Örvitinn

Myndvinnsla - Unsharp Mask

Það er óhætt að segja að ég sé alltaf að læra eitthvað nýtt í ljósmyndun og myndvinnslu. Þegar ég skoða myndirnar frá Toskana í sumar sé ég strax að ég hefði átt að gera miklu meira af því að nota flass um miðjan dag (fill flash) til að fylla upp í skugga, fór ekki að temja mér það fyrr en ég kom heim. Í dag er ég vafalítið að gera helling af mistökum sem ég mun lagfæra síðar.

Ég hef hingað til verið frekar hógvær í allri myndvinnslu. Notað auto curvers, kannski levels og svo hóflegt unsharp mask og reyndar verið duglegur við að nota DxO Optics Pro.

Um daginn rakst ég á góða grein um grundvallaratriði myndvinnslu. Merkilegasti hluti greinarinnar fjallar um notkun unsharp mask. Ég hafði satt að segja ekki hugmynd um að sá filter væri svona fjölhæfur, sýnir ágætlega hvað ég á eftir að læra mikið. Hef prófað að fikta í þessu síðan.

Í nótt prófaði ég að fikta í einni mynd, fór þó ekki nákvæmlega eftir þessum leiðbeiningum. Fyrst tók ég RAW skrána og breytti örlítið hvítvægi og contrast. Það er fyrri myndin. Svo notaði ég unsharp mask með 0 í threshold en há gildi í Amount og Radius, fiktaði bara þar til mér fannst þetta líta þokkalega út. Ef þið setjið bendilinn yfir myndina hér fyrir neðan ætti síðari útgáfan að koma í ljós.

Mér finnst rosalegur munur á myndunum, eins og maður þrífi móðuna af fyrri myndinni þegar maður setur bendilinn yfir. Prentaði síðari útgáfuna út á A4 í nótt og það kom mjög vel út.

Ef það virkar ekki að færa bendilinn yfir myndina eru hér linkar á myndirnar: Fyrir - Eftir

myndir