um trúmál vera hörkuleg og árásargjörn. Slík spjótalög hafa komið úr mörgum áttum. Því fer víðs fjarri að ég sé að tala um Siðmennt þótt ekki sé hægt að alhæfa um allt fólk þar fremur en fólk innan kirkjunar, né nokkurs staðar! Ég er að tala um einstaklinga fremur en samtök. Siðmennt ber ég mikla virðingu fyrir og þótti afar miður þegar frumvarp mitt um lífsskoðunarfélög strandaði í þinginu í vor. Ég mun leggja það fram að nýju í haust. Á ráðstefnum kirkjunnar sem ég hef komið að sem ráðherra hef ég oftar en ekki nefnt Siðmennt að góðu og hvað varðar málstað samkynhneigðra þá hef ég einnig rætt hann og alltaf í þágu samkynhneigðra. Það hef ég líka gert í þinginu þegar umræða hefur skarast um trúmál og kynhneigð.

Þórður Ingvarsson - 14/07/12 11:36 #

En um hverja ertu að tala þegar þú minnist á "árásagjarna menn"?

Matti - 14/07/12 11:47 #

Ögmundur, þú talar hér eins og Karl biskup. Ásakar einhvern óræðan hóp um árásargirni og að hafa vegið grimmilega að kirkjunni. Þú reynir svo að tengja fækkun í kirkjunni við þennan hóp.

Það er óumdeilt að félagið Vantrú hefur verið í fararbroddi í gagnrýni á kirkjuna hér á landi. Karl hefur meira að segja bent á það eins og við í Vantrú rifjuðum upp í kveðju til hans. Þar sagði Karl t.d. að Vantrú væri „sérstaklega árásargjarnt“.

Sem einn af stofnendum félagsins og fyrrverandi formaður hlýt ég að spyrja hvort innanríkisráðherra sé að vísa til Vantrúar með þessum orðum sínum.

Valgarður Guðjónsson - 14/07/12 13:20 #

Já, ég er óneitanlega undrandi á þessu tali Ögmundar, sem ég ber virðingu fyrir.. þó við séum nú oft mismikið sammála.

Það hefði verið meinlaust að kveðja biskup með nokkrum kurteisisorðum, en svona óræð og óskilgreind skot á óljósan hóp eru kyndug.

Þetta er ekki bara óþarfi heldur sérstaklega kaldhæðnislegt í ljósi þess að biskup hefur verið mun ósmekklegri en flestir gagnrýnendur kirkjunnar.

Og það sem meira er, sennilega haft miklu meiri áhrif til að rjúfa þessa "samstöðu" en nokkur gagnrýnandi kirkjunnar.

Svanur Sigurbjörnsson - 14/07/12 23:41 #

Ég var einmitt að íhuga að skrifa sérstaka grein um það hversu Ögmundur hefur staðið sig vel í mannréttindamálunum. Ég er gáttaður á þessu kveðjuhófi til handa fráfarandi biskupi því að Karl hefur talað niður til ríkistjórnarinnar og er hér að hrökklast úr starfi vegna afleiddrar framistöðu í málum sem voru viðkvæm og þurftu mann með góða dómgreind og siðferðislegan styrk. Karl sýndi það ekki. Í ávarpi Ögmundar segir:

Mér þótti alltaf aðdáunarvert hve víðsýnn og velviljaður Karl var gagnvart öðrum trúfélögum. Þar sýndi hann mikla visku og styrk.

Ég vildi að ég gæti tekið undir þetta en Karli hefur verið uppsigað við bæði Fríkirkjuna í Hafnarfirði og Reykjavík, komið illa fram við Ásatrúarfélagið og kallað lífsskoðunarfélagið Siðmennt "hatrömm samtök" vegna baráttu félagsins fyrir því að trúboð sé ekki iðkað í skólum. Deilur hans við Fríkirkjuna eru vegna þess að Karl hefur ekki tekið illa í kröfur um jafnræði trú- og lífsskoðunarfélaga og hefur aldrei sýnt því skilning að kristið fólk í Fríkirkjum ætti að njóta sömu fríðinda og fólkið í Þjóðkirkjunni. Ég hlýt að hafa misst af einhverju stórkostlegu ef að það er eitthvað til í því að Karl hafi verið velviljaður öðrum trúfélögum. Ég bið um dæmi til að sannfærast. Þau hljóta þá að vera til.

