Örvitinn

Frjálshyggjusamsærisgaurar

Geir Ágústsson
Geir er forsíðumynd því hann setti like við status!
Drögum andann djúpt, höldum honum inni, slökum á, lesum fyrirvarana...

...og öndum hægt og rólega frá okkur.

Geir, Glúmur, Sigríður, Frosti og Frosti, Erna Ýr, Arnar Ar og Arnar Þór, Almar Örn, Guðmundur St, Bjarki, Þórður, Skúli, Kristján, Addi, Andri... Listinn er svo langur að það er ekki nokkur leið að taka hann saman enda er það aukaatriði. Þá vantar auðvitað herskara nafnlausra aðganga sem aðhyllast sömu hugmyndir og tengjast oft innbyrðis og tilteknum nafngreindum einstaklingum.

Hvers vegna fjalla ég um frjálshyggjusamsærisliðið í greinaflokk (ef ég má nota það orð) um nasista, fasista og fylgjendur þeirra?

Ég var einu sinni frjálshyggjumaður (og nörd)

Kommon, ég ólst upp í Garðabæ og gekk í Verzló. Mér var ekki viðbjargandi, auðvitað studdi ég Sjálfstæðisflokkinn og aðhylltist ýkta frjálshyggju, einkaframtakið bætir (allt) og kætir (alla).

Tíminn leið, hann getur ekki annað, ég óx úr grasi, þroskaðist eitthvað og vanþroskaðist dálítið á móti líka, og flestar skoðanir mínar breyttust eða þróuðust. Suss, ég er ekki að segja að það sé merki um vanþroska eða skort á lífsreynslu að aðhyllast harða frjálshyggju þó það mætti stundum halda. Mér finnst reyndar oft skrítið þegar fólk hefur aldrei skipt um skoðun á nokkru á fullorðinsaldri.

Ég held ég geti sagt að ég sé nokkuð vinstrisinnaður en sósíalistarnir (úr Sósíalistaflokknum) sem elska mig ekki, kalla mig "libba" og finnst fátt hræðilegra, ekki einu sinni öfgafrjálshyggjufólk! Ætli mætti ekki kalla mig einskonar krata, félagshyggjumann með jákvæð viðhorf til einkareksturs á flestum sviðum og með mikla andúð á dólgakapítalisma, Evrópu- og alþjóðasinnaður. Er hlynntur innflytjendum og fjölmenningarsamfélagi, en aðhyllist ekki hugmyndir um engin landamæri.

Jökull Sólberg blokkar mig
Meðlimur í framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins skrifar athugasemd um mig hjá torfi_k sem mun koma meira við sögu

Ég átti ágæt samskipti við einhverja frjálshyggjumenn á Twitter þó við værum ekkert sammála um allt, eflaust voru þeir dálítið ánægðir með mig meðan ég baunaði á Eflingarforystuna (hóp sem ég er enn ósammála um margt), en einhvern vegin tókst mér að missa þá flesta, sennilega þegar ég brást furðu lostinn við sumum tvítum. Þeir hættu að fylgja mér einn af öðrum og ég varð í alvöru dálítið leiður inni í mér. Það sama gerðist með nokkra róttæka vinstrimenn, suma sem ég hefði kallað vini eða kunningja. það væri barnalegt að líta ekkert í eigin barm en hver er ég að afneita mínu innra barni? Þetta er öllum öðrum að kenna!

Ég er semsagt að reyna að koma því frá mér að ég hef alveg getað átt samskipti við fólk sem ég er ekki sammála og geri engar kröfur til þess að allir hafi sömu skoðanir og ég. Þar til mjög nýlega blokkaði ég enga á Twitter.

Athugasemd Einars hitti ekki í mark
Einar greinir mínan pólitík dálítið skakkt í athugasemd við tvít mitt þar sem ég sagðist hafa látið bólusetja mig

Samsæriskenningar og covid

Svo kom covid og þá virtust, frá mínum bæjardyrum séð, ansi margir frjálshyggjumenn finna sér nýtt áhugamál og nýjan persónuleika. Skiljanlega brást þessi hópur afar illa við takmörkunum á frelsi borgara, annað væri úr takti við hugmyndafræði þeirra. Það þýðir ekki að eðlilegt sé að stökkva skyndilega á allar jaðarkenningar sem í boði eru, eyða næstu árum í að útvarpa næstum eingöngu slíkum kenningum og láta eins og vísindasamfélagið sé að stóru leyti partur af einhverju trylltu samsæri.

