Örvitinn

Öfgafólk í öfgafélagi fer á fund

Eins og ég bloggaði um á fimmtudag fórum við hjónin á fund hjá Stjórnarskrárfélaginu á miðvikudag.

Eitt atvik á fundinum fékk mig til að hugsa.

Við settumst við borð hjá tveim einstaklingum sem við þekkjum úr Vantrú. Við borðið sátu einnig tveir aðrir sem við könnuðumst ekki við. Þetta var ekki planað, það voru einfaldlega laus sæti við borðið þegar við mættum rétt í þann mund sem fundurinn átti að hefjast.

Þegar kom að fyrirspurnum bar annar þeirra sem við þekktum ekki fram fyrirspurn og var dálítið "grófur" skulum við segja, talaði um "stóru lygina" og "ríkiskirkju". Það stuðar mig svosem ekkert, sérstaklega ekki ríkiskirkjuvísunin, en ég hefði sjálfur sleppt því að tala um stóru lygina þarna.

Hvað um það, einhver mótmælti því að Þjóðkirkjan væri ríkiskirkja og þessi náungi ítrekaði að svo væri. Þá heyrðist kallað úr salnum.

"Þá eruð þið trúfélag."

"Þið hver" hugsaði ég. Nú auðvitað við í Vantrú! Þarna sátum við fjögur úr Vantrú við borðið og því hefur einhver dregið þá ályktun að hispurslausi spyrjandinn væri meðlimur í "öfgafélaginu". Eflaust hafa hann og fleiri trúmenn farið af fundinum sannfærð um að Vantrú hefði verið með læti. Vert er að taka fram að þessu náungi var ekki með læti, hann var bara dálítið hispurslaus.

Hvað get ég gert við þessu? Hvað getur Vantrú gert? Nákvæmlega ekki neitt. Við eigum ekki að þurfa að sverja af okkur fólk sem tjáir sig um trúleysi. Okkar málflutningur fer fram á vefritinu.

Annar vantrúarsinninn sem sat með okkur við borð bar síðar fram mjög hófsama og málefnalega spurningu á fundinum. Trúmennirnir áttu ekkert gott svar við henni frekar en öðrum gagnrýnum spurningum fundarmanna þetta kvöld.

Ýmislegt
Athugasemdir

Hjalti Rúnar - 15/10/12 13:22 #

Ég var á fundinum og það sem mér þótti merkilegast var að Dögg Harðardóttir sagði að hispurslausi spyrjandinn hafi verið "óumburðarlyndur" af því að hann notaði orðin "stóra lygin" (um guð eða kristni). (ef ég man rétt auðvitað)

Sveinn Þórhallsson - 15/10/12 23:00 #

Ég var líka á fundinum. Ég hefði ekki heldur talað um stóru lygina, og alveg sérstaklega ekki eins og þessi náungi gerði það (útskýrði ekkert heldur lét fundarstjóra skipa honum að útskýra það, hann hlýtur að hafa vitað hvernig þetta færi).

Mér þótti samt ansi kómískt að Dögg Harðardóttir (sem veit btw. absalút ekkert um trúleysi sem birtist ljóslega í hvernig hún álítur veraldleg stjórnvöld (secular) vera óhjákvæmilega trúlaus í þeim skilningi orðsins sem við tölum um sjálfa okkur sem trúlausa) skuli vísa ítrekað í dóm hæstaréttar að þjóðkirkjuskipulagið brjóti ekki gegn trúfrelsi. Hún tekur greinilega mikið mark á hæstarétti. Sama Dögg Harðardóttir tók sæti í stjórnlagaráði eftir að hæstiréttur ógilti kosningarnar til stjórnlagaþings...