Um "víðsýni" Karls Sigurbjörnssonar. Í predikun hans 30. okt. 2011 í Hallgrímskirkju sem bar yfirskriftina "Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa" sagði Karl:

Hið besta í evrópskri menningu sprettur af boðskap Jesú og sögunni af krossi hans og upprisu. Þó að Vesturlönd virðist óðum vera að hrista það af sér, troða fótum eða þagga í hel, þá dylst það eins og hulinn fjársjóður í akri siðmenningarinnar, þrátt fyrir allt lifandi og virkur áhrifavaldur.

Gæti Karl virkilega stutt fyrstu staðhæfinguna með nægjanlega sterkum rökum í doktorsritgerð? Eftir Rannsóknarréttinn, útrýmingar annarra trúarbragða, galdrabrennurnar og drekkingarnar (sem áttu sér stað eftir siðaskiptin), kvennakúgunina, bandalögin við konunga og einræðisherrana, lista bannfærðra bóka, baráttuna gegn vísindum og fleira, er það ekki óhætt að segja að mannréttindi nútímans og framfarir á sviði vísinda hafi orðið þrátt fyrir kristnina frekar en vegna hennar? Guðmundur Ingi Markússon trúarbragðafræðingur hefur einmitt bent á þetta og gerði það í Kastljósinu síðasta vetur. Það er merkilegt að hin kristna kirkja stendur á bremsunni alla tíð og svo þegar framfarirnar ná samt í gegn þakkar hún sjálfri sér fyrir árangurinn. Karl tók á fullu þátt í þessum leik og það getur ekki talist dæmi um víðsýni og velvilja í garð annarra trúfélaga, hvað þá þeirra trúlausu skoðana sem áttu stóran þátt í framför Vestrænna þjóðfélag. Þá var rétt eins og Ásatrúin væri ekki til í huga Karls en hún á afar mikinn þátt í íslensku menningarlífi og sögu. Telst það til víðsýni?

Vinsamlegast komdu með dæmi um víðsýni Karls, kæri Ögmundur. Það væri gott að fá þau til jafnvægis.

Ögmundur Jónasson - 15/07/12 01:16 #

Ég hef tvívegis eða þrívegis verið viðstaddur þegar Samráðsvettvangur trúfélaga hefur komið saman og hlustað á umræður. Síðast hlýddi ég á forsvarsmenn Ásatrúarfélagsins kveðja fráfarnadi biskup hlýjum orðum. Aðrir tóku í sama streng. Ég er engan veginn að lýsa mig skoðanabróður Karls Sigurbjörnssonar í einu og öllu eða taka undir öll sjónarmið hans í gegnum tíðina. Ég er einfaldlega að horfa til þess sem hann hefur gert gott og jákvætt. Ég ætla ekki að biðja nokkurn mann afsökunar á því og stend við mín orð. Ef menn vilja kynnast mínum viðhorfum þá er að finna fjöldann allan af skrifum og ræðum á heimasíðu minni bæði af vettvangi kirkjunnar, Siðmenntar eða annars staðar. Held ég að nokkur samfella sé þar í afstöðu minni.

Tinna Gígja - 15/07/12 10:17 #

Hvaða "árásargjörnu menn" varstu að tala um, Ögmundur? Þetta er nú ekki flókin spurning.

Svanur Sigurbjörnsson - 15/07/12 11:27 #

Sæll Ögmundur og takk fyrir svör. Það er einstakt að ráðherra svari almenningi á bloggi (annarra en eigin) og stígi þannig niður úr hásæti sínu til að eiga orðaskipti á slíkum vettvangi. Það finnst mér lýsa innifalandi viðhorfi þinni og mannvirðingu. Það er í takt við góða viðleitni og gjörðir þínar í þá veru að sinna sem flestum hópum sem hafa leitað eftir mannréttindum í þjóðfélaginu. Opnir fundir þínir á vegum ráðuneytisins um mannréttindamál síðustu misseri eru líklega einstök í sögu stjórnvalda í landinu, a.m.k. síðustu áratuga svo ég viti til.