Skopmynd, vélmenni segir að vísindamenn hafi rangt fyrir sér upp til hópa
Mynd eftir J. Burrello
Ég hef verið áhugamaður um samsæriskenningar ansi lengi og las greinar um falsaða tunglendingar, djöfladýrkendafár, sköpunarkenningar, Area 51 og hina ýmsu fljúgandi furðuhluti seint á síðustu öld. Margt af þessu var áhugavert en samsærissinnar voru sárafáir og umræður ekki á allra vitorði.

Árásin á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001 varð upphafið að ótrúlega lífseigum samsæriskenningum og fólk sem aðhylltist ekki ýktustu kenningar tók jafnvel undir einhverjar vægari útgáfur. Það lenti stundum á mér að deila við fólk um það. Ekki láta ykkur dreyma að ég ætli að rökræða samsæriskenningar hér og nú, grínlaust, ég mun bara eyða athugasemdum um 9/11.

Covid

Covid kom, fólk dó og skynsömum manneskjum þótti ástæða til að bregðast við. Það er nefnilega frekar óheppilegt þegar margt fólki deyr, eða það finnst okkur libbunum! Auðvitað má deila um það eftirá hvort hin og þessi ákvörðun hafi verið rétt, það er auðvelt að vera vitur eftirá. Sannarlega voru gerð mistök og ýmislegt sem ákveðið var snemma í covid reyndist rangt, t.d. áherslan á snertismit en ekki loftgæði og grímunotkun eins og Frosti Sigurjónsson benti réttilega á, en fólk tók ákvarðanir út frá þeim upplýsingum sem það hafði og aðstæðum sem þá voru. Annað er nefnilega ekki hægt, tíminn gengur nefnilega áfram eins og ég nefndi áður. Það er líka dálítið skemmtilegt að rifja upp að hugtakið "fasisti" var töluvert notað af frjálshyggjusamsærisnötturum á þessum tíma.

Uppúr mótlætinu sem covid aðgerðir voru gengu fjölmargir frjálshyggjusamsærisnöttar af göflunum, gerðust á einni stundu alvitrir um sóttvarnir, sem þeim þóttu tilgangslausar og bóluefni sem þeim þykja hættuleg. Fólk sem ég hefði áður talið nokkuð skynsamt var skyndilega farið að daðra við hugmyndir um að sjúklingar, aldraðir og annað viðkvæmt fólk gæti bara drifið sig að drepast til að við hin þyrfum ekki að taka á okkur meiri kostnað og óþægindi.

Þegar búið var að bólusetja flesta landsmenn og aflétta öllum takmörkunum tók við endurskoðun sögunnar og nýlega hefur sumt af þessu fólki dregið þá ályktun að fyrst veikum hafi fjölgað eftir að sóttvarnaraðgerum var hætt hafi lítill tilgangur verið með þeim, sem er furðulega öfugsnúin röksemdafærsla! Sífellt er vitnað í að Svíþjóð hafi staðið sig þjóða best og margir á því að allt hafi þetta verið algjört leikrit, covid ekkert verra en slæmt kvef og flest fólk muni jú deyja að lokum, þetta sé því stormur í vatnsglasi.

Ég bloggaði fyrir tveimur árum.

Einu sinni tengdi ég flestar samsæriskenningar við fólk langt til vinstri, fyrir utan þá sem ekki trúa á Þróunarkenninguna, sem voru og eru (kristna) hægra megin. Nýöld og samsæri voru kokteill. Síðustu ár hefur þetta algjörlega snúist við og langflestir sem aðhyllast samsæriskenningar opinberlega eru frjálshyggjumenn. En það má líka segja að nú sé uppskriftin að kokteilnum breytt; nýöld, frjálshyggja og samsæri. Með dassi af rasisma stundum.

