Örvitinn

Staðið með kristni og Hönnu Birnu

Norðurljós

Sigurður Ragnarsson skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann þakkar Hönnu Birnu innanríkisráðherra fyrir að standa með kristinni trú. Þar segir hann meðal annars.

Umburðarlyndi er dyggð og við þurfum að umbera hvert annað. Við erum ólíkir einstaklingar og höfum misjafnar skoðanir. Við verðum að fá að velja og vera frjáls. Trúfrelsi er hluti af því að leyfa fólki að velja og hafa sínar skoðanir. En að fara fram á að t.d. úthýsa kristinni trú og kristnum gildum, hvort heldur er úr skólum eða banna með öðrum hætti er of langt gengið. Við erum kristið samfélag og kristin trú er samofin menningu okkar og þjóðarsál. Þeir sem vilja iðka kristna trú eiga rétt á því, alveg eins og þeir sem vilja iðka aðra trú eða enga trúa eiga rétt á því.

Fólk á rétt á að iðka trú sína (meðan það gengur ekki á rétt annarra), því andmælir enginn sem ég veit um. Það er aftur á móti mjög erfitt að halda því fram að fólk hafi einnig rétt á að iðka enga trú meðan ríkið styður trúfélög sérstaklega og trúboð er stundað í opinberum skólum. Með því er gengið á rétt til fólks til að standa utan trúarbragða. Það á að úthýsa trúariðkun úr skólum, þar á hún ekki heima. Kennsla um trúarbrögð á heima þar.*

Auðvitað erum "við" ekki kristið samfélag þó hér sé meirihlutinn enn skráður í kristin trúfélög. Aðrir tilheyra samfélaginu nefnilega líka og eiga að hafa nákvæmlega sömu réttindi. Auk þess segir trúfélagsskráning ekki allt, samkvæmt rannsóknum á trúarviðhorfum íslendinga sagðist rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar vera kristinn árið 2004 og enn færri trúa grundvallarkenningum kristinnar trúar.

Það að standa vörð um kristna trú stuðlar að meiri kærleika og hjálpar okkur að byggja upp enn betra og sanngjarnara samfélag.

Ég fæ ekki séð að þetta standist hjá honum. Hið opinbera á alls ekki að standa vörð um kristna trú, fólki er frjálst að iðka hana á sama hátt og aðrir mega sleppa því og öllum er frjálst að benda á að kristin trú er hindurvitni. Það er ekki heldur neitt sem bendir til þess að samfélagið verið betra og sanngjarnara þegar fólki er mismunað á grundvelli trúarbragða eins og raunin er í dag. Sumum finnst sú mismunun léttvæg en hefur það ekki verið sagt næstum alltaf þegar fólk réttlætir mismunum? Getum við ekki líka verið sammála um að samfélagið er betra og sanngjarnara í dag en fyrir hundrað árum - þó ítök kristni séu miklu minni í dag?

*Það er ekki hægt að segja að heimsóknir í kirkjur falli undir kennslu, þetta er bara stagl. Það er ekkert kennslugildi fólgið í árlegum kirkjuheimsóknum skóla um jólin.

kristni pólitík
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)