Ég ber því mikla virðingu fyrir nálgun þinni í starfi og þeirri vinsemd og áheyrn sem að þú veitir öllu fólki. Eiginleikar sem sæma forseta ef út í það er farið. Hins vegar skil ég vel áhyggjur Illuga og Matthíasar af orðum þínum við þetta kveðjuteiti sem þú hélst Karli fyrrverandi biskupi, þ.e. að tala með óljósum hætti um "árásargjarna menn" sem hefðu vegið að þjóðkirkjunni. Það hafa margir gagnrýnt þjóðkirkjuna og Karl Sigurbjörnsson og margir með réttu. Það er því afar óþægilegt að þú, innanríkisráðherra, tilgreinir "árásargjarna menn" með svo óljósum hætti þannig að nú veit enginn hvort að þú ert að tala um þá sem höfðu sanngjarna gagnrýni fram að færa eða einhverja örfáa sem gengu yfir strikið. Við vitum ekki heldur hvar þú setur strikið með þessu. Burt séð frá hrósi sem þú gefur Karli út frá þínum bæjardyrum séð, er þetta tal um "árásargjarna menn" ekki í samræmi við annars ljómandi víðsýni þína og vinnu til sameiningar og jafnræðis í þjóðfélaginu. Mér finnst það stórvarasamt.

Ég las þessa grein þína á heimasíðu þinni: http://ogmundur.is/annad/nr/6368/ og hún útskýrir viðhorf þín vel til kirkjumála sem útskýrir aftur betur orð þín í ræðunni í teitinu.

Samráðsvettvangur trúfélaga er ágætur svo langt sem hann nær, en þar var ákveðið að ræða aðeins það sem trúfélögin gætu sammælst um. Siðmennt var ekki boðið að vera með en félagið fékk samt boð um að vera með á bæklingi sem segir frá félögum sem fólk getur leitað til í atviki andláts. Þessir bæklingar eru á sjúkrahúsunum.

Varðandi Ásatrúarfélagið þá virðist það fara svolítið eftir vettvangnum hvernig þeir bera Karli söguna en það er gott að heyra að þeir hafi upplifað eitthvað jákvætt í hans fari gagnvart sér. Ekki meira um það.

Bestu kveðjur - Svanur

Matti - 15/07/12 11:51 #

Ég hef tvívegis eða þrívegis verið viðstaddur þegar Samráðsvettvangur trúfélaga hefur komið saman og hlustað á umræður.

Með þessu er Ögmundur hálfpartinn að staðfesta að hann er að tala um Vantrú sem "árásargjarna menn" því samráðsvettvangur trúfélaga er, samkvæmt mínum heimildum, lítið annað en grátkór útaf félaginu Vantrú. Bjarni Randver Sigurvinsson góðkunningi Vantrúar, leiðir þann hóp.

Hefur þú hlustað á Vantrú Ögmundur?

Ég ætla ekki að biðja nokkurn mann afsökunar á því og stend við mín orð.

Það er enginn að fara fram á að Ögmundur biðjist afsökunar, það er einungis verið að biðja ráðherrann um að tala skýrt og dylgja ekki um fólk. Það er rangt að Ögmundur standi við orð sín, hann þorir þvert á móti ekki að tala hreint út og nefna árásargjörnu mennina. Af hverju er svona erfitt að svara þessu?

Ef menn vilja kynnast mínum viðhorfum þá er að finna fjöldann allan af skrifum og ræðum á heimasíðu minni bæði af vettvangi kirkjunnar, Siðmenntar eða annars staðar. Held ég að nokkur samfella sé þar í afstöðu minni.