Reglulega gera þeir samt lítið úr slíkum ásökunum, vísa á bullgreinar og segja eitthvað í átt við; „á ekki bara að kalla allt samsæri“. Svarið er óþægilegt of , þetta sem þú ert að fjalla um núna er samsæriskenning, það tekur 30 sekúndur að staðfesta það.

Uppruni covid

Hugmyndir um uppruna covid eru ágætt dæmi um það hvað umræðan getur verið flókin. Vissulega voru uppi kenningar (ekki samsæris-) um að covid hefði orðið til á rannsóknarstofu. Vísindamenn skoðuðu þá kenningu ásamt kenningu um náttúrlegan uppruna og komust að lokum að því að nær útilokað væri að covid hefði orðið til á rannsóknarstofu og allt benti til að covid hefði borist frá dýrum í menn. Auðvitað tjá vísindamenn sig varlega og útiloka helst ekkert fyrr en þeir hafa öll gögn. Þannig er hægt að vitna í Fauci sem útilokaði þetta ekki, því það var verið að skoða málið.

Það var ekkert að því að aðhyllast kenningu um leka af rannsóknarstofu, en þegar niðurstöðu liggja fyrir, er það orðin samsæriskenning að halda sig við kenninguna.

Kemur síðar í ljós að þetta var allt samsæri og Kínverjar hafa falsað gögn til að fela þá "staðreynd" að covid-19 á uppruna sinn á rannsóknarstofu? Það getum við ekkert vitað um núna, en í besta falli er hægt að segja að sú kenning byggir á afar veikum grunni í dag.

Ekki bara covid

Frosta er kalt
Frosti Sigurjónsson telur kaldan vetur afsanna hnattræna hlýnun

Ef þetta væri bara covid væri staðan einföld en svo er bara alls ekki. Þessi hópur sem ég uppnefni sem frjálshyggjusamsærisnöttara hefur flestar af eftirfarandi skoðunum:

(fólk getur samt aðhyllst eitthvað af þessu án þess að falla í flokk frjálshyggjusamsærisgaura)

torfi_k að tjá sig
Það er alveg ótrúlega algengt að frjálshyggjusamsærisnöttarar dreifi röngum og/eða fölsuðum upplýsingum og yfirleitt krefst ekki mikillar fyrirhafnar að sjá að svo er, en það virðist aldrei skipta máli.

Ég gæti skrifað alltof mikið um þetta og ein ástæða þess að það hefur tekið mig tíu daga að koma þessari bloggfærslu frá mér er að ég er með alltof mikið efni í höndunum, ég hef ekki tíma til að hafa þetta styttra! Ég ætla að fjalla um annað, þessi grein er bara útúrdúr, en þó ekki.

Musk og einsleitar skoðanir

Musk keypti Twitter, sagði upp flestu starfsfólki og ákvað að tjáningarfrelsi fordómafullra væri mikilvægasta frelsið. Lofaði að hætta allri ritskoðun/ritstýringu og viti menn, rasistarnir skriðu úr skúmaskotum (4chan).

Eins og ég sagði í fyrstu grein, brá mér þegar íslensku nasistarnir birtust allt í einu og hvað þeir eru margir. Það kom mér líka algjörlega í opna skjöldu þegar ég sá að frjálshyggjusamsærisgaurarnir hópast í kringum og eru viðhlæjendur þeirra. Mér finnst það grafalvarlegt. Kannski er hluti ástæðunnar að nasistarnir "stuða" woke/góða fólkið og allt sem stuðar "góða fólkið" er gott. Óvinur óvina minna.

Þegar níu einstaklingar sitja við borð og nasisti sest hjá þeim, og enginn stendur upp, þá sitja tíu nasistar við borðið. Hvað þá ef allir tíu hlæja saman. Sem er það sem hefur gerst á Twitter/X undanfarið.

Þess vegna fjalla ég um frjálshyggjusamsærisliðið í greinaflokk um nasista, fasista og fylgjendur þeirra.

Athugasemdir

Erlendur - 20/01/24 21:30 #

Ef einstaklingur gæti ekki gert greinarmun á tekjum og eignum, þá myndu þessir aðilar gera stólpagrín að þeim. Svo það skemmtir mér að sjá þá rugla saman veðri og loftslagi.

