Örvitinn

Laun og vinnutími bankastjóra

landslag
Bankastjóri gæti t.d. eytt meiri tíma í að njóta náttúrunnar.
Ein rökin fyrir því að bankastjóri Landsbankans fær verulega launahækkun er að hann hefur unnið svo mikið!

Árið 2015 er að enda, 2016 kemur á morgun. Segið manninum að vinna minna og njóta lífsins. Hann er með fjölmarga sérfræðinga í vinnu og það er ekkert sem mælir með því að æðsti yfirmaður Landsbankans sé að vinna gríðarlega mikið. Fjörtíu tímar á viku eiga að duga, nokkrir í viðbót af og til eðlilegir á þessum kjörum og í svona vinnu. Auðvitað fylgir starfinu að bankastjóri er "alltaf í vinnunni" eins og flestir sérfræðingar en það fá fæstir greitt aukalega fyrir það. Sumir sérfræðingar eru jafnvel á ömurlegum launum og samt alltaf í vinnunni (þá má marga finna í Háskóla Íslands).

Það versta við umræðuna um laun bankastjóranna er aftur er það viðhorf farið að sjást að bankastjórar (og aðrir bankamenn) hljóti að vera rosalega klárt og duglegt fólk vegna þess að árangurinn er svo góður. Þannig hafa bankastjórar hinna bankanna miklu hærri laun en stjóri ríkisbankans. Auðvitað er árangurinn góður, það hefði þurft verulega greindarskert fólk til að klúðra málum frá hruni þegar byrjað var með allar eignir verðlagðar í núlli eða því sem næst.

Svo þegar næsta niðursveifla kemur mun bankafólk segja; „hvernig áttum við að sjá þetta fyrir - við erum ekki alvitur“.

Við höfum séð þetta áður, a.m.k. tvisvar á þessari öld. Gæti þetta fólk fengið hærri laun annars staðar í dag? Sennilega. Gæti annað fólk sinnt þessum verkum jafn vel á sömu kjörum eða jafnvel lægri? Að sjálfsögðu.

kvabb
Athugasemdir

Matti - 31/12/15 13:45 #

Hugmyndir um að árangurstengja laun bankastjóra eru auðvitað glæfralegar. Lærir þetta fólk ekkert af sögunni? Góður bankastjóri hefur langtímahagsmuni banka í fyrirmuni, ekki skammtíma. En árangurstengd laun snúast nær alltaf um skammtíma hagsmuni. Slíkt hvetur bankastjóra og aðra yfirmenn til að hámarka hagnað til skamms tíma sem aftur getur leitt til verri niðurstöðu síðar.

En ef fólk ætlar bara að selja bankann til vildarvinna eftir sárafá ár skiptir ekkert af þessu máli!

Stebbi - 07/01/16 10:53 #

Ég fylgist greinilega ekki nógu vel með. Hvað varð um ákvæðið um að laun sem kjararáð ákveður megi ekki vera hærri en laun forsetisráðherra? Ég sé ekki betur en að það sé ennþá óbreytt í 8.gr. laga um kjararáð.

Ef horft er framhjá því ákvæði er samt auðvelt að færa rök fyrir því að úrskurður kjararáðs kveði í raun tæknilega á um of lág laun fyrir bankastjórann, í ljósi lagaskyldu ráðsins, ef hann er þrátt fyrir hækkunina talsvert launalægri en bankastjórar hinna bankanna ("Við úrlausn mála skal kjararáð gæta ... [þess að starfskjör sem það ákveður] séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.") Varla er neinn hópur eins "sambærilegur" við bankastjórann eins og bankastjórar hinna bankanna, sem samkvæmt fréttum eru ennþá talsvert launahærri.

Ég hef ekki lesið rökstuðning frá kjararáði, og veit ekki hvort það er ráðið sem hefur talað um hvað maðurinn vinnur mikið í þessu sambandi. Hins vegar sé ég ekki betur en að ráðið sé í þessu að fylgja lögum sem Alþingi hefur sett, og gangi í raun heldur skemur í launahækkuninni en lögin kveða á um (með fyrirvara um ákvæðið um að laun séu ekki hærri en hjá forsætisráðherra, sem ég sé ekki ennþá af hverju eiga ekki við).

Gagnrýni á þessa niðurstöðu ætti því kannski frekar að beina að lögunum og þeirri launaþróun sem hefur verið að eiga sér stað hjá stjórnendum í einkafyrirtækjum, frekar en að kjararáði.

Ef stjórnendur í einkageiranum eru að fá launahækkanir sem eru langt umfram það sem er að finna í almennum kjarasamningum þá munu æðstu embættismenn hjá ríkinu líka fá slíkar launahækkanir á meðan í gildi eru lög sem kveða á um að kjararáð skuli tryggja þeim laun sem séu "í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar."

Matti - 03/02/16 21:49 #

Þarna eru augljóslega lög sem þarf að breyta.

Svo er það hin hliðin. Auðvitað á að banna þessi laun hjjá einkafyrirtækjum í fjármálageiranum (neibb, ég er ekki að grínast). Þessi ofurlaun í fjármálageiranum eru augljóslega stórhættuleg.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)