Ég fæ ekki betur séð af því sem innanríkisráðherra hefur skrifað um þessi mál og framkvæmt (Norska leiðin varðandi skráningu barna í trúfélög) en að sú afstaða sé hreinn og klár stuðningur við ríkiskirkju og andstaða við aðskilnað ríkis og kirkju. Það að Siðmennt fái sömu stöðu og trúfélög kemur málinu ekkert við og er að mínu mati einfaldlega leið stjórnmálamanna til að fresta alvöru breytingum - alvöru aðskilnaði.

Matti - 15/07/12 12:43 #

Ögmundur svarar Illuga Jökuls á bloggi sínu og segir m.a.

Mér hefur hefur aldrei fallið ofsafengin umræða um trúmál, hvort sem það er af hálfu þeirra sem trúa eða hinna sem trúa ekki. Þetta hafa mér þótt vera greinar af sama meiði. Þessi afstaða hefur síðan mótað viðhorf mitt til Þjóðkirkju. Ég hef litið á hana sem vörn gegn allsherjar trúvæðingu samfélagsins. Slík kirkja verður að vera öfgalaus, opin og umburðarlynd.

Vandinn við þetta viðhorf innanríkisráðherra er að ríkiskirkjan er ekki og hefur aldrei verið "öfgalaus, opin og umburðarlynd". Var baráttan gegn réttindum samkynhneigðra dæmi um umburðarlyndi? Eru orð Karls um trúleysingja dæmi um umburðarlyndi? Var sókn ríkiskirkjunnar inn í leikskólana og grunnskólana dæmi um öfgaleysi? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Matti - 15/07/12 12:49 #

Og svo strax í kjölfarið:

Fyrst Illugi Jökulsson lætur svo lítið að skrifa mér opið bréf þá langar mig til að biðja hann að sýna mér þann sóma að hlaupa yfir þrjú sýnishorn af innlegi sem frá mér hefur komið um trúmál og lífsskoðunarfélög á síðustu misserum. Þar kem ég m.a. inn á það sem ég kalla trúvæðingu samfélagsins og hvernig sporna megi við henni. Það sem fyrir mér vakir er að styrkja hófsemdaröfl en hvorki ofsatrúarmenn né ofsafengna trúleysingja. Þeir finnst mér ekki vera til eftirbreytni.

Kæri Ögmundur. Hverjir eru þessir "ofsafengnu trúleysingjar" og hvernig hefur framferði þeirra ekki verið til eftirbreytni? Hættu dylgjum, vertu heiðarlegur og svaraðu.

Matti - 15/07/12 13:38 #

Ætli hægt sé að kalla Ögmund "hófsemdarmann" almennt? Hefur hann ekki þvert á móti alltaf verið frekar róttækur, jafnvel "ofsafenginn", t.d. í andstöðu sinni gegn ESB.

Af hverju er skelfilegt að hafa sterkar skoðanir gegn ríkiskirkju en eðlilegt að hafa sterkar skoðanir gegn ESB?

Kristján Kristinsson - 15/07/12 21:32 #

Góður Matti með síðusta kommentið. Ætli Ögmundur telji sig ekki vera sá sem höndlar sannleikann.

Margrét Hafsteinsdóttir - 16/07/12 02:02 #

Ég er bara svo hissa á Ögmundi! Hann er kannski eitthvað að reyna að vera almennilegur við fráfarandi biskup, svo honum líði betur :o) Svo skil ég ekki hvernig þjóðkirkja á að verja samfélagið fyrir trúvæðingu!!! Hvað á Ögmundur við með því að segja þetta??? Er hann að mæla því bót að fólki sé almennt haldið í fjötrum innan þjóðkirkjunnar og að það eigi alls ekki að kynna sér önnur trúarbrögð eða aðhyllast trúleysi?

En gaman að þessum umræðum.