Ásgeir - 21/01/24 07:29 #

Hluti af þessu er náttúrulega Trump og viðbrögð fjölmiðla annars vegar við honum og vinstrimanna hinsvegar—það hefur rekið tiltölulega eðlilegt hægrafólk lengra í algjöra sturlun.

Ég man einu sinni eftir því þegar Trump flutti einhverja alveg galna ræðu þar sem hann óð á súðum um andstæðinga sína, o.s.frv. RÚV flutti frétt af því þar sem ummæli hans voru skilmerkilega (og réttilega) rakin.

Eftir það sá ég athugasemd frá Sjálfstæðismanni um hvað það væri fráleitt af RÚV að flytja svona frétt af forseta Bandaríkjanna—áherslan ætti að sjálfsögðu að vera af því sem hann sagði um stjórnmál og stefnumál sín, ekki svona bull.

Svo ég spurði manninn hvort hann hefði hlustað á ræðuna (en það hafði ég gert, svo ég vissi að frétt RÚV var bara nokkuð nákvæm, þetta var það langfréttnæmasta í henni).

Hann neitaði því og eftir nokkrar umræður kom í ljós að hann var sannfærður um að þar sem Trump væri forseti, þá hlyti hann að hafa sagt eitthvað bitastæðara en þetta og þar með að RÚV væri að ljúga. Það var ekkert á við þetta nema hans eigin „bias“.

Ég er að segja þetta af því að ég held að svipuð dýnamík hafi haft áhrif á marga hægrimenn: Eftir þetta myndaði hann sér þá skoðun að RÚV væri „biased“ og þar með minnkaði traustið á RÚV. Næst þurfti minna til, til að minnka það enn meira, o.s.frv.—jafnvel þó að það væri í raun og veru ekkert að fréttaflutningi RÚV!

Matti - 21/01/24 10:50 #

Mjög góður punktur. Trump og MAGA var á listanum mínum en komst ekki að.

RÚV raus frjálshyggjumanna er stundum yfirgengilegt. Mjög algengt að ásaka RÚV um að hafa ekki fjallað um eitthvað mál, en svo þegar fólk leitar eru umfjallanir um málið á öllum miðlum RÚV.

Annað áhugavert frá þessum íslenska MAGA! hópi er viðhorf til mótmæla. Þannig er Trudeau að þeirra mati algjör fasisti fyrir að hafa stoppað mótmæli atvinnubílstjóra í Kanada, en BB algjör hetja fyrir að tjá sig um friðsöm mótmæli á Austurvelli. Kanadískir mótmælendur sem stöðva umferð hetjur, umhverfissinnar sem stöðva umferð algjörir terroristar.

Það er oft mjög erfitt að skilja frjálshyggjusamsærisliðið.

Þetta rugl með staðbundið veður og veðurfar jarðar er endurtekið ótrúlega oft og það skiptir engu máli hversu oft það er leiðrétt. Þeir vita flestir betur held/vona ég.

Lalli - 21/01/24 20:26 #

(Lifi bloggið!)

Ég hafði ekki hugsað út í það áður hvernig þungamiðja samsæriskenninga hefur leitað til hægri undanfarið, kannski er eitthvað til í því. Þá dettur manni í hug að í gamla daga var gamla Sovét duglegt í að dæla út villandi áróðri sem margir gleyptu við. Nú á dögum hefur Rússland tekið við því kefli en hafa færst töluvert til hægri.

Matti - 22/01/24 21:40 #

Ég kýs að túlka þetta sem innlegg Almars í umræðuna en hann hefur sennilega ekki treyst sér til að skrifa athugasemd hér.

Ásgeir - 25/01/24 09:18 #

Maður heyrir þetta náttúrulega oft.

En það fylgir aldrei sögunni HVAÐ þeir eru ósammála um eða HVAÐ þeir voru að læka. Oft þegar það er skoðað, þá dettur botninn úr þessu væli.

Helgi Briem - 26/01/24 14:49 #

Þetta er frábær grein, Matti. Vildi hafa skrifað hana sjálfur. Þessi tilhneiging frjálshyggjumanna til að afneita vísindum og vísindalegri aðferð er með ótrúlegri vendingum í nútímaumræðu.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)