Kolla veik
Inga María jafnaði sig af veikindum og við fórum því í bæinn á Menningarnótt. En þá náði Kolla sér í pest. Var komin með hausverk í gærkvöldi og í morgun verkjaði hana verulega í eyrun. Gyða fór með hana á læknavaktina þar sem í ljós kom að önnur hljóðhimnan var eldrauð (Gyða fékk að kíkja) auk þess að Kolla var með hálsbólgu.
Hún fékk sýkla- og verkjalyf og er búin að vera ágæt síðan.
Gyða verður heima með stelpunum þessa viku, á eftir nokkra daga af sumarfríinu sínu. Skólasetning á miðvikudag og engin gæsla í boði fyrir stelpurnar.
Kristín í París - 20/08/07 08:45 #
Það þyrfti nú alveg að fara að taka almennilega á gæslumálum á Íslandi, hreinlega óþolandi þessi krafa um að allir hafi góðan aðgang að fjölskyldu eða vinum sem redda hver öðrum. Kveðja til veiku stelpunnar og allra hinna stelpnanna líka með þökkum fyrir síðast.
Gyða - 20/08/07 10:07 #
Já það er alveg satt að það er skrítið að leikjanámskeiðin klárist síðasta föstudag. En ég sé samt rosalega mikil framför í þessum málum síðan Áróra (15 ára) var í skólagæslu. Eða kannski eru þeir bara að standa sig svona vel í skólagæslunni í þessu hverfi. Hér er yfirleitt alltaf opið þegar skólinn er lokaður og skemmtilegt val af verkefnum við að vera eftir skóla. Sömu starfsmenn að hluta til sem eru síðan með leikjanámskeiðin á sumrin. Verst hvað gengur illa að ráða og Kolla er því ekki komin með pláss núna tveim dögum áður en skóli hefst :-/ En Inga María er í forgangi þar sem hún er í 1.bekk.
Ég skilaði kveðju til stelpnanna og þær brostu hringinn mundu strax eftir Kristínu í frakklandi :-) Biðja að heilsa þér til baka og ég líka auðvitað :-)
Sirrý - 20/08/07 16:41 #
Vona að Kolla jafni sig fljótt. Elísa var greynd með eyrnabólgu á laugardaginn og er bara mikið hressari í dag.
Kristín í París - 21/08/07 07:45 #
Já, sem betur fer hefur ýmislegt verið bætt til muna. Það gengur einfaldlega ekki lengur að láta börn ganga sjálfala með lykla um hálsinn eins og ég gerði í Breiðholtinu frá 6 ára aldri. Þá var það ekkert mál, nokkrar mömmur til staðar í blokkinni og mamma að vinna í hverfinu líka ef mikið lá við. Svona er þetta ekki lengur, skilst mér.