Svanur Sigurbjörnsson - 16/07/12 02:12 #

Já innilega sammála þér Margrét. Þjóðkirkjan undir Karli leit á trúboð í skólum sem "sóknarfæri" og því er hún einmitt í trúvæðingu. Það er næstum eins og að Ögmundur telji að Þjóðkirkjukristnin sé ekki trú.Hann virðist trúa á trú hennar og telja hana hófsama og vinsamlega. Dæmin sem Matthías nefnir og við sem höfum fylgst vel með þessum málum í mörg ár benda til þess að hófsemin sé æði götótt og umburðarlyndið tæpt. Að minnsta kosti ekki með þeim hætti sem ásættanlegt er og hafa bæði gagnrýnisraddir og úrsagnir úr Þjóðkirkjunni í stórum stíl verið merki um að víða sé potturinn brotinn hjá henni.

Brynjólfur Þorvarðarson - 16/07/12 06:49 #

Sælt veri fólkið

Ég hef alltaf haft miklar mætur á Ögmundi, tel hann vera einn heiðarlegasta stjórnmálamann á Íslandi og tel mig skoðanabróðir hans í mestu.

Þó komst ég að því í lítilfjörlegri aðkomu minni að starfsemi Vinstri Grænna fyrir mörgum árum að innan VG er sterk undiralda velvilja gagnvart Þjóðkirkjunni, nokkuð sem kom mér talsvert á óvart. Gömlu "kommarnir" innan VG, Steingrímur, Ögmundur og Jón Bjarnason gengu þar fremstir í flokki.

Að því gefnu kemur það mér alls ekkert á óvart að Ögmundur skuli hafa horn í síðu Vantrúar og okkar sem hafa gjammað mest gegn forréttindum kirkjunnar á síðari árum. Ég tek orð Ögmundar beint til mín (ég er eflaust einn þessarar "árásarjörnu manna" sem hann hefur í huga) og tek þau sem beina staðfestingu á þeim árangri sem við höfum náð. Við vantrysslingar erum greinilega aðal málið innan Þjóðkirkjunnar!

Ekki ætla ég að erfa þetta við Ögmund og ekki minnkar álit mitt á honum við þetta, hann má hafa sínar skoðanir og þó hann sé ráðherra þá er hann fyrst og fremst stjórnmálamaður, pólítíkus, sem þarf að gæta að atkvæðunum og "baklandinu".

Einar - 17/07/12 12:59 #

Loksins þegar ég hélt að kominn væri maður með viti inn í þetta ráðuneyti og gæti jafnvel breytt einhverju, að þá kemur hann með þetta.

Hef alltaf borið virðingu fyrir Ögmundi, en þessi lofgjörð hans um fráfarandi biskup (sem hrökklast frá embætti) og það sem hann augljóslega beinir gegn trúleysingjum, voru mikil vonbrigði. Ekki eru svör hans hér og hjá Illuga til að bæta það.

-DJ- - 17/07/12 16:42 #

Af hverju er skelfilegt að hafa sterkar skoðanir gegn ríkiskirkju en eðlilegt að hafa sterkar skoðanir gegn ESB?

Þarna hittirðu naglann á höfuðið Matti.

Það er merki um hófsemd að vilja óbreytt ástand.

Íhaldssemi og ekkert annað. Sem er fyrir mitt leyti eitt af stærstu vandamálum samtímans satt að segja. Það hvorki má breyta neinu né er það hægt, því þá verður allt ómögulegt.

Berglind Freyja - 15/10/12 20:58 #

Mér finnst þetta bara hreint út sagt ótrúlegt. Ef maður gagnrýnir ríkiskirkjuna = öfgamaður, já eða árásargjarn! Ef þú berst gegn réttindum samkynhneigðra, talar niður til trúleysingja og annarra trúfélaga = víðsýnn og góður.

Hvernig? Ég á ekki til orð. Mér finnst þessi ræða bara fáránleg. Karl var ekki víðsýnn maður, hann var fordómafullur. Að innanríkisráðherra skuli segja þetta er bara skömm, það er skömm að þessu. Hér má sjá gott dæmi um "víðsýni" Karls

"Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar" http://www.vantru.is/2008/02/28/13.00/

Sálardeyðandi og mannskemmandi?
Já það er skömm að þessari ræðu!